Esekíel talar um sína skyldu, sem spámanns, 1–9; um réttlæti og miskunn Guðs, 10–20. Fregn um inntöku Jerúsalemsborgar; Esekíel spáir fyrir þeim, sem eftir voru af Júdamönnum, 21–29; talar um þau háðsyrði, sem sumir gjörðu að áminningum spámannanna, 30–33.

1Drottinn talaði til mín svolátandi orðum:2þú mannsins son! tala þú til landsmanna þinna, og seg þeim: þegar eg læt sverðið koma yfir eitthvört land, og landsfólkið útvelur einhvörn mann á meðal sín, og gjörir hann að varðhaldsmanni;3nú sér hann sverðið falla yfir landið, og blæs í lúðurinn, og gjörir fólkið vart við:4sé þar nokkur sá, sem heyrir lúðurþytinn, en vill þó ekki vara sig, og kemur svo sverðið og sviptir honum í burtu, þá er hann sjálfur skuld í dauða sínum.5Af því hann heyrði lúðurþytinn, en vildi þó ekki vara sig, þess vegna er hann sjálfur skuld í dauða sínum; því ef hann hefði varað sig, þá hefði hann fengið lífi sínu borgið.6En sjái varðmaður sverðið koma, og blæs þó ekki í lúðurinn, svo fólkið fær öngva vísbendingu, og kemur svo sverðið og sviptir nokkurum í burt, þá verður að vísu þeim hinum sama burtu svipt fyrir sjálfs hans skuld, en hans blóðs vil eg krefja af hendi varðmannsins.7Þig, mannsins son, hefi eg sett sem varðmann Ísraelsfólks, til þess þú heyrir orðið af mínum munni, og varir þá við fyrir mína hönd.8Þegar eg segi til hins óguðlega: þú hinn óguðlegi skalt deyja: og þú talar ekki, til þess að vara hinn óguðlega við sinni breytni, þá skal að vísu hinn óguðlegi deyja fyrir sinna illgjörða sakir, en blóð hans vil eg heimta af þinni hendi.9En hafir þú varað hinn óguðlega við, að hann snúi frá sinni breytni, og hann samt ekki lætur af sínu athæfi, þá skal hinn óguðlegi deyja fyrir sinna synda sakir, en þú ert þá sýkn saka.
10Þú mannsins son! seg Ísraelsmönnum: þér eruð vanir að kveða svo að orði: vorar misgjörðir og syndir liggja á oss, svo vér vanmegnumst undir þeim, hvörsu megum vér þá lifa?11Seg þeim: svo sannarlega sem eg lifi, segir Drottinn alvaldur, hefi eg öngva þóknun á dauða hins óguðlega, heldur að hinn óguðlegi snúi sér frá sinni breytni, og lifi. Snúið yður frá yðar vondri breytni! Hví viljið þér deyja, Ísraelsmenn!12Þú mannsins son, seg landsmönnum þínum: þegar ráðvandur maður fer og breytir ranglega, þá skal hann ekki njóta þess, að hann hefir ráðvandur verið; og þegar sá óguðlegi snýr frá sinni óguðlegu breytni, þá skal hann ekki gjalda þess, að hann hefir óguðlegur verið; en sá ráðvandi skal ekki heldur njóta ráðvendni sinnar, þegar hann syndgar.13Þegar eg segi um þann ráðvanda, „hann skal lifa“, og hann í trausti til sinnar ráðvendni fer og breytir ranglega, þá skal öll hans ráðvendni ekki að álitum gjörast, heldur skal hann deyja fyrir þau rangindi, sem hann gjörði;14og þegar eg segi til þess óguðlega, „þú skalt deyja“, og hann lætur af synd sinni og breytir rétt og ráðvandlega,15svo að hann, sem áður var óguðlegur, skilar aftur veði, bætir rán, og breytir eftir lífsins boðorðum, svo að hann aðhefst ekkert það sem rangt er: þá skal hann lifa og ekki deyja;16engin af hans syndum, sem hann drýgt hefir, skal að álitum gjörast: hann breytir rétt og ráðvandlega, og fyrir því skal hann lifa.17Og þó segja landsmenn þínir: vegur hins Alvalda er ekki réttur! þar sem þó vegur sjálfra þeirra er ekki réttur.18Snúi sá ráðvandi sér frá sinni ráðvendni og breyti ranglega, þá skal hann deyja þar fyrir;19og snúi hinn óguðlegi sér frá sínu óguðlega athæfi, og breyti rétt og ráðvandlega, þá skal hann lifa fyrir það sama.20Og þó segið þér: vegur hins Alvalda er ekki réttur! Sérhvörn yðar Ísraelsmanna vil eg dæma eftir sinni breytni.
21Á tólfta árinu, þann fimmta dag þess tíunda mánaðar, eftir það að vér vorum herleiddir, kom flóttamaður nokkur til mín frá Jerúsalem með þau tíðindi, að borgin væri inntekin.22Hönd Drottins var yfir mér um kvöldið, áður en flóttamaðurinn kom; en Drottinn upplauk mínum munni, þegar maðurinn kom til mín um morguninn; þá var minn munnur upplokinn, og eg var ekki lengur orðlaus.23Þá talaði Drottinn til mín þessum orðum:24þú mannsins son! þeir, sem búa í þeim eyðilögðu stöðum Ísraelslands, segja: Abraham var ekki nema einn, og þó fékk hann þetta land til eignar; vér erum margir, landið er gefið oss til eignar.25Þar fyrir seg þeim: Svo segir Drottinn alvaldur: þér etið kjötið með blóðinu, þér upphefjið yðar augu til skurðgoða og úthellið blóði; eigið þér þá að fá landið til eignar?26þér reiðið yður á yðar sverð, fremjið svívirðingar, smánið hvör annars eiginkonur; eigið þér þá að fá landið til eignar?27þú skalt segja svo til þeirra: Svo segir Drottinn alvaldur: svo sannarlega sem eg lifi! þeir, sem búa í þeim niðurbrotnu rústum, skulu fyrir sverði falla; þá, sem úti búa á landsbyggðinni, skal eg láta verða dýrum að bráð; og þeir, sem búa í virkjum og hellrum, skulu deyja af drepsótt;28eg skal gjöra landið að auðn og öræfum, svo það skal ei lengur treysta mega á veldi sitt; Ísraelsfjöll skulu svo í eyði liggja, að þar skal enginn um fara.29Þeir skulu þá viðurkenna, að eg em Drottinn, þegar eg gjöri landið að auðn og öræfum, sökum allra þeirra svívirðingu, sem þeir hafa framið.
30Þú mannsins son! landsmenn þínir tala um þig hjá veggjunum og húsadyrunum, og segja hvör við annan, nábúi við nábúa: komið, látum oss heyra, hvað Drottinn segir!31Þeir koma til þín fjölmennir, sitja frammi fyrir þér, eins og væri þeir mitt fólk, og hlýða á orð þín, en vilja ei eftir þeim breyta; í orði láta þeir, sem það sé sitt yndi að breyta eftir þeim, en hjarta þeirra sækist eftir rangfengnu fé.32Sjá! þú ert þeim eins og vel sungið og fallega leikið gamankvæði; þeir hlusta á orð þín, en breyta ekki eftir þeim. En þegar það kemur fram—og fram skal það koma—þá skulu þeir viðurkenna, að spámaður hefir verið meðal þeirra.