Metorðagirnd Amans og heift við Gyðinga.

1Eftir að þetta var skeð, gjörði Assverus kóngur Aman son Ham-Medata, Agagita, mikinn, og hóf hann upp til tignar, og setti sæti hans upp fyrir allra höfðingja sætin, þeirra er með honum vóru.2Og allir þjónar kóngsins er voru í kóngsportinu, féllu á kné og lutu Aman, því konungurinn hafði boðið þannig honum til handa; en Mardokeus beygði hvörki kné sín fyrir honum né laut honum.3Þá sögðu kóngssveinar þeir, er voru í kóngsportinu við Mardokeus: því yfirtreður þú kóngsins boð?4Og þá þeir höfðu ítrekað þetta daglega við hann, en hann vildi ei hlýða þeim, þá létu þeir Aman vita þetta, svo þeir sæju, hvört Mardokeus stæði við orð sín, því hann hafði sagt þeim, að hann væri Gyðingur.5Og þá Aman sá, að Mardokeus beygði ei kné fyrir sér, og vildi ei heldur lúta sér, þá reiddist hann stórlega,6en honum þótti einkisvert að leggja hönd á Mardokeus einann, því þeir höfðu sagt Aman frá fólki Mardokeus, heldur hugsaði hann sér að afmá Mardokeus fólk, alla þá Gyðinga er voru um allt ríki Assverus kóngs.
7Í fyrsta mánuði, það er í mánuðinum nísan, á tólfta ári ríkisstjórnar Assverus kóngs, var pur, þ. e. hlutfalli kastað, í augsýn Amans, frá einum degi til annars og frá mánuðinum allt til þess tólfta mánaðar, sem er mánuðurinn adar.8Og Aman sagði við Assverus kóng: hér er fólk útdreift á meðal allra þjóða og í öllum löndum þíns ríkis, og lög þess eru öðruvísi en allra annarra þjóða, og það breytir ei eftir kóngsins lögum, og það er ei hollt fyrir konunginn, að láta það svo (vera).9Þóknist því konunginum, þá skipi hann skriflega að drepa það, og svo skal eg vega tíu þúsund vættir silfurs í hönd þeirra manna, sem verkið vinna, að það lagt verði í konungsins fjárhirslu.10Þá dró konungurinn sinn hring af hendi sér, og fékk hann Aman, syni Ham-Medata, Agagitanum, óvini Gyðinganna,11og konungurinn sagði við Aman: það silfur skal vera þér gefið, og þar að auk fólkið, að þú gjörir við það hvað þér líst.
12Þá voru á þrettánda degi þess fyrsta mánaðar samankallaðir skrifarar konungsins, og var þá skrifað til konungsins höfðingja það, sem Aman skipaði, einnig til lénsherranna í hvörju landi, og til höfðingja sérhvörrar þjóðar í öllum löndunum, eftir skrift og tungumáli sérhvörs fólks, undir nafni Assverus kóngs, og það innsiglað með konungsins hring.13Og þessi bréf voru send með hlaupurum um öll konungsins lönd, að eyðileggjast, drepast og myrðast skyldu allir, bæði ungir og gamlir, Gyðingar, bæði börn og konur á einum degi, á þrettánda degi þess tólfta mánaðar, sem er mánuðurinn adar; og ræna skyldi einnig fjármunum þeirra.14Bréfsefnið var: að skipa skyldi öllum löndum að birta þetta öllu fólki, svo það viðbúið væri á einum og sama degi.15Og hlaupararnir fóru eftir skipan kóngsins, með hraða af stað; og þetta boð var útgefið á slotinu Susan, og kóngurinn og Aman sátu og drukku, en borgin Susan var í uppnámi.