Lærisveinar Jesú plokkuðu kornöx á hvíldardegi; Jesús læknar mann handarvisinn; er á bæn, útvelur þá tólf postula og læknar; kennir hvörjir sælir séu, og um miskunn í dómnum; kennir, að sinnislagið þekkist af verkunum.

1Það bar við á hvíldardegi þeim, sem fyrstur er eftir páska, að hann fór yfir akurlönd nokkur; reittu þá lærisveinar hans kornöx nokkur, neru þau með höndum sínum og átu;2þá sögðu nokkrir af faríseunum við þá: hví hafist þér það að, sem ekki er leyfilegt á hvíldardögum?3Jesús svaraði þeim: hafið þér ekki lesið, hvað Davíð gjörði, þegar hann og menn hans voru matþurfar?4að hann fór inn í Guðs hús a), tók brauðin helgu, át þau sjálfur, og gaf fylgdarmönnum sínum; en þessi brauð mátti enginn eta nema prestarnir;5og enn framar sagði hann: Mannsins Sonur er líka herra hvíldardagsins.
6Á öðrum hvíldar-degi kom hann í samkunduhús þeirra og kenndi, var þar þá maður nokkur, sem hafði ena hægri hönd visna;7en farísear og enir skriftlærðu gáfu gætur að, hvört hann læknaði á hvíldardegi, svo þeir fengi tilefni til að ásaka hann.8Þá sagði Jesús, sem vissi hvað þeir hugsuðu, við manninn, sem visna hafði höndina: stattú á fætur, og kom þú fram hingað. Maðurinn stóð upp og kom.9Þá sagði Jesús við þá: eg vil spyrja yður: hvört er heldur leyfilegt að gjöra á hvíldardögum gott eður illt; að frelsa líf manns eður að fyrirfara því?10Þá hann hafði litið í kring til allra, er við voru, sagði hann við manninn: réttu fram hönd þína! hann gjörði svo, og varð hún þá jafnheil sem hin.11Við þetta urðu þeir afar reiðir, og bára saman ráð sín um, hvað þeir skyldu gjöra við Jesúm.
12Um þessar mundir fór hann upp á eitt fjall að biðjast fyrir, og var þar alla nóttina á bæn til Guðs.13En er dagur kom, kallaði hann til sín lærisveina sína, og valdi tólf af þeim, sem hann kallaði postula;14þessir voru: Símon, sem hann kallaði Pétur, og Andrés bróðir hans, Jakob og Jóhannes, Filippus og Bartólómeus;15Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson, og Símon, sem kallaðist vandlætari:16Júdas Jakobsson og Júdas frá Karíot, sem síðan sveik hann.17Með þeim fór hann niður af fjallinu, og nam staðar á velli nokkrum; var þar þá með honum fjöldi af lærisveinum hans og miklar sveitir fólks úr allri Júdeu og Jerúsalem, og frá sjávarbyggðinni hjá Týrus og Sídón;18sem komnar voru að heyra hann, og til að læknast af sjúkdómum sínum, og þeir er þjáðir voru af óhreinum öndum.19Urðu þeir allir heilbrigðir, og leituðust þeir allir við að snerta hann, því kraftur gekk út frá honum, sem læknaði þá alla.20Jesús leit þá til lærisveina sinna og hóf svo ræðu sína: Sælir eruð þér, fátækir! því yðar er Guðs ríki;21sælir eruð þér, sem nú líðið hungur! þér skuluð saddir verða; sælir eruð þér, sem nú eruð sorgbitnir! síðar munuð þér huggun hljóta.22Sælir eruð þér, nær menn hatast við yður vegna Mannsins Sonar, útskúfa, lastmæla og bera út um yður óhróður, sem væruð þér illir menn!23fagnið þá og verið kátir, því mikil laun munuð þér á himni hljóta; því þannig breyttu forfeður þeirra við spámennina.24Vei yður, þér ríku! því þér hafið úttekið yðar gleði.25Vei yður, þér söddu! því þér munuð hungur líða; vesælir eruð þér, sem nú hlæið! því þér munuð sýta og gráta;26vesælir eruð þér, nær menn brúka við yður fagurgala! því eins gjörðu forfeður yðar við falsspámennina.27En yður býð eg, er orð mín heyrið: elskið óvini yðar, gjörið þeim gott, sem hata yður;28árnið þeim góðs, sem formæla yður, og biðjið fyrir þeim, er yður