Dæmisaga um þær forsjálu og óforsjálu meyjar; um húsbóndann er fékk þjónum sínum fé sitt í hendur; um dómadag.

1Eins er því varið með Guðs ríki og með tíu meyjar, sem tóku lampa sína og fóru á móti brúðgumanum:2fimm af þeim voru forsjálar, en fimm óforsjálar.3Þær óforsjálu tóku að sönnu lampa sína, en ekki tóku þær viðsmjör með sér.4En þær forsjálu tóku viðsmjör með sér í kerum sínum.5En er frestaðist koma brúðgumans, syfjaði þær allar, og fóru að sofa;6en um miðnætti var kallað og sagt: að brúðguminn kæmi og að þær skyldu fara út á móti honum.7Þá vöknuðu allar meyjarnar, og tóku að búa lampa sína.8Þá sögðu þær óforsjálu til hinna forsjálu: gefið oss nokkuð af yðar viðsmjöri, því annars munu ljós vor slokkna.9Hinar forsjálu svöruðu: vér erum hræddar um að það muni ekki endast handa oss og yður; farið heldur til þeirra, er viðsmjör selja, og kaupið þar viðsmjör handa yður.10En er þær voru burtfarnar til kaupa þessara, þá kom brúðguminn; og þær, sem tilbúnar voru, fylgdu honum í brúðkaupsstofuna; síðan var dyrunum lokað.11Um síðir komu og hinar meyjarnar, og sögðu: Herra! Herra! ljúk upp fyrir oss.12En hann mælti: eg kannast öldungis ekki við yður.13Verið þar fyrir vakandi, því þér vitið ekki daginn né stundina a).14Því þessu er eins háttað og manni þeim, er ferðaðist utanlands, og kallaði áður til sín þjóna sína, og seldi þeim í hendur fé sitt.15Einum fékk hann fimm pund, öðrum tvö og enum þriðja eitt, eftir sérhvörs þeirra dugnaði, og að svo gjörðu fór hann strax leiðar sinnar.16Þá fór sá, er við fimm pundum tekið hafði, varði þeim til kaupeyris, og ávaxtaði þau um helming.17Eins gjörði sá, er við tveim pundum hafði tekið, að hann græddi á þeim önnur tvö.18En sá, er við því eina hafði tekið, fór og fól fé húsbónda síns í jörðu.19En er langur tími var liðinn, kom húsbóndinn heim, og krafðist að þeir skyldu gjöra skil á fénu.20Þá kom sá, er við fimm pundum hafði tekið, og bar fram önnur fimm pund og mælti: Herra! þú seldir mér í hendur fimm pund; á þeim hef eg unnið önnur fimm pund.21Herrann mælti: vel hefir þú gjört, þú góði þjón! þú varst trúr yfir litlu, eg mun setja þig yfir mikið; gakk inn í fögnuð þíns herra b).22Nú kom sá, er hafði fengið tvö pund og mælti: Herra! tvö pund fékkstu mér í hendur, á þeim hefi eg grætt önnur tvö pund.23Þá mælti Herrann: vel líkar mér við þig, þú trúi og góði þjón! þú varst trúr yfir litlu, nú mun eg setja þig yfir mikið; gakk inn í þíns Herra fögnuð.24Síðan kom sá fram, sem tekið hafði við einu pundi, og mælti: eg vissi, Herra! að þú varst harður maður, sem uppsker, hvar þú ekki sáir, og tínir saman, hvar þú stráðir ekki;25þetta hræddumst eg, og fór því og fól þitt pund í jörðu; lít nú á, þar hefir þú þitt.26Þá svaraði Herrann: þú ótrúi og lati þjón! þar eð þú vissir, að eg uppsker, hvar eg ekki sái, og tíni saman, þar eg ekki strái,27þá áttir þú að fá fé mitt í hendur verslunarmönnum, svo að, nær eg kæmi, kynni eg að taka við því með ávexti.28Takið því af honum hans pund, og seljið þeim í hendur, sem hefir tíu pund;29sérhvörjum, sem hefir, honum mun veitt verða, svo hann hafi yfirfljótanlegt; en frá þeim, sem ekki hefir, mun og það litla takast er hann á;30en þessum vonda þjóni skuluð þér varpa í myrkrið fyrir utan, hvar eð vera mun grátur og gnístur tanna.
31Þegar Mannsins Sonur kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í sínu dýrðar hásæti,32og allar þjóðir munu safnast til hans; hann mun aðskilja þá a), eins og þegar hirðir skilur sauði frá höfrum,33og skipa sauðunum sér til hægri, en höfrunum til vinstri hliðar;34þá mun konungurinn segja við þá, sem eru honum til hægri handar: komið, þér ástvinir míns Föðurs! og eignist það ríki, sem yður var fyrirbúið frá upphafi heimsins.35Matþurfi var eg og þér veittuð mér fæðu; þyrstur var eg og þér gáfuð mér að drekka; gestur var eg, og þér hýstuð mig;36klæðfár, og þér gáfuð mér föt; sjúkur, og þér hjúkruðuð mér; í dýflissu, og þér vitjuðuð mín.37Þá munu Guðs vinir svara: Herra! nær sáum vér þig matþurfa, og veittum þér fæðu? þyrstan, og gáfum þér að drekka?38gest, og hýstum þig? klæðfáan, og gáfum þér föt?39nær sáum vér þig sjúkan eður í myrkvastofu, og vitjuðum þín?40Þá mun konungurinn svara: eg segi yður það satt: að hvað þér gjörðuð við einn af þessum minnstu bræðrum mínum, það hafið þér mér gjört.41Síðan mun hann segja við þá, sem eru honum til vinstri hliðar: farið frá mér bölvaðir í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans;42því ekki gáfuð þér mér fæðu, þá eg var matþurfi; ekki þyrstum að drekka;43ekki hýstuð þér mig hælislausan; ekki gáfuð þér mér klæðfáum föt, og ekki vitjuðuð þér mín í fangelsi.44Þá munu þeir svara: Herra! nær sáum vér þig matþurfa, eður þyrstan, hælislausan, eður klæðfáan, sjúkan eður í fangelsi, að vér ekki hjálpuðum þér.45En hann mun svara: sannlega segi eg yður: það, sem þér ekki gjörðuð einum af þessum mínum minnstu bræðrum, það gjörðuð þér ekki heldur mér.46Þá munu þessir fara til ævarandi kvala, en þeir góðu til eilífrar sælu.

V. 1. Sbr. Makk. 9,37. Sálm. 45,14–15. V. 13. a. Nl. nær Mannsins Sonur muni koma. V. 21. Þ. e. vertu borðgestur í þeirri gleðiveislu, sem eg gjöri eftir mína heimkomu. V. 32. a. Nl. þá góðu frá þeim vondu. V. 35, sbr. 1 Kor. 13,13. 2 Kor. 5,10.