Sama efni.

1Og Davíð konungur mælti til alls safnaðarins: Salómon sonur minn, sá eini, sem Guð hefir kosið sér, er óþroskaður unglingur, en verkið er mikið, því ei skal byggja höll þessa fyrir menn, heldur fyrir Guð Drottin.2En eg hefi af öllu megni aflað fanga til míns Guðs húss, gulls til þess sem skal vera úr gulli, silfur til þess sem á að vera úr silfri, eirs til þess sem á að vera úr eiri, járns til þess sem vera skal úr járni, trés til þess sem vera skal af tré, onyxsteina, og vígslusteina (2 Mós. 25,7), sundurgerðarsteina og mislitra steina, og alls lags dýrra steina, og margra marmarasteina;3og enn nú, þar eg hefi velþóknan á húsi míns Guðs, vil eg gefa mína eigu í gulli og silfri til míns Guðs húss, auk þess sem eg hefi aflað til þess heilaga húss:4Þrjú þúsund vættir gulls og 7 þúsund vættir af hreinsuðu silfri, til að klæða með veggi hússins,5til alls sem á að vera af gulli, og til alls sem vera á af silfri, til allra verka smíðanna. Og—hvör er nú fús að koma fyrir Drottin í dag með fulla hönd?
6Og fúsir voru höfuðsmenn ættliðanna og yfirmenn ættkvísla Ísraels, höfðingjarnir yfir þúsund og yfir hundrað (manns) og höfðingjarnir yfir kóngsins erindum.7Og þeir gáfu til Guðshúss verksins gull, 5 þúsund vættir og 10 þúsund dareika, og silfur, 10 þúsund vættir, og eir 18 þúsund vættir, og járn 100 þúsund vættir.8Og hvör sem hafði steina, hann gaf þá til fjársjóða Drottins húss, í hönd Jehíels, Gersoníta.9Og fólkið gladdist af þeim fúsu gjöfum; því með viljugum hjörtum gáfu þeir þær Drottni, og líka varð Davíð konungur mikið glaður.
10Og Davíð vegsamaði Drottin í áheyrn alls safnaðarins og mælti: lofaður sért þú Drottinn, Guð Ísraels, vorra feðra, frá eilífð til eilífðar!11Þín er, Drottinn, hátignin, og maktin og dýrðin og algjörlegleikinn og heiðurinn, já allt á himni og jörðu; þitt er kóngsríkið, Drottinn, og þú ert hafinn yfir allt sem höfðingi.12Auður og heiður (kemur) frá þínu augliti (frá þér) og þú drottnar yfir öllu, og í þinni hendi er krafturinn og valdið, og í þinni hönd stendur að hefja allt og viðhalda öllu.13Og nú, vor Guð! þökkum vér þér, og vegsömum nafn þinnar dýrðar!14því hvað er eg, og hvað er mitt fólk, að vér gátum gefið slíkar gjafir? því frá þér kemur allt, og frá þinni hendi (er það sem) vér höfum þér gefið.15Því framandi og gestir erum vér fyrir þér, eins og allir vorir feður; sem skuggi eru vorir dagar á jörðunni, án vonar.16Drottinn, vor Guð! allar þessar nægtir, sem vér höfum að dregið, til þess að byggja þér hús fyrir þitt heilaga nafn, frá þinni hendi eru þær, og allt er þitt.17Og eg veit, minn Guð! að þú prófar hjartað og elskar hreinskilni, með einlægu hjarta hefi eg allt þetta fúslega gefið og með gleði hefi eg séð, hvörsu þitt fólk sem hér er, hefir gefið þér viljuglega.18Drottin! Guð Abrahams, Ísaks og Ísraels, vorra feðra, varðveit þú eilíflega slíkt sinni og hugsan í hjörtum þessa fólks, og snú þeirra hjörtum til þín!19Og gef syni mínum Salómon hlýðið hjarta að halda þín boðorð og þinn vitnisburð og þína setninga, og að gjöra allt og byggja þá höll, sem eg hefi undirbúið.
20Og Davíð sagði til alls safnaðarins: vegsamið Drottin, yðar Guð! og allur söfnuðurinn vegsamaði Drottin, Guð þeirra feðra, og þeir hneigðu sig og beygðu fyrir Drottni, og fyrir konunginum.21Og þeir færðu Drottni fórnir, og offruðu Drottni brennifórnir, að öðrum morgni hins sama dags, þúsund nautum, þúsund hrútum, þúsund sauðum, og drykkjarfórn að auk, og öðrum mörgum fórnum fyrir allan Ísrael.22Og þeir átu og drukku fyrir Drottni þann sama dag í mikilli gleði, og gjörðu Salómon Davíðsson, í annað sinn að kóngi og smurðu hann Drottni til höfðingja, og Sadok til kennimanns.23Og svo settist Salómon í hásæti Drottins, sem kóngur í stað föður síns Davíðs og var lukkulegur, og allur Ísrael gekk til hlýðni við hann.
24Og allir yfirmenn og kapparnir og líka allir synir Davíðs kóngs, gengu á hönd Salómoni kóngi.25Og Drottinn gjörði Salómon mjög mikinn fyrir augum alls Ísraels, og gaf honum svo ágætan konungdóm, að enginn konungur yfir Ísrael á undan honum hafði þvílíkan.
26En Davíð, sonur Isaí, var konungur yfir öllum Ísrael.27Og hann ríkti yfir öllum Ísrael í 40 ár; í Hebron ríkti hann 7 ár, og í Jerúsalem ríkti hann 33 ár;28og hann andaðist í góðri elli, saddur af lífdögum, auð og heiðri, og Salómon hans son varð kóngur í hans stað.
29En saga Davíðs kóngs, sú fyrsta og seinasta, sjá! hún er skrifuð í sögu Samúels, þess sjáanda, og í sögu Natans spámanns, og í sögu Gaðs, sjáandans,30ásamt allri hans ríkisstjórn og hans hreystiverkum, og þeim tímum sem yfir hann liðu og yfir Ísrael og yfir öll ríki landanna.