Jesús talar um hjónaband; tekur ungbörn sér í faðm; talar um hina ríku, um tímanleg verðlaun, um dauða sinn; áminnir til lítilætis, læknar blindan.

1Síðan fór hann þaðan og kom í landsbyggðir Júdeu fyrir handan Jórdan, kom þá enn til hans fjöldi fólks, og kenndi hann þeim enn, eins og hans var siður.2Hér komu til hans farísear og spurðu hann, til að freista hans: hvört maður mætti segja skilið við konu sína?3hann svaraði: hvað hefir Móses boðið yður í þessu efni?4þeir sögðu: að Móses hefði leyft að rita skilnaðarskrá og segja skilið við hana.5Jesús mælti: þetta hefir Móses leyft yður sökum harðúðar yðar;6en frá fyrstu sköpun gjörði Guð þau mann og konu;7þar fyrir á maðurinn að yfirgefa föður og móður, og lifa svo sameinaður með konu sinni,8sem væru þau einn maður; þau eru því ekki framar tveir, heldur einn maður;9en hvað Guð hefir sameinað, mega menn ekki aðskilja.10Þegar þeir voru heimkomnir, spurðu lærisveinarnir hann á ný um þetta sama efni;11þeim sagði hann: hvör sem segir skilið við konu sína og gengur að eiga aðra, hann drýgir hór mót henni,12og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, þá drýgir hún líka hór.
13Nú færðu menn börn til hans, til þess að hann skyldi hræra við þeim, en lærisveinarnir ávítuðu þá, sem þetta gjörðu.14Þegar Jesús varð þess vís, líkaði honum það illa og mælti: látið börnin koma til mín og bannið þeim það ekki, því slíkum heyrir Guðs ríki til;15trúið mér! hvör, sem ekki meðtekur Guðs ríki eins og barn, mun aldrei þangað koma.16Síðan faðmaði hann börnin að sér, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.
17En þegar hann var kominn út á veginn, kom maður hlaupandi, laut honum og mælti: góði meistari! hvað skal eg gjöra til þess eg öðlist eilíft líf?18Jesús mælti: því kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.19Boðorðin veistú: þú skalt ekki drýgja hór; ekki mann vega; ekki stela; ekki bera ljúgvitni; ekki svíkja; heiðra föður þinn og móður.20Hinn svaraði: Meistari! allt þetta hefi eg haldið frá barnæsku minni.21Jesús leit þá til hans, elskaði hann og mælti: eins er þér enn vant: sel þú allar eigur þínar og gef fátækum, og munt þú fjársjóð hafa á himni; kom síðan, tak minn kross og fylg mér.22En er hann heyrði þetta, kom sorgarsvipur yfir hann, og fór hryggur í burtu, því hann var maður auðugur.23Þá litaðist Jesús um og mælti við lærisveina sína: hvörsu torvelt er þeim ríku að öðlast Guðs ríki!24Við þetta hnykkti lærisveinum hans: þá mælti Jesús: börn mín! hve torvelt er þeim, sem setja traust sitt á auðinn, að innganga í Guðs ríki;25auðveldara er úlfaldanum að ganga í gegnum nálaraugað, en ríkum manni að komast í Guðs ríki.26Við þetta brá þeim enn þá meir, og sögðu sín á milli: hvör mun þá verða hólpinn?27Jesús leit til þeirra og mælti: fyrir manna sjónum er það ómögulegt, en ekki fyrir Guði; honum er ekkert um megn.
28Þá tók Pétur svo til orðs: vér yfirgáfum allt og gáfumst þér til fylgdar.29Jesús mælti: trúið mér! enginn hefir svo yfirgefið heimili sitt, bræður eður systur, föður eður móður, konu eður börn eður fasteign, mín eður náðarboðskaparins vegna,30að honum ekki veitist nú þegar í þessu lífi, og það jafnvel mitt í ofsóknunum, hundraðfalt aftur, heimili, bræður, systur, mæður, börn og fasteign; og hér á ofan í öðrum heimi eilíft líf;31en þá munu margir þeir, er fyrstir eru, verða síðastir, og enir síðustu fyrstir.
