Lærisveinar Jesú tína kornöx á hvíldardegi, Jesús læknar visna hönd, læknar djöfulóðan, sem var blindur og mállaus, og forsvarar sig fyrir álasi farísea; þeir krefja hann teikns. Móðir hans og ættingjar vilja tala við hann.

1Einhvörju sinni fór Jesús á hvíldardegi með sínum lærisveinum, yfir sáðlönd nokkur; en er lærisveina hans svengdi, tóku þeir til að tína kornöxin og eta.2Þegar farisear sáu það, sögðu þeir til hans: sjá! lærisveinar þínir gjöra það, sem ekki leyfist á hvíldardegi.3Jesús mælti: hafið þér ekki lesið, hvað Davíð gjörði, þegar hann var matþurfi og menn hans?4að hann gekk inn í Guðs hús og neytti brauðanna helgu, sem hvörki hann né fylgdarmenn hans og engir, nema prestarnir einir, máttu eta.5Eður hafið þér ekki lesið í lögmálsbókinni: að prestar vanhelga hvíldardaginn í musterinu á hvíldardögunum og eru þó sýknir saka?6En eg segi yður fyrir sann: að hér er sá, sem meiri er en musterið.7Ef þér hefðuð skilið, hvað það þýðir: „mér er mannelska þekkari enn offur“, munduð þér ekki hafa sakfellt þessa, sem saklausir eru,8því mannsins Sonur er herra hvíldardagsins.
9Þaðan fór hann til samkundu þeirra;10hér var maður nokkur, er hafði visna hönd; þá spurðu þeir hann, hvört leyfilegt væri að lækna á hvíldardögum? til þess þeir gætu fengið tilefni til að ásaka hann.11Hann svaraði þeim: er sá nokkur yðar á meðal, sem á einn sauð, og falli sauðurinn í pytt á hvíldardegi, tekur ekki eigandinn hann strax, og dregur hann upp?12Hvað miklu er þó ekki maðurinn æðri en sauðurinn? þess vegna er leyfilegt að gjöra það, sem gott er, á hvíldardögum.13Síðan sagði hann við manninn, réttu fram hönd þína! hann gjörði svo, og varð hún þá heil, sem hin.14En farisearnir gengu út og báru saman ráð sín í gegn honum um það, hvörnin þeir fengju ráðið hann af dögum.15Þegar Jesús varð þess vís, veik hann þaðan, og fylgdi honum þá mikill fjöldi fólks, og hann læknaði þá alla,16og bannaði þeim strengilega að gjöra sig uppvísan.17Sannaðist þá það sem spámaðurinn Esajas sagði:18„Sjá! þjón minn, hvörn eg hefi útvalið, minn ástfólgna, sem mér er þóknanlegur, honum vil eg gefa minn andakraft, að hann kenni heiðnum þjóðum hvað rétt er;19hann mun eigi þrátta, og eigi háreysti gjöra, og hans kall mun eigi á strætum heyrast.20Hinn brákaða reyrinn mun hann eigi í sundur brjóta, og hið dapra ljós ekki slökkva, þangað til sannleikurinn hefir sigur unnið;21á hann munu þjóðirnar treysta“.
