Páll hrósar sér af sínum opinberunum, kraftaverkum og að hann hafi ekki verið söfnuðinum til þyngsla. Segist segja þetta þeim til uppbyggingar og svo að hann ekki þurfi brúka hörku þegar hann kemur.

1Það gagnar að vísu ekki að eg hrósi mér. Þó vil eg minnast á sjónir og opinberanir Drottins.2Eg þekki mann í Kristó er fyrir 14 árum var uppnuminn allt upp í þriðja himin—hvört hann var í líkamanum eður utan líkama, það veit eg ekki, Guð veit það.3Eg veit að þessum manni var upprykkt í Paradís—hvört í líkama eður utan líkama, það veit eg ekki, Guð veit það—4og að hann heyrði þar óumræðanleg orð sem engum manni er unnt að tala.5Af þessu vil eg hrósa mér en af sjálfum mér vil eg ekki hrósa mér, nema það væri af bágindum mínum.6En þó að eg vildi hrósa mér mundi eg ekki dárlegur finnast, því eg segði sannleika. En eg skirrist við það svo að enginn skuli þenkja hærra um mig en hann sér eður heyrir af mér.7En til þess að eg ekki skuli upphrokast af mikilleik opinberananna er mér fleinn gefinn í holdið, Satans engill, að hann slái mig svo að eg skuli ekki stærilátur verða.8Þess vegna hefi eg þrisvar beðið Drottin um að hann færi frá mér9en hann hefir svarað mér: Lát þér nægja mína náð, því minn kraftur sýnir sig fullkominn í veikleikanum. Þar fyrir vil eg helst hrósa mér af mínum þjáningum svo að kraftur Krists taki sér bústað yfir mér a).10Þar fyrir er eg með glöðu geði í veikleika, fyrirlitningu, neyð, ofsóknum og þrengingum vegna Krists, því mitt í veikleikanum er eg máttugur.
11Dárlega hefi eg nú talað, en þér hafið neytt mig til þess. Því eg átti að lofast af yður. Því í engu er eg minni en þeir helstu postular, þó eg sé ekkert.12Postulateikn eru gjörð meðal yðar í allri þolinmæði, með táknum og stórmerkjum og kraftaverkum.13Hvar í eruð þér þá minni en aðrir söfnuðir, nema í því að eg hefi ekki verið yður til byrði—fyrirgefið mér þennan órétt!14Sjá, nú í þriðja sinni er eg ferðbúinn að koma til yðar en ekki mun eg verða yður til byrði, því ekki sækist eg eftir eigum yðar heldur yður sjálfum. Því ekki eiga börnin að draga saman fyrir foreldrana heldur foreldrarnir fyrir börnin.15Fús er eg til að verja mínu, já útgefa sjálfan mig fyrir yðar sálir, því eg elska yður innilega, þó þér elskið mig lítið.16En látum svo vera að eg hafi ekki sjálfur verið yður til byrði en máske verið slægur og veitt yður með brögðum.17Máske eg hafi látið einhvörn sem eg sendi til yðar hafa af yður?18Eg bað Títum að fara og sendi annan bróður með honum. Mun Títus hafa féflett yður? Leiddi ekki sami Andi oss báða og fetuðum vér ekki í sömu fótspor?
19Þér þenkið máske á ný að eg sé að forsvara mig fyrir yður? Fyrir augliti Guðs svo sem Krists þjón tala eg allt þetta, elskanlegir, yður til uppbyggingar.20Því eg óttast að þegar eg kem muni eg ekki finna yður þvílíka sem eg vil og að yður muni finnast eg sé ekki eins og þér viljið, að meðal yðar séu deilur, metningur, ofstopi, þráttanir, baktal, kvis, drambsemi, órói;21eg óttast að Guð muni auðmýkja mig hjá yður þá eg kem aftur og að eg hryggi marga sem áður syndguðu og ekki hafa snúið huga sínum frá saurlífi, frillulífi og ótérlegum lifnaði sem þeir áður drýgðu.

V. 2. Post.g.b. 22,17. V. 9. a. sé sífellt með mér verkandi. V. 11. 1 Kor. 3,7. 15,9. Efes. 3,8. V. 12. sbr. 1 Kor. 9,1.2. V. 13. Kap. 11,8.9. 1 Tess. 2,9. V. 18. Kap. 8,6.22. V. 21. Kap. 13,10.