32Nú héldu þeir til Jerúsalem, fór þá Jesús fyrir, því lærisveinar hans vóru felmtursfullir og fylgdu honum með ótta; þá tók hann þá tólf aftur til sín, og sagði þeim hvað fyrir sér lægi.33Vér förum nú—sagði hann—til Jerúsalem; þar mun Mannsins Sonur verða framseldur þeim æðstu prestum og skriftlærðum; þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðnum mönnum;34þeir munu hæða hann, húðstrýkja, hrækja á hann og taka hann af lífi, en á þriðja degi mun hann upprísa.
35Þá komu til hans þeir synir Sebedeusar, Jakob og Jóhannes, og mæltu: Meistari! veittú okkur eina bæn;36hann spurði hvörs þeir beiddust?37veittú okkur—sögðu þeir—að við megum sitja hvör til sinnar hliðar þér, þegar þú sest að ríki þínu.38Jesús mælti: þér vitið ekki hvörs þér beiðist; hvört treystið þið ykkur að drekka þann bikar, sem mér er ætlaður, eður skírast skírn þeirri, sem eg á fyrir höndum?39þeir kváðust það geta. Jesús mælti: þann bikar, sem mér er ætlaður, munuð þið að sönnu drekka, og skírast skírn þeirri, sem mér er fyrir höndum;40en að sitja mér til hægri eður vinstri handar, stendur ekki í mínu valdi að veita; þeir einir munu það hljóta, sem það er ætlað.41Þegar hinir tíu heyrðu þetta, mislíkaði þeim mjög við þá Jakob og Jóhannes.42Þá kallaði Jesús þá til sín og mælti: þér vitið, að þeir, sem löndum ráða, drottna harðlega yfir undirsátum sínum og gæðingar þeirra sýna sitt maktarveldi á þeim,43en þetta skal ekki svo vera með yður; því hvör yðar, sem mestur vill vera, hann sé hinna þjónustumaður;44og hvör, sem vill vera æðstur yðar á meðal, hann skal allra yðar þjón vera;45því ekki kom Mannsins Sonur til þess að láta þjóna sér, heldur til þess öðrum að þjóna og til að láta líf sitt sem lausnargjald fyrir marga.
46Nú komu þeir til Jeríkóborgar. Þegar hann fór þaðan, fylgdu honum lærisveinar hans og mikill fjöldi fólks. Þá sat Bartímeus Timausson hinn blindi við veginn og beiddist ölmusu;47þegar hann heyrði, að Jesús naðverski færi þar hjá, kallaði hann hátt og mælti: Jesú, niðji Davíðs, miskunna þú mér!48Margir skipuðu honum þá að þegja, en hann kallaði þess hærra, og sagði: niðji Davíðs, miskunna þú mér!49Þá nam Jesús staðar og lét kalla á hann; þeir gjörðu svo og mæltu: vertú vongóður, stattú upp, hann kallar á þig.50Hann kastaði þá yfirhöfn sinni, stóð á fætur og kom til Jesú.51Jesús mælti: hvað viltú að eg gjöri við þig? hinn blindi mælti: Meistari! það, að eg fái sjón mína.52Jesús mælti: far þú leiðar þinnar, þín trú hefir hjálpað þér. Strax fékk hann aftur sjón sína, og fylgdi honum á ferðinni.

V. 1–12, sbr. Matt. 19,1–12. V. 4, sbr. 5 Mós. 24,1. V. 6. sbr. 1 Mós. 2,24. V. 13–16, sbr. Matt. 19,13–15. V. 17–31, sbr. Matt. 19,16–30. Lúk. 18,18–31. V. 32–45, sbr. Matt. 20,17–20. Lúk. 18,31–34. 22,24–26. V. 46–52, sbr. Matt. 20,29–34. Lúk. 18,35–43.