Mardokeus fær sæmd af konunginum.

1En þessa sömu nótt gat konungurinn ekki sofið, og sagði að koma með annála og minnisbækur; og þá verið var að lesa þær fyrir konunginum,2þá hittist á það sem skrifað var, hvörnig Mardokeus hefði sagt frá þeim tveimur herbergissveinum kóngsins meðal dyravaktaranna Bigtan og Teres, sem höfðu ætlað sér að leggja hönd á Assverus kóng.3Og kóngurinn sagði: hvörja æru og upphefð höfum vér veitt Mardokeus fyrir þetta? þá sögðu smásveinar kóngsins, er þjónuðu honum: ekkert hefur hann fengið fyrir það.4Og kóngurinn sagði: hvör er í forgarðinum? því Aman var kominn í þann ytri forgarð kóngs hússins, að hann aðspyrði kónginn: hvört hengja mætti Mardokeus á tré það, er hann hafði reist handa honum.5Og smásveinar kóngsins sögðu: sjá! Aman stendur í forgarðinum; þá sagði kóngurinn: látið hann koma inn hingað.6Og sem Aman var inn kominn, sagði kóngurinn við hann: hvað skal þeim manni gjöra er kóngurinn vill heiður sýna? En Aman hugsaði með sjálfum sér: hvörjum mun kóngurinn vilja fremur heiður sýna en mér?7Og Aman sagði við kónginn: sá maður sem konungurinn vill sýna heiður,8sé sóttur og íklæddur þeim konunglega skrúða, sem kóngurinn er vanur að bera, og á þeim hesti sem kóngurinn er vanur að ríða, og kóngleg kóróna sé sett á hans höfuð.9Og skrúðinn og hesturinn sé hvörttveggja í hendur fengið einum af þeim æðstu höfðingjum kóngsins, og menn íklæði þann mann er kóngurinn vill heiður sýna, og leiði hestinn undir honum um stræti borgarinnar, og úthrópi fyrir honum: þannig skal fara með þann mann er kóngurinn vill gjarnsamlega heiður sýna.10Þá sagði kóngurinn við Aman: tak skjótlega skrúðann og hestinn, samkvæmt orðum þínum, og gjör eins og þú hefir mælt, við Gyðinginn Mardokeus, sem hér situr í kóngsportinu, og lát ekkert vanta af öllu því sem þú talað hefir.11Þá tók Aman bæði skrúðann og hestinn og íklæddi Mardokeus og leiddi hann (hestinn) um stræti borgarinnar og hrópaði fyrir honum: þannig skal við þann mann gjöra sem kóngurinn vill heiður sýna.12Og Mardokeus kom aftur í konungsportið, en Aman fór sem skjótast heim í sitt hús hryggur og með huldu höfði.13Og hann sagði konu sinni Seres og öllum vinum sínum frá öllu því sem fyrir hann hafði komið; þá sögðu við hann þeir hyggnu (vinir) og kona hans, Seres: ef Mardokeus er af Gyðingaætt fyrir hvörjum þú ert farinn að falla, þá megnar þú ekkert á móti honum, heldur muntu hljóta að falla fyrir honum.14En á meðan þeir voru enn nú að tala þetta við hann, þá komu þangað herbergissveinar kóngsins og höfðu hraða á sér að sækja Aman, að hann kæmi til gestaboðs þess sem Ester hafði gjöra látið.