Esekíel lýsir tign og veldi Assýríukonungs, 1–9; falli hans og eyðileggingu, 10–17; sömu afdrif skyldi faraó fá, 18; þetta er sagt til viðvörunar þeim umsetnu Jerúsalemsmönnum, sem til lengstra laga væntu sér styrks frá Egyptalandi.

1Á ellefta árinu, þann fyrsta dag hins þriðja mánaðar, talaði Drottinn til mín svolátandi orðum:2þú mannsins son, seg til faraós, Egyptalandskonungs, og til hans fjölmennis: hvörjum ertu líkur að mikilleik?3Sjá þú! Assýríukonungur var eins og sedrusviður á Líbanonsfjalli, hans laufgreinir voru fagrar, og veittu forsælu, sem þéttur skógur væri: hann var geysihár, og hans flóknu greinir voru allaufgaðar.4Vatnsgnóttin gjörði hann stóran, og vatnageimurinn hávaxinn; straumar vatnageimsins runnu umhverfis hans gróðrarreit, og veittu vatnsrásum sínum til allra skógartrjánna:5þess vegna varð hann hávaxnari en öll tré í skóginum, hans kvistir fjölguðu, hans limar lengdust, vegna ríkuglegrar vatnsgnóttar útbreiddi hann sínar greinir.6Allir fuglar himinsins hreiðruðu sig á hans kvistum, öll skógardýrin lögðu ungum sínum undir limar hans, og alls konar stórþjóðir bjuggu í hans forsælu.7Hann var fagur sökum síns mikilleiks og sinna löngu greina, því rót hans hafði mikla vatnsgnótt.8Engin tré skyggðu á hann í aldingarði Guðs; fururnar jöfnuðust ekki við kvistu hans, og hlynirnir ekki við hans limar; ekkert tré í aldingarði Guðs var honum jafnt að fegurð,9eg hafði prýtt hann með fjölda af greinum, og öll Edenstré í aldingarði Guðs öfunduðu hann.
10Og þó talaði Drottinn alvaldur svo: sökum þess hann var orðinn mjög hávaxinn og hafði útbreitt sitt lauf innan um þær samanflæktu greinir, og metnaðist af stærð sinni,11þá selda eg hann í hendur yfirhöfðingja þjóðanna, að hann skyldi fara með hann eftir vild sinni; því sökum síns óguðlega athæfis útskúfaði eg honum.12Útlendir menn, hinir mestu ofríkismenn í heimi, hafa rifið upp þenna sedrusvið, og fleygt honum á fjöllin, svo að angar hans eru niðurfallnir í alla dali, og limar hans liggja sundurbrotnar í öllum hvylftum jarðarinnar; allar þjóðir jarðarinnar eru viknar burt úr forsælu hans, og hafa yfirgefið hann.13Allir fuglar himinsins sátu nú á hans fallna stofni, og öll dýr skógarins lágu hjá limum hans:14til þess að engin þau tré, sem á vatnabökkum eru, skuli metnast af sinni stærð og útbreiða sitt lauf innan um þær samanflæktu greinir, og til þess að engin vatnsvökvuð tré skuli treysta á þau fyrir þeirrar stærðar sakir; því þau a) eru öll dauðanum háð, og eiga að fara í undirheim, eins og aðrir mannanna synir, sem niðurstignir eru í gröfina.15Svo segir Drottinn alvaldur: á þeim degi sem hann steig niður í myrkheim, lét eg vatnageiminn sýta missir hans, eg breiddi skýlu yfir hann og afturhélt straumum hans, svo að þau mörgu vötn hættu að renna; eg lét Líbanonsfjall íklæðast sorgarbúningi, og öll trén í skóginum liðu í ómegin yfir láti hans.16Eg skelfdi þjóðirnar með þeim gný, sem varð af hans falli, þá eg steypti honum niður í myrkheim, til þeirra sem eru niðurstignir í gröfina. Það varð til fróunar öllum Edenstrjám í undirheimi, þeim útmetnu og fögru trjám frá Líbanonsfjalli, öllum þeim trjám, sem á vatni höfðu vökvast;17því þau voru einnig niðurstigin, eins og hann, í myrkheim til vopnbitinna manna, og til liðveislu manna hans, sem í hans skugga höfðu búið meðal þjóðanna.
18Hvörjum ertú þá líkur? Eins og þú varst að skrauti og mikilleik talinn með Edenstrjám, eins skal þér og með Edenstrjám verða niðursteypt í undirheim; þú skalt liggja meðal hinna óumskornu, hjá vopnbitnum mönnum. Þannig skal fara fyrir faraó og öllum hans mannfjölda, segir Drottinn alvaldur.

V. 14. a. sedrustrénu, þ. e. þeir voldugustu konungar.