22Þá var færður til hans maður djöfulóður, blindur og mállaus, þenna læknaði hann, svo sá hinn blindi og mállausi fékk bæði mál sitt og sýn.23Þetta undraðist allt fólkið og sagði: mun ekki þessi maður vera niðji a) Davíðs?24En er farísear heyrðu það, sögðu þeir: ekki rekur þessi djöfla út, nema með fulltingi djöflahöfðingjans Belsebúls.25Nú er Jesús sá þeirra hugrenningar, sagði hann til þeirra: hvört það ríki, hvar innbyrðis sundurþykki er, mun eyðileggjast, og hvör sá staður eður heimili, hvar innbyrðis sundurþykki er, fær ekki staðist.26Ef nú einn djöfull rekur annan út, þá eru þeir innbyrðis sundurþykkir, og hvörninn skyldi djöfulsins ríki þá standast?27og ef eg rek djöfla út með Belsebúls fulltingi, fyrir hvörs aðstoð útreka þá yðar lærisveinar þá? þeir skulu því vera yðrir dómendur.28En eg ef rek djöfla út fyrir Guðs Anda, þá er Guðs ríki komið til yðar.29Hvör fær brotist inn í hús ens sterka og rænt húsbúnaði hans, nema hann bindi hinn sterka áður, þá fyrst getur hann rænt hús hans.30Hvör, sem ekki er með mér, hann er móti mér, og hvör, sem ekki samansafnar með mér, sá sundurdreifir.31Þess vegna segi eg yður: að hvörs kyns synd og guðlastan kann mönnum fyrirgefin að verða, en smánarleg orð gegn Andanum, munu mönnum ekki fyrirgefast.32Þótt einhvör lasti Mannsins Son, kann honum það forlátið að verða, en ef nokkur talar gegn heilögum Anda, þá mun honum það ekki fyrirgefast, hvörki í þessu né komanda lífi.33Ef tréð er gott, eru og ávextirnir góðir, en sé það slæmt, eru ávextirnir slæmir; því af ávextinum þekkist tréð.34Þér nöðrukyn! hvörninn skylduð þér kunna gott að mæla, þar þér sjálfir eruð vondir? því það mælir munnurinn, sem hjartað hefir nægt af.35Góður maður framber illt úr vondum sjóði.36Eg segi yður satt: fyrir hvört það illyrði, er menn mæla, skulu þeir á dómsins degi reikningsskap lúka;37því af þínum orðum muntú sýkn eður sakfelldur verða.
38Þá sögðu nokkrir skriftlærðir og farísear til hans: Meistari! vér viljum gjarna sjá teikn af þér.39Hann mælti: þessi vonda og hórsama þjóð beiðist teikns, en henni skal ekki teikn gefast nema teikn Jónasar spámanns;40Því eins og Jónas var í hvalfiskjarins kviði í þrjá daga og þrjár nætur, svo mun og Mannsins Son vera í þrjá daga og þrjár nætur í fylgsnum jarðar.41Niníveborgarmenn munu framkoma á degi dómsins með þjóð þessari, og sýna að hún sé straffs sek, því þeir gjörðu umbót við kenningu Jónasar; og sjáið! hér er sá, sem honum er meiri.42Drottningin úr suðurátt mun framkoma á dómsins degi gegn þjóð þessari og auglýsa hana straffs seka að vera; því hún kom af fjarlægu landi að heyra speki Salómons; en sjáið! hér er sá, sem honum er meiri.43Nær óhreinn andi fer út af nokkrum, þá ráfar hann um eyðimerkur, leitar híbýlis og finnur ekki;44þá segir hann með sér: eg vil aftur snúa til húss míns, hvaðan eg fór, og er hann kemur aftur, finnur hann það tómt, sópað og prýtt;45þá fer hann síðan og tekur með sér sjö aðra anda sér skaðlegri, og er þeir eru þangað innkomnir, byggja þeir þar; verður svo það síðara ásigkomulag mannsins verra en hið fyrra. Eins mun fara fyrir þessari vondu þjóð.
46Þá er hann enn nú var að tala til lýðsins, stóðu móðir hans og bræður fyrir dyrum úti og vildu mæla við hann.47Þá sagði einhvör honum: móðir þín og bræður þínir eru úti og vilja tala við þig.48En hann sagði við þann, er þetta mælti: hvör er móðir mín og bræður mínir?49og vísaði með höndinni til lærisveina sinna og sagði: þessir eru móðir mín og bræður mínir;50því hvör hann gjörir vilja míns himneska Föðurs, hann er minn bróðir, systir og móðir.

K. 12,1–8. sbr. Mark. 2,23–28: Lúk. 6,1–5. V. 3. 1 Sam. 21,6. V. 4. 3 Mós. 24,9. V. 5. Prestarnir unnu að fórnfæringum á hvíldardögum, 4 Mós. 28,9. V. 7. Hós. 6,12. V. 9–21, sbr. Mark. 3,1–5. Lúk. 6,6–11. V. 17. Esa. 42,1. V. 22–32, sbr. Lúk. 11,14–23: Mark. 3,22–29, (Lúk. 12,10). V. 23, a. Messías. V. 35. Sjóði, þ. e. sjóði hjartans. V. 39–42. sbr. Lúk. 11,29–32. V. 43–45, sbr. Lúk. 11,24–25. V. 46–50, sbr. Mark. 3,31–35. Lúk. 8,19–21.