(Skal ei finnast á grísku).

1Almáttugi Drottinn, Guð vorra feðra Abrahams, Ísaks og Jakobs og þeirra réttlátu niðja.2Þú sem hefir gjört himin og jörð með allri þeirra prýði.3Þú sem hefir innsiglað hafið með orði þín boðs, og byrgt undirdjúpið og innsiglað með þínu óttalega og dýrðlega nafni!4Fyrir hvörjum allir hlutir hljóta að skelfast, og nötra fyrir þínu volduga augliti!5Því hátign þinnar dýrðar er óbærileg, og sú reiði sem þú hótar syndurum er óþolandi.6En sú miskunn sem þú heitir, er næsta mikil og órannsakanleg; því þú ert sá æðsti Drottinn, innilega miskunnsamur, ríkur af langlundargeði og mjög náðugur, sem iðrast þess illa, er þú lætur yfir menn koma.7Þú Drottinn, hefir heitið, eftir þinni mikilli gæsku, umvendun og fyrirgefningu þeim sem hafa syndgað móti þér, og þú hefir af þinni mikilli miskunnsemi tilsett syndurum yfirbót til velferðar.8Svo hefir þú, Guð enna réttlátu, ekki tilsett yfirbót þeim réttlátu, Abraham, Ísak og Jakob, sem ekki syndguðu á móti þér, heldur hefir þú tilsett mér, syndaranum, yfirbót.9Því eg hefi oftar syndgað á móti þér, en margur er sandurinn í hafinu, mínar misgjörðir eru orðnar mjög margar, Drottinn! og eg er ei verðugur fyrir að skoða og sjá himinsins dýrð, sakir margfjölda minna misgjörða.10Eg er beygður í keng með mörgum járnhlekkjum, og get ei upplyft höfðinu, og hefi enga hvíld, af því eg hefi vakið þína reiði, með því að gjöra það sem illt var fyrir þínu augliti, eg gjörði ei þinn vilja, og hélt ekki þín boðorð, kom til vegar viðurstyggð, og móðgaði þig næsta mjög.11Og nú beygi eg kné míns hjarta og bið þig um náð, Drottinn! eg hefi syndgað, og játa mínar misgjörðir.12En eg bið þig og grátbæni, Drottinn! fyrirgef mér, fyrirgef mér það, og fyrirfar mér ekki með mínum misgjörðum, og vertu ekki reiður, svo að þú geymir mér það vonda eilíflega, og fordæmir mig til jarðarinnar neðstu fylgsna, því þú ert Guð, þeirra Guð, sem gjöra yfirbót.13Sýn á mér alla þína gæsku; því þú skalt bjarga mér ómaklegum eftir þinni mikilli miskunnsemi.14Og eg skal lofa þig alla daga míns lífs; því allur himinsins her lofar þig, og þér tilheyrir heiðurinn að eilífu.