Esekíel sýnir, með dæmisögu um eitt víntré, að sættarof Sedekíass Júdakonungs mundi verða honum til ógæfu, 1–21; Guð gefur fyrirheit um mikinn og dýrðlegan konung, sem á sínum tíma skyldi upprísa af Davíðsætt, 22–24.

1Drottinn talaði til mín svolátandi orðum:2þú mannsins son, ber upp gátu, og seg Ísraelsmönnum eina eftirlíking,3og seg: Svo segir Drottinn alvaldur: örnin sú hin mikla með þá stóru vængina og löngu flugfjaðrirnar, sú sem á þykkva og allavega lita fiðurhaminn, fór eitt sinn upp á Líbanonsfjall til að ná sér laufgrein af sedrustrénu.4Hún braut af vænsta kvistinn, flutti hann til verslunarlandsins, og setti hann í borg kaupmannanna.5Síðan valdi hún einn gróðurkvist landsins, til þess að setja hann í sáðland: hún tók hann, og gróðursetti hann á sléttlendi nokkuru, þar sem mörg vötn voru.6Kvisturinn óx, og varð af honum greinóttur vínviður, en þó lágvaxinn, til þess hann skyldi beygja anga sína að örninni, svo ræturnar héldist undir honum; en þó varð úr honum vínviðartré, sem fékk kvistu og skaut laufhríslum.7En þar var önnur mikil örn, með stórum vængjum og miklu fiðri; og sjá, þetta sama vínviðartré teygði rætur sínar að henni, og rétti út angana til hennar, til þess hún skyldi vökva það betur, en þær uppsprettur gátu gjört, sem voru þar sem það var gróðursett;8og þó var það gróðursett í góðri jörð, þar sem nóg vatn var, svo það hefði vel mátt fá kvistu, og bera ávöxt, og verða að margkvíslóttu vínviðartré.9Seg: Svo segir Drottinn alvaldur: hvört mun þessi vínviður ná að dafna? mun hin örnin ekki slíta upp rætur hans og afsníða ávöxtinn, svo viðurinn þorni upp, og öll blöð á öngum hans visni? hún mun ei þurfa mikilla krafta að neyta eða mannafla við að hafa, til þess að slíta hann upp með rótum.10Hann er að sönnu gróðursettur, en mun hann ná að dafna? mun hann ekki skrælna, þegar austræningurinn fer að leika um hann? mun hann ekki upp þorna hjá þeim uppsprettum, hvar hann vóx?11Því næst mælti Drottinn þannig til mín:12Seg til hinnar þvermóðskufullu kynslóðar: skiljið þér ei, hvað þetta á að þýða? Sjá, skaltu segja; Babelskonungur a) kom til Jerúsalemsborgar, handtók hennar konung b) og höfðingjana, og flutti þá heim til sín til Babels.13Hann tók nú einn af konungsættinni c), gjörði sáttmála við hann og tók eið af honum, en flutti á burt valdamenn landsins,14til þess að niðurlægja ríkið, svo að það skyldi ekki gjöra uppreisn, heldur halda sáttmálann að staðaldri.15En hann c) hóf uppreisn gegn honum, og gjörði sendimenn til Egyptalands eftir hestaliði og mannafla. Mundi honum heppnast þetta? mun sá, er slíkt gjörir, undan sleppa? mun sá, sem rýfur sáttmála, klaklaust afkomast?16Svo sannarlega sem eg lifi, segir Drottinn alvaldur, skal hann deyja í borg þess konungs, sem hóf hann til ríkis, hvörs sáttmála hann hefir rofið, og að engu haft þann eið, er hann vann honum—í Babel skal hann deyja.17Ekki skal faraó með miklum styrk og liðsfjölda mega verða honum að liði í ófriðinum, þegar þeim jarðhryggnum verður upp hleypt, og hlaðinn sá víggarðurinn, sem mörgum manni mun að bana verða.18Hann hefir eiðinn að engu haft og rofið sáttmálann, já, hann seldi til þess hönd sína, og gjörði þó allt þetta; hann skal ekki óhegndur sleppa.19Þar fyrir segir Drottinn alvaldur: svo sannarlega sem eg lifi, skal eg láta það koma yfir hans höfuð; því—það er minn eiður, sem hann hefir að engu haft, og minn sáttmáli, sem hann hefir rofið.20Eg skal leggja net mitt fyrir hann, og hann skal veiddur verða í mínu veiðarfæri; eg skal flytja hann til Babels, og ganga þar í lagadóm við hann um þá óhollustu, sem hann hefir sýnt mér;21allir hans flóttamenn og gjörvallur hans her skal fyrir sverði falla, en þeir sem eftir uppi standa, skulu tvístrast í allar áttir, svo að þér skuluð viðurkenna, að eg em Drottinn.
22Svo segir Drottinn alvaldur: eg vil sjálfur taka eina laufgrein af því hávaxna sedrustré, og setja hana; eg vil brjóta grannan kvist af topplimum þess, og gróðursetja hann á hávum fjallshrygg:23eg vil gróðursetja hann á Ísraels háva fjalli, og hann skal fá limar og bera ávöxt, og verða veglegur sedrusviður; undir honum skulu alls konar fuglar búa, alls konar vængjuð dýr skulu búa undir skugganum hans greina.24Og öll trén í skóginum skulu finna, að eg Drottinn niðurlægi það háva tré og upphef það lága, læt það græna tré þorna, og hið þurra grænka. Eg Drottinn tala og framkvæmi.

V. 12. Nebúkadnesar. b. Jekonías. V. 13 og 15. c. Sedekías.