Jóahas ríkir og Jóakim. Herleiðing Jóakims. Sedekías ríkir. Jerúsalem unnin. Önnur herleiðing. Leyft að fara heim aftur. (2 Kgb. 23,31–36. 24,7–18. 25,21. Esra 1,1.2.)

1Og landsfólkið tók Jóahas Jósíason og gjörði hann að kóngi í Jerúsalem í stað föður hans.2Hann hafði þrjá um tvítugt, þá hann varð kóngur, og ríkti þrjá mánuði í Jerúsalem.3Og Egyptalandskóngur setti hann frá völdum í Jerúsalem og lagði útlát á landið hundrað vættir silfurs og eina vætt gulls.4Og Egyptalandskóngur gjörði Elíakim, bróður hans að konungi yfir Júda og Jerúsalem, og breytti nafni hans, (og kallaði) Jójakim, og tók Jóahas bróður hans og flutti með sér til Egyptalands.5Jójakim hafði 5 um tvítugt þá hann varð kóngur, og ríkti 11 ár í Jerúsalem, og hann gjörði það sem illt var í augsýn Drottins síns Guðs.6Nebúkadnesar, kóngur í Babel, fór herför móti honum, batt hann fjötrum og fór með hann til Babel.7Nokkuð af áhöldum Drottins húss flutti Nebúkadnesar líka til Babel, og lét þau í sitt musteri í Babel.
8En hin önnur saga Jójakims og hans viðbjóður, sem hann aðhafðist, og það illt sem hann hafði til að bera, sjá! þar um er skrifað í bók Ísraels- og Júdakónga. Og Jójakin hans son varð kóngur í hans stað.
9Átján ára gamall var Jójakin þá hann varð kóngur, og þrjá mánuði og 10 daga ríkti hann í Jerúsalem. Og hann gjörði það sem illt var í augsýn Drottins.10En að ári liðnu sendi kóngur Nebúkadnesar og lét flytja hann til Babel, samt þau dýru áhöld Drottins húss, og gjörði Sedekía, bróður hans, konung yfir Júda og Jerúsalem.
11Sedekías var tvítugur, þá hann varð kóngur og ríkti 11 ár í Jerúsalem.12Og hann aðhafðist það sem illt var í augsýn Drottins, síns Guðs; hann auðmýkti sig ekki fyrir Jeremía spámanni, (sem til hans talaði) af munni Drottins.13Líka gekk hann undan Nebúkadnesar kóngi, sem hafði látið hann sverja við Guð, og var þverbrotinn og forherti sitt hjarta, svo hann vildi ei snúa sér til Drottins, Ísraels Guðs.14Líka samanhrúguðu höfðingjar prestanna og fólksins misgjörðum, áþekkt öllum þjóðanna viðbjóð, og saurguðu Drottins hús, það sem hann hafði helgað í Jerúsalem.15Og Drottinn, Guð þeirra feðra, sendi til þeirra, fyrir hönd sinna sendiboða; hann gjörði það rækilega; því hann hlífðist við sitt fólk og við sinn bústað.16En þeir gjörðu Guðs sendiboðum háðungar, og forsmáðu þeirra orð, og gjörðu gys að hans spámönnum, þangað til Drottins reiði við hans fólk, þróaðist svo, að þar var engin líkn.
17Þá lét hann yfir þá koma Kaldeumannakóng, sem drap þeirra ungu menn með sverði í þeirra helgidómi, og sparaði ekki unglinga og meyjar, ekki aldraða né örvasa; allt gaf hann í hans hönd.18Og öll áhöld Guðs húss, stór og smá, og fjársjóðu Drottins húss, og fjársjóðu kóngsins og hans höfðingja, flutti hann allt til Babel.19Og þeir brenndu upp Guðs hús og rifu niður Jerúsalems múra, og allar hennar hallir brenndu þeir í eldi og alla dýra búshluti skemmdu þeir.20Og hann fór burt með það sem til var af sverðum til Babel, og þar þjónuðu þeir honum og hans syni, þangað til Persar fengu yfirráðin.21Til þess að orð Drottins fyrir munn Jeremía rættist, þangað til landið hafði unnið upp sín hvíldarár, því allan eyðileggingarinnar tíma hafði það hvíld, þangað til 70 ár voru liðin. (3 Msb. 26,34.)
22Og á fyrsta ári Sýrusar *), Persakóngs, til þess orð Drottins fyrir munn Jeremía skyldi rætast, vakti Drottinn anda Sýrusar Persakóngs, svo hann lét kunngjöra um allt sitt ríki, og líka með bréfum, og mælti:23„Svo segir Sýrus Persakóngur: öll ríki jarðarinnar hefir Drottinn himinsins Guð gefið mér, og hann hefir boðið mér að byggja sér hús í Jerúsalem í Júdalandi“. Hvör sem nú er meðal yðar af hans fólki, með honum sé Drottinn hans Guð, og fari hann þangað.

*) Hebr: Kores.