Guð birtir spámanninum, að Kaldeum skuli refsað verða fyrir þeirra ásælni, yfirgang og ofríki.

1Eg hélt vörð, og stóð uppi á varðborginni, og skyggndist um, til að sjá hvað hann mundi opinbera mér, og hvörju eg skyldi svara því, sem móti mér yrði haft.2Þá svaraði Drottinn mér, og sagði: Skrifa þú spádóminn upp, og graf hann á spjöld svo skýrt, að lesa megi viðstöðulaust;3því spádómurinn hefir enn fyrir sér tiltekna tíð, en hann skundar að takmarkinu, og mun eigi bregðast; og þó hann dvelji (dragist), þá vænt hans, því hann mun vissulega framkoma, og ekki undan líða.4Tak eftir því, að sá sem er vantrúaður, hans sál mun ekki þar af farsæl verða; en sá sem trúir réttilega, hann mun sæll verða.5Því síður getur dramblátur maður, sem lætur vínið gjöra sig vitstola, langgæður orðið: hann, sem sperrir sundur gin sitt, eins og myrkra ríkið, er óseðjandi, sem dauðinn sjálfur, safnar til sín öllu fólki, og dregur að sér allar þjóðir.6Sannlega munu allar þessar þjóðir (eitt sinn) kveða um hann kvæði og háðvísur í orðskviðum, á þessa lund: „Vei þeim, sem rakar saman ófrjálsu fé (hve lengi mun hann að því búa?) og hleður á sig synda byrði!“7Sjá, skyndilega munu þeir menn upp rísa, sem munu plága þig, og þeir upp vakna, sem munu þrengja að þér, og þú skalt verða þeim að herfangi.8Sökum þess að þú hefir rænt svo margar þjóðir, skulu allar þær þjóðir, sem eftir eru, ræna þig, fyrir þau manndráp og það ofríki, sem þú framdir í landinu og borginni, og á öllum, sem þar bjuggu (búa).9Vei þeim, sem sækist eftir röngum ávinningi fyrir sitt hús, til þess hann geti byggt sér hreiður hátt uppi, og verið óhultur fyrir óvin sínum.10Þú tókst upp það ráð, sem varð þínu húsi til smánar, þegar þú afmáðir margar þjóðir, og stofnaðir sálu þinni í háska.11Steinninn í veggnum vitnar það, og þvertréð í húsinu ber það með honum.12Vei þeim, sem byggir upp nokkurn stað með manndrápum, eða leggur grundvöll til nokkurar borgar með rangindum!13Er það ekki ráðstöfun Drottins allsherjar, að þjóðirnar vinna sig móðar við eldinn, og mennirnir þreyta sig á hégómanum?14til þess að jörðin verði eins full af viðurkenningu Drottins dýrðar, eins og sjórinn er fullur af vötnunum.15Vei þér, sem skenkir á fyrir þinn náunga! sem byrlar öðrum brennandi drykk, og gjörir þá ölvaða, til þess þú megir sjá þeirra svívirðingu;16Þú skalt mettur verða af vanvirðu, en ekki af heiðri. Drekk þú nú einnig, svo þín smán verði opinber! Bikarinn í hægri hendi Drottins fer nú í kring til þín, svo þú skalt taka vansa fyrir vegsemd.17Það ofríki, sem þú hafðir í frammi við Líbanonsfjall, skal á þér bitna; óarga dýr skulu ásækja þig fyrir þau manndráp og það ofríki, sem þú framdir í landinu og borginni, og á öllum, sem þar bjuggu.18Hvað stoðar skurðgoðið, sem smiðurinn hefir úthöggvið? eður hið steypta líkneski, og sá, sem kennir lygar einar? því smiðurinn hefir treyst á það smíði, sem hann sjálfur tilbjó, þá hann smíðaði mállaus goð.19Vei þeim, sem segir til trésins: „rís upp“, og til hins mállausa steins: „vakna þú“. Mun hann geta kennt? Nei, þó tréð og steinninn séu gulli og silfri búin, þá er þó enginn andi í þeim.20En Drottinn er í sínu heilaga musteri; öll jörðin þegi fyrir hans augliti!