Malakías talar um Messías; um þá sem svikust um að gjalda til musterisins; um mismun á þeim guðhræddu og andvaralausu.

1Sjáið! eg sendi minn engil, sem greiða skal veginn fyrir mér; bráðum skal hann koma til síns musteris, sá herra, hvörs þér leitið, sá sáttmálans engill, hvörs þér æskið. Sjáið! hann kemur, segir Drottinn allsherjar.2En hvör má afbera þann dag er hann kemur? Hvör fær staðist, þá hann lætur sig sjá? Því hann er sem eldur málmbræðslumannsins, og sem lútarsalt þvottamannanna.3Hann skal sitja, og silfrið bræða og hreinsa; hann skal hreinsa Levíniðja, og gjöra þá skíra sem gull og sem silfur; og þeir (einir) skulu Drottni tilheyra, sem frambera fórnir í réttlæti.4Þá skal fórn Júdaniðja og Jerúsalemsborgarmanna verða Drottni þakknæmileg, eins og forðum daga, eins og á fyrri tíðum.5En eg vil nálægja mig yður til dóms, og skyndilega fram ganga sem vitni í gegn galdramönnum, hórdómsmönnum, meinsærismönnum, móti þeim sem hafa af daglaunamanninum laun hans, þröngva ekkjum og föðurleysingjum, kúga útlendinginn, og óttast mig ekki, segir Drottinn allsherjar.6Því eg Drottinn em óumbreytanlegur; þess vegna eruð þér, Jakobsniðjar, ekki með öllu eyðilagðir.
7Allt í frá dögum feðra yðvarra hafið þér vikið frá mínum skipunum, og ekki gætt þeirra. Snúið yður til mín, þá vil eg snúa mér til yðar, segir Drottinn allsherjar. Þér spyrjið: „hví skulum vér snúa oss“?—8Á maðurinn að pretta Guð? því mig hafið þér prettað! Þér spyrjið: „í hvörju prettum vér þig“?—Í tíundum og lyftingarfórnum.9Stór óblessan liggur fyrir yður, fyrir það að þér, gjörvallt landsfólkið, prettið mig.10Flytjið alla tíundina í vistaklefann, svo að nóg vist sé til í mínu húsi! og vitið svo til, segir Drottinn allsherjar, hvört eg skal ekki upp lúka fyrir yður vatnsrásum himinsins, og úthella yfir yður yfirgnæfanlegri blessun.11Eg skal fæla burt spillidýrin frá yður, svo þau skulu ekki spilla fyrir yður gróða jarðarinnar, og víntréð skal ekki verða yður ávaxtarlaust á akrinum, segir Drottinn allsherjar.12Allar þjóðir skulu prísa yður sæla, og yðar land skal vera æskilegt land, segir Drottinn allsherjar.
13Hörð er yðar ræða í gegn mér, segir Drottinn. Þér spyrjið: „hvað tölum vér í gegn þér?“14Þér segið: „það er til einskis að þjóna Guði! hvaða árangur höfum vér af að vér gætum þess, sem hann vill gæta láta, og göngum í sorgarbúningi fyrir augliti Drottins allsherjar?15Þess vegna teljum vér þá sælli, sem eru guðlausir syndarar; þeim sem guðleysi fremja, gengur allt að óskum; þeir freista Guðs, og komast þó vel af“.16Þeir þar á móti, sem óttast Drottin, segja svo hvör við annan: „Drottinn gefur gætur að, og heyrir; frammi fyrir hans augliti liggur skrifuð minnisbók um þá, sem óttast Drottin og hugsa um hans nafn“.17Já, þeir skulu vera mínir, segir Drottinn allsherjar, á þeim degi, þá eg tilreiði mér mína eiginlega eign; og eg skal vægja þeim, eins og maður vægir syni sínum, sem þjónar honum.18Þá skal yður gefa á að líta þann mismun, sem er á milli réttláts manns og óguðlegs, á milli þess, sem Guði þjónar, og hins, sem ekki þjónar honum.