Lofsöngur Gyðingalýðs.

1Drottinn, þú ert minn Guð, eg vil vegsama þig, og lofa þitt nafn; því þú hefir gjört furðuverk, og þínar ráðstafanir frá alda öðli eru staðfastar og óbrigðular.2Því þú hefir gjört borgina a) að grjóthrúgu, þann hinn víggirta staðinn að niðurfallinni rúst, og farið svo með hallir ofríkismannanna í borginni, að þær verða aldrei upp byggðar.3Þess vegna mun sérhvört voldugt fólk heiðra þig, og borgir ofríkisfullra þjóða hræðast þig.4Því þú varst vörn lítilmagnans, hlíf hins vesæla í mótlætinu, skjól í hretviðrinu, skuggi í hitanum; því ofsi ribbaldanna er eins og hret á vegg.5Þú sefar gleðilæti ofstopanna, eins og (þú sefar) hitann á heiðunum: sigursöngur ofstopanna dvínar, (eins og) hitinn við skuggann af skýinu.
6Drottinn allsherjar mun uppi á þessu fjalli halda öllum þjóðum veislu af feitum krásum, veislu af kláru víni, af mergjarfeiti og af síuðu dreggjavíni b).7Á þessu fjalli mun hann bregða burtu þeim hjúp, sem breiddur var fyrir ásjónu allra lýða, og þeirri skýlu, sem huldi allar þjóðir.8Hann mun dauðann afmá að eilífu, og Drottinn hinn alvaldi mun tárin afþerra af öllum ásjónum, og afmá svívirðingu síns fólks í öllum löndum. Því Drottinn hefir talað það.9Á þeim degi mun sagt verða: sjá! þessi er vor Guð: vér vonuðum á hann, og hann frelsaði oss; þessi er Drottinn, sem vér vonuðum á. Látum oss fagna, og gleðjast af hans hjálpræði!10Því hönd Drottins hvílist á þessu fjalli. Móabsmenn skulu fóttroðnir verða, þar sem þeir eru staddir, eins og hálmur er troðinn í saur niður.11Þá munu þeir fórna upp höndum, þar sem þeir eru, eins og sundmaður réttir út hendur sínar til að grípa sund. En hann mun lægja dramb þeirra með hnúum sinna handa;12og hinum hávu virkisveggjum þeirra mun hann kollvarpa, niðursteypa og fleygja til jarðar í duftið.

V. 2. a. Þ. e. Babelsborg. V. 6. b. Þ. e. besta víni. Til þess að vínið skyldi magnast og litkast vel, var það látið standa á víndreggjunum, og síðan afhellt og síað; þá hét það dreggjavín, og þótti hið besta.