Gyðingar uppbyggja musteri Drottins, eftir áminningu Haggaí spámanns, (Esd. 5,1–2. 6,14).

1Á öðru ári Daríí konungs, í hinum sjötta mánuði, hinn fyrsta dag mánaðarins, talaði Drottinn fyrir munn Haggaí spámanns til Serúbabels Sealtíelssonar, landshöfðingja Júdaríkis, og til Jósúa Jósadakssonar, hins æðsta kennimanns, svofelldum orðum:2Svo segir Drottinn allsherjar, þetta fólk segir, „enn er ekki tími kominn til að uppbyggja Drottins hús“.3Þess vegna talaði Drottinn þannig fyrir munn Haggaí spámanns:4er þá tími fyrir yður að búa í þiljuðum húsum, meðan þetta hús er látið standa í eyði?5og nú, svo segir Drottinn allsherjar, takið eftir, hvörninn fyrir yður fer!6Þér sáið miklu, en safnið litlu; þér etið, en verðið þó eigi saddir; þér drekkið, en verðið þó eigi afþyrstir; þér klæðið yður, en verðið þó ekki varmir; þó einhvörjum yðar græðist fé, þá er sem hann láti það í götótta pyngju.7Svo segir Drottinn allsherjar: takið eftir, hvörninn fyrir yður fer!8Farið upp á fjallið, sækið viðinn, og byggið húsið! það skal vera mér þakknæmilegt, og þar skal eg sýna mig dýrðlegan, segir Drottinn.9Þér væntið mikils, en fáið lítið í aðra hönd; og þér flytjið það heim, þá blæs eg það í burt; og hvörs vegna? segir Drottinn allsherjar; vegna míns húss, sem þér látið standa í eyði, meðan sérhvör yðar flýtir sér með sitt hús.10Þess vegna er himinninn, sem uppi yfir yður er, hættur að gefa yður dögg, og jörðin sinn gróða;11því eg hefi kallað þurrk yfir jörðina og fjöllin, yfir kornið, vínberjalöginn og viðsmjörið, og yfir það sem jörðin af sér gefur, yfir menn og skepnur, og yfir allan handa afla.
12Þá hlýddi Serúbabel Sealtísson og Jósúa Jósadaksson, hinn æðsti kennimaður, og allt það er eftir var orðið fólksins, röddu Drottins, Guðs þeirra, og orðum Haggaí spámanns, með því Drottinn, Guð þeirra, hafði sent hann; og fólkið óttaðist Drottin.13En er Haggaí, sem var sendiboði Drottins og flutti Drottins erindi, sagði til fólksins þeim orðum, „eg er með yður, segir Drottinn“,14þá vakti Drottinn hug Serúbabels Sealtíelssonar, landshöfðingja Júdaríkis, og Jósúa Josadakssonar, hins æðsta kennimanns, og þess fólks, sem þá var eftir orðið: svo að þeir fóru til og unnu að húss byggingu Drottins allsherjar, þeirra Guðs.15Það var á tuttugasta og fjórða degi hins sjötta mánaðar, á öðru ári Daríí konungs.