Óbadías boðar Edomsmönnum Guðs reiði og hegningu; spáir að Ísraelsríki muni viðréttast.

1Spádómur Óbadíass. Svo segir Drottinn hinn alvaldi um Edomslýð: Vér höfum fengið vísbendingu frá Drottni, að sú orðsending er gjörð hengjunum, að þeir skuli búa sig til ferðar, og að þeir vilji rísa upp, og herja á Edomsland.2Sjá! eg vil gjöra þig (Edomslýður!) að lítilmótlegri þjóð, og þú skalt verða mjög fyrirlitinn.3Ofmetnaður þinn hefir dregið þig á tálar, þar eð þú átt byggð í hávum klettaskorum, og segir í þínu hjarta: hvör getur steypt mér til jarðar?4Þó þú værir svo háfleygur, sem örn, og hreiðraðir þig meðal stjarnanna, skylda eg þó steypa þér ofan þaðan, segir Drottinn.5Ef þjófar kæmu að þér, eða ræningjar á náttarþeli, mundir þú nokkuð verða uppnæmur fyrir það? Þeir stælu þó ekki meiru, en þeir kæmust með. Ef vínlestursmenn yfirfelli þig, mundu þeir þó leifa þér nokkurt eftirsafn.6En hvörsu vandlega mun leitað verða á Esaúniðjum, og rannsökuð fylgsni þeirra!7Við landamerkin munu allir sambandsmenn þínir vísa þér á burt; vinir þínir, sem orðnir eru þér ofvaxnir, munu pretta þig, og setja vélar fyrir þig, til að ginna frá þér matbjörg þína; og sést þá, að þig skortir heldur vitsmuni.8Sjá! á þeim degi vil eg, segir Drottinn, afmá vitra menn í Edomslandi, og hyggindin á Esaúfjalli.9Kappar þínir, Temansborg, skulu standa agndofa, svo að hvört mannsbarn á Esaúfjalli skal verða drepið niður.10Sökum þess ofríkis, er þú gjörðir Jakobsniðjum, bræðrum þínum, skal svívirðingin hylja þig, og þú skalt að eilífu upprættur verða.11Þann dag er þú stóðst öndverður gegnt þeim, þegar óþjóðirnar herleiddu hermenn þeirra, og útlendir menn gengu inn um borgarhliðin og urpu hlutkesti um Jerúsalemsborg—á þeim degi varst þú sem einn af óvinunum.12Þú hefðir þó ekki átt að horfa upp á eymdarhag bræðra þinna, upp á þenna þeirra óhamingjudag! þú hefðir ekki átt að gleðja þig yfir Júdaríkis mönnum á eyðileggingardegi þeirra, og ekki hafa drembileg stóryrði á vörum þér á þeirra neyðardegi!13Þú hefðir ekki átt að ganga inn um borgarhlið míns fólks á þess óhamingjudegi, ekki horfa upp á ófarir þess á þess óhamingjudegi, ekki rétta ómildar hendur að fjármunum þess á þess óhamingjudegi!14Þú hefðir ekki átt að standa á vegamótunum, til að drepa niður flóttamenn þeirra, og ekki selja þá í hers hendur, sem af komust, á neyðardegi þeirra!15Því hegningardagur Drottins er nálægur öllum þjóðum; eins og þú hefir öðrum gjört, eins skal þér gjört verða; það sem þú hefir til unnið, það skal yfir þitt höfuð koma.16Því, á því sama sem þér (Ísraelsmenn!) hafið bergt, á mínu heilaga fjalli, á því hinu sama skulu allar þjóðir ávallt bergja; þær skulu bergja og til botns drekka, og verða eins og þær aldrei hefðu til verið.
17En á Síonsfjalli skal vera athvarf, þar skal vera helgistaður, og Jakobs niðjar skulu fá aftur eignir sínar.18Þá skulu Jakobs niðjar vera sem eldur, og Jóseps niðjar sem logi, en Esaúniðjar sem hálmleggir, sem hinir skulu brenna og eyða, svo að ekkert skal eftir verða af Esaúniðjum; því Drottinn hefir svo boðið.19Þeir skulu eignast suðurlandið ásamt með Esaúfjalli, og undirlendið ásamt með Filistalandi, þeir skulu eignast Effraimsland og Samaríuland og Benjamínsland með Gíleaðslandi.20Þessi herleiddi flokkur Ísraelsmanna skal eignast Kanverjaland allt til Sareftuborgar; og þeir sem herleiddir hafa verið frá Jerúsalemsborg til Seffaraðsborgar, skulu eignast suðurborgirnar.21Þá skulu frelsendur upp stíga á Síonsfjall, til að dæma Esaúfjall; og ríkið skal tilheyra Drottni.