Hóseas talar um tryggðarleysi Gyðinga við Guð, og um hræsni þeirra, um þá hegningu, sem Ísraelsmönnum sé vís, og eins Júdaríkisinnbúum.

1Heyrið þetta, þér kennimenn! takið eftir, þér Ísraelsmenn! hlusta grandgæfilega til, þú konungsætt! því þér eigið hegningu í vændum, fyrir það að þér voruð sem snara á Mispa, og sem útþanið net á Tabor.2Með slátursfórnum leitast þeir við að dylja sínar yfirtroðslur, en eg skal refsa þeim öllum saman.3Eg þekki Efraimsætt, og Ísraelsmenn dyljast ekki fyrir mér, því þú, Efraimsætt, lokkar nú aðra til saurlifnaðar, og Ísraelsmenn saurga sig.4Athafnir þeirra leyfa þeim eigi að snúa sér til Guðs síns, því saurlífisandinn býr í þeirra hjartans grunni, og Drottin þekkja þeir ekki.5Ósvífnin vitnar í gegn Ísraelsmönnum; bæði Efraimsætt og Ísraelsmenn skulu falla á misgjörðum sínum, og eins skulu Júdaríkismenn falla með þeim:6þeir koma með sauðfénað sinn og nautpening til að leita Drottins, en þeir finna hann ekki, hann er vikinn frá þeim.7Þeir voru tryggðarlausir við Drottin, því þeir gátu óskilgetin börn; nú skal voveifleg ógæfa eyða þeim og því sem þeir eiga.
8Þeytið lúðurinn í Gíbea! blásið í básúnur í Rama! æpið heróp í Betaven! Fjandmaðurinn er á hælum þér, Benjamíns ættkvísl.9Efraims ættkvísl skal verða að auðn á degi hegningarinnar; það, sem eg hefi kunngjört Ísraelsmönnum skal fram koma.10Júdaríkishöfðingjar eru líkir þeim, sem færa marksteina úr stað; eg vil úthella yfir þá reiði minni, sem árstraumi.11Efraimsætt verður með réttu kúguð og sundurmarin, því hún breytir eftir sjálfgjörðu lögmáli;12eg er sem mölur í augum Efraimsættar, og sem maur í augum Júdaríkismanna.13Þegar Efraimsætt leit á sitt sár, og Júdaríkismenn á sín sárabönd, þá leitaði Efraimsætt trausts hjá Assýríumönnum, en hinir gjörðu boð til Jarebs kóngs; en hann mun eigi fá læknað yður, og sáraböndin munu eigi af yður ganga;14því eg skal vera Efraimsætt eins og dýrið óarga, og Júdaríkismönnum eins og ljónskálfur: eg skal sundurrífa og fara burt með bráðina, og engi skal geta hrifsað hana af mér.15Eg vil ganga þaðan, og hverfa aftur þangað, sem eg var, þar til er þeir kannast við sín afbrot og leita míns auglitis; þegar að þeim þrengir, munu þeir leita trausts hjá mér.

V. 1. Á fjöllum Mispa og Tabor voru fuglveiðar. Meiningin er: fyrir það að þér leidduð fólkið afvega. V. 8. Gíbea, Rama, borgir í Júdaríki; Betaven, sjá 4, 15. V. 10. Þeim sem færa marksteina úr stað, þ. e. stórglæpamönnum, 5 Mós 27, 17. V. 12. Sem mölur, maur, þ. e. Gyðingar virða mitt lögmál einskis.