Jesús læknar þjón hundraðshöfðingja nokkurs; endurlífgar son einnar ekkju; talar við Jóhannesar lærisveina um sjálfan sig; við fólkið um Jóhannes og þjóðarinnar vantrú; forsvarar sjálfan sig, og afleysir bersynduga kvinnu.

1Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu í áheyrn lýðsins, fór hann inn í Kapernaum.2En þjón hundraðshöfðingja nokkurs lá sjúkur, aðkominn dauða, sem honum var næsta kær.3Þessi maður hafði heyrt af Jesú, og sendi því til hans öldunga Gyðinga, og bað hann koma til sín, og lækna þjón sinn.4Þeir komu til Jesú, og beiddu hann alúðlega, því hann er—sögðu þeir—verður að þú veitir honum þetta,5því hann elskar þjóð vora, og hefir byggt handa oss samkundu húsið.6Jesús fór með þeim; en er hann átti skammt eitt til hans, sendi hundraðshöfðinginn vini sína og lét segja honum: ómaka þig ekki, Herra! því eg er ekki verðugur að þú komir í hús mitt;7þar fyrir hefi eg ekki heldur álitið sjálfan mig verðan að koma til þín; heldur mæl þú eitt orð og mun þjón minn heill verða.8Því eg, sem er sjálfur yfirvaldi undirgefinn, hefi að ráða fyrir stríðsmönnum, og nær eg býð þessum að fara, þá fer hann og hinum að koma, þá kemur hann, og þræli mínum að vinna þetta eður hitt, þá vinnur hann það.9Þegar nú Jesús heyrði þetta, furðaði hann á þessum manni, og snerist að þeim, sem með honum voru, og mælti: sannlega segi eg yður, slíka trú hefi eg ekki fundið jafnvel meðal Ísraelsmanna.10En þeir sneru aftur heim, er sendir voru, og fundu þjóninn, er sjúkur hafði verið, heilan heilsu.
11Daginn eftir skeði það, að hann fór til borgar þeirrar, sem heitir Nain; voru þá í ferð með honum margir af lærisveinum hans og fjöldi fólks.12Nú er þeir komu að borgarhliðinu, stóð svo á, að þar var borinn út dauður maður, hann var einbirni, og móðir hans ekkja; fylgdi henni fjöldi bæjarmanna.13Þegar Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana, og sagði: grát þú ekki!14síðan gekk hann nær, og hrærði við líkbörunum, en þeir, sem báru, stóðu við. Þá sagði hann: eg býð þér, þú ungi maður! að þú rísir upp.15Þá settist sá upp, er dauður var og tók að mæla: og hann gaf hann aftur móður sinni. Við þetta kom ótti yfir alla,16vegsömuðu þeir Guð og sögðu: spámaður mikill er kominn til vor, Guð hefir litið í náð sinni til síns lýðs.17En þessi fregn um hann barst út um alla Júdeu og öll þau héröð, er í grennd voru.
18Frá öllu þessu sögðu lærisveinar Jóhannesar honum;19kallaði þá Jóhannes á einhvörja tvo af þeim, sendi þá til Jesú, og lét spyrja hann, hvört hann væri sá, sem koma ætti, eður ættu þeir annars að vænta?20Þeir komu til hans og mæltu: Jóhannes skírari sendi okkur til þín, og lét spyrja, hvört þú værir sá, sem koma ætti, eða vér ættum annars að vænta.21En svo stóð á, er þeir komu, að Jesús var að lækna marga, er þjáðir voru af þungum sjúkdómum og af illum öndum, og mörgum blindum gaf hann aftur sýn þeirra.22Þá mælti Jesús: farið þið og segið Jóhannesi það, sem þið sjáið og heyrið: blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast, daufir heyra, dauðir upprísa og fátækum boðast gleðiboðskapurinn a);23en sæll er sá, sem ekki hneykslast á mér.24Þegar sendimenn Jóhannesar voru burtu farnir, hóf Jesús að tala til fólksins um Jóhannes á þessa leið: hvað var það, sem þér fóruð í óbyggðir að sjá? var það reyrinn, er vindurinn skekur?25hvað fóruð þér að sjá? var það maður skrautbúinn? trúið mér: þeir, sem í