Jesús varar við ómildum dómum; talar um bæn; um kjarna lögmálsins, um veginn til lífsins, um falsspámenn og hræsnara.

1Verið ekki ómildir í dómum yðar um aðra, að ei dæmi þeir eins um yður;2því líkur dómur og þér fellið yfir öðrum, mun yfir yður felldur verða, og eins og þér mælið öðrum, munu þeir aftur mæla yður.3Hvörnig sér þú flísina í þíns bróðurs auga, en gætir ekki þess bjálkans, sem er í þínu eigin auga?4Eða hvörnin fær þú sagt við hann: láttú mig taka flísina úr auga þér, meðan bjálki er í þínu eigin auga?5Þú hræsnari! drag fyrst bjálkann úr þínu eigin auga, og sjáðu síðan til að þú fáir dregið flísina úr þíns bróðurs auga.
6Kastið ekki helgidómum fyrir hunda, né perlum yðar fyrir svín, að þau ekki troði þær fótum, snúist síðan að sjálfum yður, og rífi yður í sundur.
7Biðjið, þá mun yður gefast; leitið þá munuð þér finna; knýið á, og þá mun fyrir yður upplokið verða;8því hvör sem biður, hann öðlast; hvör, er leitar, hann finnur; og hvör, er á knýr, fyrir honum mun upplokið verða.9Eður er nokkur sá af yður, sem gæfi syni sínum stein, ef hann bæði um brauð;10eða höggorm, ef hann bæði um fisk?11Ef nú þér, sem vondir eruð, tímið að gefa börnum yðar góðar gjafir, hvörsu miklu framar mun þá ekki yðar himneskur Faðir gefa þeim góða hluti, sem biðja hann þess?12Allt hvað þér viljið að mennirnir gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra; þetta er kjarni lögmálsins og spámannanna.
13Gangið um hið þröngva hlið; því það hlið er vítt og sá vegur er breiður, sem liggur til glötunar, og margir eru þeir, sem hann ganga.14Hvörsu er það hlið þröngt og mjór sá vegur, er til lífsins leiðir, og fáir þeir, er hann rata?15Gætið yðar fyrir falskennendum, sem koma til yðar í sauðaham, en hið innra eru þeir gráðugir vargar;16af þeirra ávöxtum skuluð þér þekkja þá; hvört geta menn lesið vínber af þyrnum eður fíkjur af þistlum?17Þannig ber hvört gott tré góðan ávöxt, en slæmt tré slæman ávöxt.18Gott tré getur ekki borið slæman ávöxt, ekki heldur slæmt tré góðan ávöxt.19En hvört það tré, sem ekki ber góðan ávöxt, skal verða upphöggvið og í eld kastað;20þar fyrir kunnið þér af ávöxtum þeirra að þekkja þá.21Ekki munu allir þeir, sem til mín segja: Herra! Herra! koma í himnaríki, heldur þeir einir, sem gjöra vilja míns himneska Föðurs.22Á þeim degi munu margir segja til mín: Herra! Herra! höfuð vér ekki í þínu umboði kennt, rekið djöfla út og gjört mörg kraftaverk?23en eg mun segja þeim berlega: aldrei þekkta eg yður fyrir mína; farið frá mér, þér illgjörða menn!24Hvör hann heyrir þessa mína kenningu og breytir eftir henni, honum vil eg líkja við forsjálan mann, er byggði hús sitt á bjargi;25nú kom steypiregn og vatnsflóð, stormar risu og buldu á því húsi, en það féll samt ekki, því það var grundvallað á bjargi.26Þar á mót er sá, sem heyrir þessa mína kenningu, og breytir ekki eftir henni, líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi;27nú kom steypiregn og vatnsflóð, stormar risu og dundu á því húsi, þá féll það, og þess hrun varð mikið.
28Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu, undraðist lýðurinn mjög yfir kenningu hans;29því hann kenndi svo sem sá, er hafði Guðs umboð á hendi, en ekki sem hinir skriftlærðu.

V. 7–12, sbr. Lúk. 11,9–13. V. 22. Þeim degi, þ. e. dóms degi.