Kóngurinn í Arad er sigraður. Höggormabit. Gyðingar læknast með því að líta á eirorminn. Gyðingar halda áfram ferð sinni. Síhon og Óg eru sigraðir.

1Þegar kóngur Kananítanna í Arad, sem bjó í suðurhluta Kanaanslands heyrði að Ísrael var á leiðinni til Atarim, réðist hann á þá og tók nokkra af þeim til fanga.2Þá gjörði Ísrael Drottni heit og sagði: ef þú öldungis ofurgefur þennan lýð á mitt vald, skal eg bannfæra borgir þeirra.3Og Drottinn heyrði raust Ísraelsbarna, ofurgaf þeim Kananítana og þeir bannfærðu þá og borgir þeirra, og kölluðu nafn þess staðar Horma.
4Frá fjallinu Hór lögðu þeir af stað veg þann sem liggur til Rauðahafsins, til að fara í kringum land Edómíta, en lýðnum féllst hugur, á leiðinni,5og þeir mögluðu í móti Guði og móti Móses og sögðu: hvar fyrir leidduð þið oss af Egyptalandi til að deyja hér á eyðimörku, því hér er hvörki brauð né vatn og oss er farið að leiðast þetta léttmeti.6Þá sendi Drottinn eitraða höggorma meðal lýðsins, sem bitu þá, svo að margir dóu af Ísrael.7Þá gekk lýðurinn til Móses og sagði: vér höfum syndgað, því vér höfum þráttað gegn Drottni og gegn þér, bið Drottin að hann taki þessa höggorma frá oss. Og Móses bað fyrir lýðinn.8En Drottinn sagði við Móses: smíða þér eirorm og set hann á stöng, og það skal ske að hvör sem bitinn er og lítur á hann, skal lífi halda.9Og Móses tilbjó eirorm og setti á stöng, og það rættist, að ef höggormurinn beit einhvörn og hann leit til eirormsins, þá hélt hann lífi.
10Eftir þetta lögðu Ísraelsbörn af stað, og lögðust í Óbot.11Þegar þeir lögðu af stað frá Óbot lögðust þeir í hlíðum fjallsins Abarim í eyðimörkinni, sem er rétt fyrir austan land Móabítanna.12Þaðan fóru þeir og lögðust í dalnum Sared.13Þegar þeir fóru héðan lögðust þeir í eyðimörkinni hinumegin við Arnon, sem kemur frá landamerkjum Amorítanna, því að Arnon skilur lönd Móabítanna og Amorítanna.14Þess vegna er í bókinni um bardaga Drottins minnst á Vaheb í Sufa og Arnonslæki,15og farveg lækjanna sem renna þangað sem Ar liggur og snertir lönd Móabítanna.16Þaðan sáu þeir til Beer, það er sá brunnur hjá hvörjum Drottinn sagði við Móses: samansafna lýðnum og eg vil gefa þeim vatn!17Þá söng Ísrael þennan söng: lyft þér upp, brunnur! syngið um hann!18höfðingjarnir grófu hann, þeir yppurstu lýðsins bjuggu hann til með stöfum sínum að boði löggjafarans. Frá þessari eyðimörku fóru þeir til Matana;19frá Matana, til Nahaliel, frá Nahaliel til Bamot,20frá Bamót í dalinn sem liggur í landi Móabíta við rætur fjallsins Pisga sem mænir yfir eyðimörkina.
21Héðan sendi Ísrael sendiboða til Síhons Amorítakóngs, og lét segja honum:22leyf mér að fara um land þitt, vér skulum hvörki fara yfir akra né víngarða, ekki drekka vatn úr brunnum; þjóðgötuna skulum vér þræða þar til vér erum komnir út fyrir þín landamerki.23En Síhon leyfði Ísrael ekki að fara um lönd sín, en safnaði að sér öllum sínum lýð, og fór í móti Ísrael í eyðimörkina og komst til Jasa, þar barðist hann við þá.24En Ísraelítar slógu hann með sverði, tóku undir sig land hans frá Arnon til Jabok allt að Ammonítunum, því landamerki Ammonítanna voru ekki auðunnin.25Og Ísrael tók undir sig allar þessar borgir og bjó í öllum borgum Amorítanna, í Hesbon og öllum nærliggjandi borgum.26Því Hesbon var borg Síhons Amorítakóngs, hafði hann átt stríð við Móabítanna fyrri kóng og tekið frá honum allt hans land allt að Arnon.27Þess vegna sagði skáldið: komið til Hesbon! Síhonsborg skal uppbyggjast og gjörast rambyggileg!28Því eldur mun útganga frá Hesbon og logi frá Síhonsborg og eyða Ar Móabítanna sem búa á hæðunum hjá Arnon!29Illa ertú farinn Móab, það er úti um þig, Kamoslýður! hann leyfði að synir sínir væru á flótta reknir, og dætur sínar herteknar til Síhons Amorítakóngs!30Ljós þeirra er slokknað frá Hesbon til Dibon, vér eyddum landið allt að Nofa, allt til Mediba!31Og Ísrael bjó í landi Amorítanna,32en Móses sendi njósnarmenn til Jaeser; og þeir unnu þorpin þar í kring og ráku burt Amorítana sem þar bjuggu.33Eftir þetta sneru þeir við og héldu veg þann sem liggur til Basan, en Óg kóngur í Basan gekk út í mót þeim og allur hans lýður til að berjast hjá Edrei.34Þá sagði Drottinn við Móses: óttast hann ekki, því eg hefi gefið hann, allan hans lýð og land á þitt vald, og þú skalt gjöra við hann það sem þú gjörðir við Síhon Amorítakóng, er bjó í Hesbon!35Þeir lögðu hann þá að velli, syni hans og allan hans lýð, svo að ekki var einn eftir, og lögðu land hans undir sig.

V. 2. Þ. e. gjörsamlega eyðileggja. V. 5. Nl. manna. V. 14. Hvaða bók þetta sé er óvíst. V. 18. Þ. e. Móses. V. 29. Þ. e. Kamos, skúrgoð Móabíta og Amoríta, gat ei að því gjört.