gjöra órétt.29Slái nokkur þig á aðra kinn þína, þá bjóð þú honum hina; og ef einhvör tekur frá þér yfirhöfn þína, þá meinaðu honum ekki að taka kyrtil þinn.30Gef þú hvörjum, sem biður þig, og ef einhvör tekur frá þér það, sem þitt er, þá kref þú þess ekki aftur.31Og eins og þér viljið að aðrir breyti við yður, eins eigið þér að breyta við þá.32Því þó þér elskið þá, sem yður elska, hvað gjörið þér í því það launavert sé? því bersyndugir elska einninn þá, sem þá elska;33og þó þér gjörið þeim gott, sem yður gjöra gott, hvað gjörið þér í því það launa sé vert? því bersyndugir gjöra hið sama.34Og þó þér lánið þeim, hjá hvörjum þér væntið að fá það lánaða aftur, hvað gjörið þér í því það launavert sé? því bersyndugir lána líka sínum líkum, svo þeir fái fullt aftur.35Þér þar í mót eigið að elska óvini yðar, gjöra gott og lána, án þess að vænta nokkurs aftur; þá mun umbun yðar verða mikil og þér munuð verða verðir að heita börn hins Hæsta, sem gjörir gott bæði vondum og vanþakklátum.36Verið því miskunnsamir eins og Faðir yðar er miskunnsamur.37Verið eigi ómildir í dómum yðrum, að ekki verði ómilt um yður dæmt. Sakfellið eigi, að þér eigi verðið sakfelldir; fyrirgefið, þá mun yður fyrirgefið verða.38Gefið, svo mun yður gefast, góður mælir, troðinn, skekinn og fleytifullur, mun yður gefinn verða; því með sama mæli og þér mælið öðrum, mun yður aftur mælt verða.39Síðan sagði hann þeim þetta til dæmis: hvört fær sá, sem sjálfur er blindur, vísað öðrum blindum veg? munu þeir ekki báðir falla í gryfju?40Lærisveinninn er ekki fyrir sínum Lærimeistara, en sá, sem er fullnuma, er jafn sínum Lærimeistara.41Hvörninn fær þú séð flísina í auga bróður þíns, en gætir ekki þess bjálkans, sem er í þínu eigin auga?42eður hvörninn fær þú sagt við hann: bróðir! lát þú mig taka flísina úr auga þér, meðan þú gefur ekki gaum að bjálkanum í þínu eigin auga? Þú, hræsnari! drag þú fyrst bjálkann úr þínu eigin auga og sjáðu síðan til, að þú fáir dregið flísina úr auga bróður þíns.43Það er ekki gott tré, sem ber slæma ávexti; ekki heldur er það slæmt tré, sem ber góða ávexti.44Sérhvört tré þekkist af sínum ávexti; því ekki lesa menn fíkjur af þyrnum eður vínber af þistlum.45Góður maður framber gott úr góðum sjóði hjarta síns, en illur maður framber illt úr vondum sjóði síns hjarta; því það mælir munnurinn, sem hjartað hefir nægt af.46Því kallið þér mig Herra, og gjörið þó ekki hvað eg býð yður?47eg vil segja yður hvörjum sá er líkur, sem kemur til mín og hlýðir minni kenningu og breytir eftir henni,48hann er líkur manni þeim, er byggði sér hús, gróf djúpt fyrir, og grundvallaði það á kletti; nú er vatnsflóð kom, skall straumurinn á þessu húsi, en fékk hvörgi hrært það, því það var grundvallað á kletti.49Hinn, er heyrir mína kenningu og breytir ekki eftir henni, hann er líkur manni þeim, er byggði sér hús á jarðvegi, en hafði enga undirstöðu; þegar straumarnir skullu á því, féll það strax, og þess hrun varð mikið.

V. 1–5. sbr. Matt. 12,1–8. Mark. 2,23–28. V. 2. 2 Mós. 20,10. 31,15. V. 3. 1 Sam. 21,6. V. 4. a. Tjaldbúðina. 3 Mós. 24,9. Sbr. 2 Mós. 29,32. V. 5. sbr. Mark. 2,28. V. 6–11. Matt. 12,9–14. Mark. 3,1–6. V. 12–16. Matt. 10,1–4. Mark. 3,7–12. V. 17. Mark. 3,7–12. V. 20. Matt. 5,1–13. V. 28. Matt. 5,43.44. V. 30. Matt. 5,39–42. V. 31. Matt. 7,12. V. 32. Matt. 5,46.48. V. 37. Matt. 7,1.2. V. 41–42. Matt. 7,3–6. V. 43–44. Matt. 7,16–19. V. 45. Matt. 12,34. V. 46–47. Matt. 7,21–23. V. 48–49. Matt. 7,24–27.