Heilsan og uppörvan. Fátækir og ofsóttir kallast sælir. Orsök til freistinga. Áminningar.

1Jakob, Guðs og Drottins Jesú Krists þjón, heilsar þeim 12 kynkvíslum, sem á sundrungi búa a).
2Álítið það mesta fagnaðarefni, bræður mínir! þegar þér ratið í ýmislegar raunir,3því reynsla yðar trúar verkar stöðuglyndi.4En stöðuglyndið á að fullkomna verkið, svo að þér séuð fullkomnir og algjörðir og í engu brest hafið.5En vanti einhvörn yðar visku, sá biðji þann, sem gefur öllum eftirtölulaust og án brigslyrða og mun hún honum gefast.6En hann biðji með trúnaðartrausti og efist ekki; því sá, sem er efablandinn, hann er líkur hafsins bylgjum uppæstum og hröktum af vindi.7Þvílíkur maður hugsi ekki að hann fái nokkuð hjá Drottni.8Hann, er maður tvílyndur, óstöðugur í öllu sínu ráðlagi.
9Sá lítilmótlegi bróðir hrósi sér í sinni upphefð a), en sá ríki í sinni lægingu b);10því eins og grassins blóm mun hann hverfa;11því þá sólin hækkar með steikjandi hita, skrælnar grasið og þess blóm dettur af og fegurð þess útlits tortýnist; þannig mun hinn ríki visna á sínum vegum.12Sæll er sá maður, sem stenst reynsluna, því þegar búið er að reyna hann mun hann meðtaka kórónu lífsins, sem Guð hefir þeim heitið, er hann elska.
13Enginn, sem freistast, segi: eg freistast af Guði, því Guð freistast ekki af hinu illa, en hann sjálfur freistar og einkis;14heldur freistast sérhvör dreginn og veiddur af sinni eigin girnd;15síðan, þar á eftir þá girndin hefir fengið getnað, fæðir hún syndina, en þá syndin er fullþroskuð, fæðir hún dauða.16Villist ekki, mínir elskulegu bræður!17öll góð og öll fullkomin gjöf er ofan að og kemur niður frá Föður ljósanna, hjá hvörjum hvörki er umbreyting né umskiptingarskuggi.18Eftir sínu ráði fæddi hann oss c) með sannleikans orði, að vér skyldum vera frumgróði hans skepna d).
19Þar fyrir, bræður mínir elskulegir! sé hvör maður fús til að læra, seinn til að kenna, seinn til reiði,20því mannsins reiði vinnur ekki það, sem rétt er fyrir Guði.21Afleggið því allan hroðaskap og gnægð illskunnar og meðtakið orðið með hógværð, sem í yður er gróðursett, það sem kröftugt er til að frelsa yðar sálir.22En verðið orðsins gjörendur og ekki einungis heyrendur, hvar með þér svíkið yður sjálfa.23Því, sé einhvör orðsins heyrandi og ekki gjörari, sá er líkur þeim manni sem skoðar sinn meðfædda andlitsskapnað í spegli:24hann skoðaði sig að sönnu, en þá hann var burtgenginn gleymdi hann hvílíkur hann var.25En sá, sem skyggnist inn í hið fullkomna frelsislögmál og heldur sér föstum þar við, er ekki gleyminn heyrari heldur gjörningsins gjörari, hans breytni mun gjöra hann sælan.26Þykist einhvör yðar á meðal guðrækinn og heldur ekki sinni tungu í taumi en tælir sitt eigið hjarta, hans guðrækni er fánýt.27Hrein og óflekkuð guðsdýrkan fyrir Guði og Föður er sú: að vitja munaðarlausra og ekkna í þeirra þrengingu og að varðveita sjálfan sig flekklausan frá heiminum.

V. 1. a. þ. e. búa meðal heiðinna manna utan Gyðingalands. Jóh. 7,35. V. 3. Róm. 5,3. V. 5. Orðsk.b. 2,3–5. V. 6. Jóh. 14,13. V. 9. a. þ. e. af því að hann er orðinn kristinn. b. þ. e. af því að hann er kominn til þekkingar á, að auður og veldi ágætir ekki manninn. V. 10. Esa. 40,6–8. V. 17. Jóh. 3,27. V. 18. 1 Pét. 1,23. c. þ. e. gjörði að öðrum og betri mönnum. d. sbr. Róm. 8,23. Jer. 2,3. V. 19. Orðskv.b. 5,1.2. 17,27. V. 21. Róm. 13,12. 1,16. V. 22. Matt. 7,21.24. V. 26. Sálm. 34,14.