Framhald um eyðilegging Gogs, 1–24; varðveisla Guðs fólks, 25–29.

1Þú, mannsins son! spá þú í móti Gog, og seg: Svo segir Drottinn alvaldur: sjá, eg rís í móti þér, Gog, þú æðsti höfðingi yfir Meseks og Túbalsmönnum;2eg skal snúa þér í krók og kring, og fara með þig hvört á land sem eg vil: eg skal fara með þig frá þeim nyrstu landsálfum, og flytja þig upp á Ísraelsfjöll;3þá skal eg slá boga þinn úr þinni vinstri hendi, og láta þínar örvar detta úr hinni hægri.4Á Ísraelsfjöllum skaltu falla, þú og allir þínir herskarar, og þær þjóðir, sem eru í för með þér; eg hefi ætlað þig til bráðar handa ránsfuglum, öllum flugdýrum og skógardýrum;5á víðavangi skaltu falla, því eg hefi talað það, segir Drottinn alvaldur.6Eg vil steypa eldi yfir Magog, og yfir þá, sem ugglausir búa í fjarlægum strandbyggðum, svo þeir skulu viðurkenna, að eg em Drottinn.7Eg vil gjöra mitt heilaga nafn kunnugt á meðal míns fólks, Ísraelsmanna, og ekki framar láta vanhelga mitt heilaga nafn, og heiðingjarnir skulu viðurkenna, að eg em Drottinn, sá heilagi í Ísrael.8Sjá, það kemur fram, það er þegar fram komið, segir Drottinn alvaldur; það er sá dagur, sem eg hefi talað um.9Þeir sem búa í Ísraels borgum, skulu út ganga og eld kynda, og brenna upp hervopnin, búklarana, skjölduna, bogana, örvarnar, pálstafina, lensurnar; í sjö ár skulu þeir elda þessu;10þeir skulu ekki þurfa að sækja við í mörkina eða höggva tré í skógunum, því þeir skulu hafa vopnin fyrir eldivið; þeir skulu fletta þá, sem þá flettu, og ræna þá, sem þá rændu, segir Drottinn alvaldur.11Á þeim degi vil eg veita Gog legstað samastaðar í Ísraelslandi, dal þann, sem leið liggur um fyrir austan hafið, og skulu þeir, sem þar fara um, verða að byrgja fyrir vit sín; og þar skal Gog verða grafinn og allur hans mannfjöldi, og skal sá dalur kallast Gogsmúgadalur.12Ísraelsmenn skulu vera að í sjö mánuði, að jarða þá, áður þeir fái hreinsað landið;13allt landsfólkið skal starfa að þeim grefti, og sá dagur, er eg auglýsi mína dýrð, skal verða þeim til frægðar, segir Drottinn alvaldur.14Vissir menn skulu verða tilteknir, sem fara skulu um landið, og þeir skulu, með tilhjálp þeirra sem um veginn fara, grafa þá, sem eftir hafa orðið ofanjarðar, til þess að hreinsa landið. Að liðnum sjö mánuðum skulu menn taka til að rannsaka landið;15fari þá ferðamenn um landið, og sjái einhvör þeirra mannsbein, þá skal hann hlaða þar vörðu hjá, svo að graftrarmennirnir geti síðan jarðað þau í Gogsmúgadal;16þar skal og borg nokkur nefnast Múgaborg. Þannig skulu þeir hreinsa landið.17Þú mannsins son, svo segir Drottinn alvaldur: seg til fuglanna, allra flugdýra og allra skógardýra: safnið yður saman og komið, safnist að úr öllum áttum til minnar sláturveislu, sem eg held yður, til hinnar miklu sláturveislunnar á Ísraelsfjöllum; etið kjöt, og drekkið blóð!18Kjöt hinna voldugu skuluð þér eta, og drekka blóð jarðarinnar höfðingja, blóð hrútanna, lambanna, hafranna, uxanna, sem allt er alið á Basansheiðum.19Í þeirri sláturveislu, sem eg held yður, skuluð þér eta mörinn, uns þér verðið saddir, og drekka blóðið, uns þér verðið drukknir;20þér skuluð seðjast við mitt borð af hestum og riddurum, af stóreflismönnum og alls konar hermönnum, segir Drottinn alvaldur.21Þannig vil eg kunngjöra mína dýrð meðal heiðingjanna, og allar þjóðir skulu sjá þann dóm, sem eg framkvæmi, og mína hönd, sem eg legg á þá.22Upp frá þeim degi og framvegis skulu Ísraelsmenn viðurkenna, að eg em Drottinn, þeirra Guð.23Heiðingjarnir skulu verða að játa, að Ísraelsmenn hlutu að fara úr landi einungis vegna misgjörða sinna; sökum þess þeir höfðu misbrotið móti mér, byrgði eg mitt auglit fyrir þeim, og seldi þá í hendur óvina sinna, svo þeir féllu allir fyrir sverðseggjum.24Eg breytti við þá, eins og þeirra ótérlegi lifnaður og syndsamlega athæfi hafði til unnið, og byrgði mitt auglit fyrir þeim.
25Þar fyrir segir Drottinn alvaldur svo: nú vil eg aftur heim leiða þá herleiddu Jakobsniðja, og miskunna mig yfir alla Ísraelsmenn og vandlæta um mitt heilaga nafn.26Þegar þeir búa óhultir í sínu landi, án þess nokkur hræði þá, þá skulu þeir finna til sinnar svívirðingar, og til allra þeirra misgjörða, sem þeir hafa drýgt á móti mér.27Þegar eg leiði þá heim aftur frá þjóðunum, og safna þeim saman úr löndum óvina sinna, þá skal eg verða helgaður meðal þeirra í augsýn margra heiðingja.28Þeir skulu þá viðurkenna, að eg var Drottinn, þeirra Guð, bæði þegar eg herleiddi þá meðal heiðingjanna, og eins þegar eg samansafnaði þeim aftur í þeirra land, án þess að láta þar nokkurn þeirra eftir verða.29Eg vil ekki framar byrgja mína ásjónu fyrir þeim, eftir að eg hefi úthellt mínum anda a) yfir Ísraelsmenn, segir Drottinn alvaldur.

V. 29. a. Sjá Kap. 36,27.