Framhald lofsöngsins; bæn Gyðingalýðs til Guðs.

1Ó, að þú sundur rifir himininn og færir ofan hingað, og fjöllin skylfi fyrir þínu augliti, eins og vatn vellur yfir eldi þeim, er brennur í þurru limi, til þess að óvinir þínir könnuðust við þitt nafn (þinn mátt), og heiðingjarnir skylfi fyrir þinni augsýn,2eins og (forðum), þegar þú gjörðir dásemdarverkin, þau er vér höfðum ekki vænt eftir, og fórst ofan, svo að fjöllin skulfu fyrir augliti þínu.3Því aldrei hefir nokkur haft spurn af eða heyrt, og ekkert auga hefir séð nokkurn Guð, nema þig, þann er slíka hluti gjöri fyrir þá, sem á hann vona.4Þú líknar þeim, er gjörir með gleði það, sem rétt er, og þeim, sem gengur á þínum vegum og minnist þín. En sjá, þú varst reiður, af því vér höfðum svo lengi villst frá þínum vegum! Ó að vér yrðum frelsaðir!5Vér vorum allir, sem óhreinir menn, og allt vort réttlæti var sem saurgað klæði; vér vorum eins og visin laufblöð, og vorar syndir hrifu oss burt, eins og vindur.6Enginn fannst sá, er ákallaði þitt nafn; engum varð það fyrir, að halda sér stöðuglega til þín. Þess vegna byrgðir þú auglit þitt, og lést oss vanmegnast undir valdi vorra synda.7En nú, Drottinn! Þú ert vor faðir. Vér erum leirinn; þú ert sá, sem myndaðir oss; allir erum vér þín handverk.8Reiðst eigi, Drottinn, svo stórmjög! minnst eigi syndanna eilíflega! Æ, lít þú niður til vor, vér erum allir þitt fólk.9Þínar heilögu borgir eru eins og eyðimörk: Síonsborg er orðin að öræfum, Jerúsalemsborg liggur í eyði.10Vort heilaga og veglega hús hvar feður vorir vegsömuðu þig, er orðið eldsmatur, og allt það, sem oss var kærast, liggur í eyði.11Getur þú leitt slíkt hjá þér, Drottinn, og þagað, og þjáð oss svo mjög?