Viðeyjarbiblía 1841

Biblia þad er: Heiløg Ritníng. I 5ta sinni útgéfin, á ný yfirskodud og leidrétt, ad tilhlutun ens íslendska Biblíufélags. Selst óinnbundin á skrifpappir 7 rd. Silfurmyntar. Videyar Klaustri. Prentud med tilstyrk sama Félags, á kostnad Sekretéra O. M. Stephensen.

Þetta er reyndar ekki fimmta biblíuútgáfa Íslendinga, heldur sú sjötta. Hún var prentuð í Viðey og er jafnan kennd við þann stað.

Um nýþýðingu var að ræða en ekki að öllu leyti úr frummálunum. Blaðsíður eru 1.464. Þeir sem að verkinu komu voru Árni Helgason (1777–1869), Ásmundur Jónsson (1808–1880), Geir Vídalín (1761–1823), Hallgrímur Scheving (1781–1861), Hannes Stephensen (1799–1856), Helgi Thordersen (1794–1867), Ísleifur Einarsson (1765–1836), Jón Jónsson í Möðrufelli (1759– 1846), Jón Jónsson í Steinnesi (1808–1862), Jón Jónsson lektor (1777–1860), Markús Jónsson (1806–1853), Ólafur E. Johnsen (1809–1885), Steingrímur Jónsson (1769– 1845), Sveinbjörn Egilsson (1791–1852) og Þorsteinn Hjálmarsen (1794–1871).

Dómur sögunnar er, að þarna hafi margt verið afar fagurlega þýtt. Alþýðlegur blær sveif þó yfir vötnunum, bæði í orðavali og stafsetningu, í anda Fjölnismanna. Eru fræðimenn yfirleitt sammála um, að þrátt fyrir ýmsa galla sé Viðeyjarbiblía „mikil framför frá útgáfunum í Höfn 1747 og 1813“, þótt hún kunni að standa „gömlu íslenzku útgáfunum eitthvað að baki að ytri frágangi“.

Annað nafn hennar er Jedoksbiblía, eftir rangri þýðingu á einum stað í Gamla testamentinu (Fyrri Konungabók 9.24).

Upplag var um 1.400 eintök.


Lýsing Viðeyjarbiblíu hér að ofan var skrifuð fyrir sýningarskrá sýningarinnar „Þann arf vér bestan fengum“ sem opnuð var í Þjóðarbókhlöðunni 26. september 2015.

Texti Viðeyjarbiblíu hér á vefnum var unninn fyrir vefinn af Jóni Hjörleifi Stefánssyni. Hægt er að nálgast ljósprent af upphaflegum texta Viðeyjarbiblíu á vefsvæði Landsbókasafns – Háskólabókasafns, baekur.is. Slóðin á Viðeyjarbiblíu er http://baekur.is/is/bok/000036980/Biblia_thad_er_heilog