Kenning Jesú á fjallinu; hans áminning til postulanna; hans útskýring yfir lögmálið og boðorðin.

1En er hann sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjall eitt og settist þar; þá komu lærisveinarnir til hans;2hóf hann þá kenningu sína til þeirra á þenna hátt:3Sælir eru andlega lítillátir, því þeir munu eignast himnaríki.4Sælir eru sorgbitnir, því þeir munu huggun hljóta.5Sælir eru hógværir, því þeir munu landið eignast.6Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því þeir munu saddir verða.7Sælir eru miskunnsamir, því þeir munu miskunn hljóta.8Sælir eru hreinhjartaðir, því þeir munu Guð sjá.9Sælir eru friðsamir, því þeir munu Guðs börn kallaðir verða.10Sælir eru þeir, sem sakir sinnar ráðvendni, ofsóttir verða, því þeir munu hlutdeild fá í himnaríki.11Sælir eruð þér, þegar menn atyrða yður, ofsækja og tala gegn yður alls konar illyrði mín vegna, en þó ljúgandi.12Fagnið þá og gleðjist, því yðar verðkaup er mikið á himnum; þannig ofsóttu þeir spámennina, sem fyrir yður vóru.
13Þér eruð salt jarðar; nú, ef saltið dofnar, með hvörju skal þá selta það? það er þá til einkis nýtt, nema að útkastast og fótum troðast af mönnum.14Þér eruð ljós heimsins; sú borg, sem á fjalli er byggð, fær ekki dulist.15Menn kveikja ekki ljós til að setja það undir mæliker, heldur setja menn það í ljósastiku, að það lýsi þeim, sem inni eru;16svo lýsi og yðvart ljós öðrum mönnum, að þeir sjái yðar góða framferði, og dýrki yðar himneska Föður.
17Ætlið ekki, að eg sé kominn til að aftaka lögmálið og spámennina; til þess er eg ekki kominn, heldur til þess að fullkomna það.18Sannlega segi eg yður: fyrr mun himin og jörð forganga en víkja megi frá hinum minnsta bókstaf eða titli í lögmálinu, og það svo grandvarlega, að því sé að öllu leyti fullnægt.19Hvör hann brýtur eitt af þessum boðum, er minnst sýnist umvarða og hvetur aðra til þess, hann mun minnstur kallast í himnaríki; en hvör sem hlýðir þeim, og ræður (öðrum til hins sama), hann mun mikill kallast í himnaríki;20því eg segi yður: að nema yðar ráðvendni taki fram fariseanna og þeirra löglærðu, munuð þér ekki koma í himnaríki.21Þér hafið heyrt að það var bannað í fornöld mann að vega; en ef einhvör vægi mann, skyldi hann dóms sekur;22en eg segi yður: að hvör hann reiðist bróður sínum (án orsaka), er dóms sekur; og hvör, sem segir við bróður sinn: þú heimskingi! skal af dómsatkvæði þess mikla ráðs setjast; en hvör, sem segir: þú guðleysingur! vinnur til helvítiselds.23Þar fyrir, þegar þú færir gáfu þína til altarisins, og þér kemur þar í hug, að þú hafir eitthvað gjört á annars hluta,24þá skil þar eftir gáfu þína við altarið, far burt og sæst áður við bróður þinn, kom síðan og offra gáfu þinni.25Vertu fljótur til sætta við mótstöðumann þinn, áður en þið mætið báðir fyrir dómaranum, svo að eigi afhendi hann þig dómaranum, en hann fangaverðinum, og verði þér síðan í dýflissu kastað.26Sannlega segi eg þér: að þú munt þaðan ekki útkomast, fyrr en þú hefir borgað hinn síðasta pening.27Þér hafið heyrt boðið: „þú skalt eigi hórdóm drýgja;“28en eg segi yður: að hvör hann lítur konu girndarauga, hefir þegar drýgt hór með henni í huga sínum.29Ef að auga þitt hið hægra hneykslar þig, þá sting það út, og kasta því á burt; því betra er þér að missa einn lima þinna, en öllum þínum líkama verði kasta í helvíti.30Eins ef þín hægri hönd lokkar þig til syndar, þá sníð hana af og kasta á burt; betra er þér að missa einn lima þinna, enn að öllum þínum líkama verði kastað í helvíti.31Það er boðið: „að hvör sem segir skilið við konu sína, skuli gefa henni skilnaðarskrá“;32en eg segi yður: að hvör hann lætur skilið við konu sína, án þess hún sé um hór sek, er skuld í að hún verður hórkona, og hvör, sem gengur að eiga þá konu, sem við mann sinn hefir skilið, drýgir hór.33Þér hafið einnin heyrt: að forfeðrunum var gefið það boðorð: „þú skalt ekki sverja rangan eið, heldur efna svardaga þína við Guð“;34en eg segi yður: að þér eigið öldungis ekki að sverja, hvörki við himininn, því hann er hásæti Guðs;35né við jörðina, því hún er hans fótskör; ekki heldur við Jerúsalem, því hún er borg þess mikla konungs;36ekki heldur við höfuð þitt, því ekki getur þú gjört eitt einasta hár svart eða hvítt á því;37en játið því sem satt er, og neitið því, sem ósatt er; hvað þér segið framar þessu, það kemur frá hinum vonda.38Þér hafið heyrt: að boðið er: „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“;39en eg segi yður: rísið ekki öndverðir móti mengjörðum annarra, heldur slái nokkur þig á hægri kinn þína, þá bjóð honum einnig hina,40og vilji nokkur hafa lagadeilur við þig um kyrtil þinn, þá lát honum og yfirhöfn þína lausa.41Neyði nokkur þig um einnar mílu fylgd, þá far með honum tvær;42gef þeim, sem biður, og vertu ekki afundinn við hann, sem af þér vill lán taka.43Þér hafið heyrt að boðið er: „þú átt að elska náunga þinn, og hata óvin þinn“;44en eg býð: að þér elskið óvini yðar, blessið þá, sem yður bölva, gjörið þeim gott, sem hata yður, og biðjið fyrir þeim, sem rógbera yður og ofsækja;45svo þér séuð börn Föðurs yðar á himnum, hvör eð lætur sína sól upprenna yfir vonda og góða, og rigna yfir ráðvanda og óráðvanda.46Því þótt þér elskið þá, sem yður elska, hvör laun eigið þér skilið fyrir það? gjöra ekki tollheimtumenn hið sama?47og þótt þér látið aðeins kært við landa yðar, hvað gjörið þér í því, sem hrósvert sé? gjöra ekki heiðnir menn hið sama?48verið þar fyrir fullkomnir, eins og yðar Faðir á himnum er fullkominn.

V. 13. Þ. e. þér eruð ákvarðaðir til að betra mennina, og varðveita þá frá spillingu. V. 17. Fullkomna, þ. e. gefa fullkomnari reglur enn lögmálið og spámennirnir hafa gefið, sjá v. 20. og fl. V. 21. 2 Mós. 20,13. 3 Mós. 24,17. V. 27. 2 Mós. 20,14. V. 31. 5 Mós. 24,1. V. 33. 3 Mós. 19,12. 4 Mós. 30,3. V. 34. Sbr. Jak. 5,12. V. 37. Sbr. 1 Jóh. 3,12. V. 38. 2 Mós. 21,24. 3 Mós. 24,20. V. 43. 3 Mós. 19,18. Lúk. 6,27.