skraut eru búnir og í sælgæti lifa, eru í konungannaherbergjum.26Eða hvað fóruð þér þá að sjá? var það spámaður? já! eg segi yður satt, þann, er hvörjum spámanni var meiri;27því hann er sá, um hvörn ritað er: „minn sendiboða sendi eg undan þér, er greiða skuli veg þinn“.28Trúið mér: enginn er sá af konu fæddur, er meiri sé en Jóhannes skírari. Þó er sá, sem (öðrum) er minni í Guðs ríki b), honum meiri;29samt lofaði öll alþýða og tollheimtumenn er hlýddu hans kenningu, Guðs ráðstöfun, og tóku skírn hans;30En farísear og hinir skriftlærðu einkisvirtu Guðs ráðstöfun á sér, og létu ekki skírast af honum.31Við hvað skal eg þá samlíkja þessarar aldar mönnum, eður hvörju eru þeir líkir?32líkir eru þeir börnum, sem á torgi sitja og kallast á: vér kváðum yður gleðikvæði, en þér vilduð ekki dansa; vér þuldum yður sorgartölur, en þér sýnduð engin sorgarmerki.33Því Jóhannes skírari kom, át ekki brauð og drakk ekki vín, og þér segið, að hann sé vitstola.34Mannsins Sonur kom og neytti alls frjálslega, og hann kallið þér mathák og vínsvelg, vin tollheimtara og bersyndugra;35en skynsamir menn einir dæma rétt um skynsama hegðun.
36Einhvörju sinni var það, að einn af fariseum bauð honum til matar; kom hann og settist undir borð;37en sjá, þar í bænum var kona nokkur bersyndug; þegar hún varð þess vís, að hann var að mat í húsi faríseans, kom hún með smyrslakrús;38stóð á baka til við fætur hans og grét; síðan þvoði hún fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með hári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum.39En er faríseinn, sem honum hafði boðið, sá þetta, hugsaði hann þannig: ef að þessi maður væri spámaður, þá vissi hann, hvaða kona það er, sem hrærir við honum, að hún er bersyndug.40Þá mælti Jesús: Símon! eg hefi nokkuð að segja þér: hann mælti: seg þú það fram, Meistari!41Jesús mælti: lánardrottinn nokkur átti tvo skuldunauta, öðrum þeirra hafði hann lánað fimm hundruð peninga, en hinum fimmtíu;42nú er þeir ekkert áttu til að lúka með þessar skuldir, gaf hann þær báðum upp. Hvör þeirra heldur þú nú að elski hann meira?43Símon mælti: eg hygg að sá muni elska hann meira, sem hann gaf upp stærri skuldina. Jesús sagði: þú hefir rétt ályktað;44snerist síðan að konunni og sagði við Símon: sér þú konu þessa? eg kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn að þvo í fætur mínar a), en hún hefir vætt þá með tárum sínum og þerrað þá með hári sínu.45Ekki minntist þú við mig, en frá því eg kom hér, hefir hún ekki hætt að kyssa fætur mínar.46Ekki smurðir þú höfuð mitt með viðsmjöri, en hún hefir smurt fætur mínar með smyrslum;47vegna þessa segi eg þér það, að hennar mörgu syndir eru henni fyrirgefnar, þar hún auðsýndi svo mikil elskumerki; því þeim, sem lítið er fyrirgefið, hann elskar lítið.48Síðan sagði hann við konuna: þér eru þínar syndir fyrirgefnar.49Tóku þá boðsmennirnir að hugsa svo: hvör er þessi, sem fyrirgefur jafnvel syndirnar.50En hann sagði við konuna: far þú í friði! þín trú hefir hjálpað þér.

V. 1–10. Matt. 8,6–13. V. 8. sjá skg. Matt. 8,9. V. 18–35. Matt. 11,2–19. V. 22. a. Nl. að sá fyrirheitni Frelsari sé kominn. V. 28. b. Þ. e. sá fáfróðasti Krists lærisveinn hefir skýrari þekkingu á Guðs vilja og ráðstöfun, en Jóhannes. V. 44. a. Í heitum löndum, þar sem menn ganga berfættir (einungis með ilskó) var það skylda við gesti, að þvo fætur þeirra, (1 Mós. 18,4. Dóm. 19,21).