Harmaljóð um það, hvörsu sigurvegararnir misþyrmi fólkinu.

1Minnstú, Drottinn! þess, sem yfir oss hefir gengið! líttú ofan, og sjá háðung vora!2Arfleifð vor er orðin eign óviðkomandi manna, hús vor útlendinga (eign).3Vér erum orðnir munaðarleysingjar, föðurlausir, mæður vorar eru eins og ekkjur.4Vort eigið vatn drekkum vér (keypt) fyrir peninga, vorn eigin við flytjum vér að oss (keyptan) við verði.5Vér erum eltir yfir háls og höfuð b) þó vér erfiðum oss uppgefna, þá fáum vér ekki hvíld að heldur.6Vér hljótum að seilast til egypskra og Assyríumanna, til að fá saðning af brauði.7Feður vorir syndguðu, nú eru þeir ekki lengur til, en vér berum þeirra sekt.8Þrælar drottna yfir oss, enginn er sem bjargi oss af hendi þeirra.9Með lífshættu vorri sækjum vér oss fæðu, vegna sverðsins á eyðimörkinni.10Hörund vort er brunnið, eins og ofn, af hungursins loga.11Þeir smána konurnar í Síon, meyjarnar í Júdeuborgum.12Þeir hengja höfðingjana með eigin höndum, og bera ekki virðingu fyrir (þyrma ekki) hinum öldruðu.13Æskumennirnir verða að mala í kvörn c), og drengirnir skjögra undir viðnum (viðarbyrðunum).14Öldungarnir koma ekki á þing d), og unglingarnir eru hættir að iðka hljóðfæraslátt.15Fögnuður hjartna vorra er horfinn, vor gleðidans er orðinn að sorg.16Höfuðprýði (kóróna) vor er dottin ofan, æ oss auma! af því vér höfum syndgast.17Þess vegna er hjarta vort harmþrungið, þess vegna eru augu vor döpur;18vegna Síonsfjalls, sem er í eyði, sem refirnir hlaupa yfir.
19Þú, Drottinn! ríkir að eilífu, þitt hásæti stendur öld eftir öld.20Því ætlar þú að gleyma oss ævinlega, og sleppa hendinni af oss alla ævi vora!21Leið oss aftur til þín, Drottinn! að vér komumst heim aftur e); gef þú oss aftur (gleði)dag, eins og forðum!22Því þú hefir alvarlega útskúfað oss, og orðið oss stórreiður.

V. 5. b. Aðr: (með oki) á hálsi erum vér áfram reknir. V. 13. c. „Að mala í kvörn“ var þrælaverk. V. 14. d. Aðr: „Öldungarnir koma ekki í borgarhliðin“ en borgarhliðin voru þingstöðvar hjá Gyðingum. V. 21. e. „Að vér komumst heim aftur.“ Að.: „að vér bætum ráð vort.“ Aðr: „mun oss þá vegna vel, eins og áður.“