Jesús ummyndast á fjallinu; útrekur málleysis- og heyrnarleysisanda; talar um dauða sinn; straffar metorðagirnd lærisveina sinna, o. s. frv.

1Þegar liðnir voru sex dagar, tók Jesús Pétur, Jakob og Jóhannes með sér eina saman, og fór með þeim upp á hátt fjall. Hér breyttist yfirlitur hans fyrir þeirra augum;2urðu klæði hans skínandi og hvít, sem snjór; hvítari en nokkur þvottamaður í heimi kann að gjöra.3Þá birtist þeim Elías og Móses, og vóru þeir á tali við hann.4Þá tók Pétur svo til orða við Jesúm: Meistari! hér er oss gott að vera, vér viljum reisa hér þrjár tjaldbúðir, eina handa þér, aðra handa Móse, og hina þriðju handa Elíasi;5en hann vissi ekki, hvað hann sagði, því felmtur var yfir þá kominn.6Þá dró yfir þá ský, og úr því heyrðist rödd, er mælti: þessi er sonur minn elskulegur, hlýðið þér honum!7Strax lituðust þeir um, og sáu engan framar hjá sér, nema Jesúm einan.8Nú er þeir gengu niður eftir fjallinu, þá bannaði hann þeim að segja nokkrum frá því, er þeir hefðu séð, fyrr en Mannsins Sonur væri upprisinn frá dauðum.9Þeir hugfestu þetta orð, og spurðu hvör annan, hvað það ætti að þýða, að upprísa frá dauðum?10og spurðu hann: því segja hinir skriftlærðu: að Elías eigi áður að koma?11Jesús mælti: Elías kemur að sönnu fyrst, og lagfærir allt; og það mun fara, eins og skrifað er um Mannsins Son, að hann líði margt og verði fyrirlitinn;12en trúið mér, Elías er kominn, og þeir breyttu við hann, sem þeim líkaði, eins og spáð er um hann.
13Þegar hann kom til lærisveina sinna, sá hann, að mikill fjöldi fólks var hjá þeim, og hinir skriftlærðu sem spurðust á við þá;14en strax, sem fólkið sá hann, hnykkti því við, hljóp til og heilsaði honum.15Jesús spurði þá: um hvað þeir væru að fást?16honum svaraði einn af fólkinu á þessa leið: Meistari! eg hefi flutt son minn til þín, hann er þjáður af málleysis anda;17nær andinn hrífur hann, kastar hann honum niður, og þá froðufellir hann og gnístir tönnum og verður máttvana. Eg bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir orkuðu þess ekki.18Þá sagði Jesús: þú trúarlausa þjóð! hvörsu lengi skal eg hjá yður vera? hvörsu lengi skal eg umbera yður? færið mér hann!19þeir gjörðu svo; en strax, sem hann sá Jesúm, teygði andinn hann sundur og saman, féll hann þá til jarðar, veltist um og froðufelldi.20Jesús spurði þá föður hans: hvörsu langt væri, síðan þetta hefði viljað honum til? hann kvað hann hafa haft þenna sjúkdóm frá barnæsku.21Oft hefir andinn—sagði hann—kastað honum bæði á eld og í vatn til að fyrirfara honum; en ef þú ert nokkurs orkandi, þá hjálpa þú okkur, og kenn þú í brjósti um okkur!22Jesús mælti: það skal ske, ef þú getur trúað; trúuðum er allt mögulegt.23Strax grét faðir sveinsins hástöfum og sagði: já! eg trúi, en hjálpa þú trúarleysu minni!24Nú er Jesús sá, að fólkið þyrptist að, talaði hann svo til hins illa anda: eg býð þér, þú andi! sem veldur mál- og heyrnarleysi manns þessa, að þú farir út af honum, og komir aldrei aftur.25Hann hrein þá og teygði hann mjög sundur og saman, síðan fór hann út; en sveinninn lá eftir, sem væri hann dauður, svo margir sögðu, að hann væri látinn;26Jesús tók þá í hönd hans og reisti hann á fætur, og þá stóð hann upp.27Þegar Jesús var kominn heim, spurðu lærisveinar hans einslega: því þeir ekki hefðu getað rekið hann út?28Jesús mælti: þetta kyn verður ekki útrekið, nema með bæn og föstu.
29Þegar þeir fóru þaðan yfir Galíleu, vildi Jesús ekki að nokkur skyldi vita það;30því hann var þá að kenna sínum lærisveinum, og sagði þeim að mannsins sonur ætti að ofurseljast í manna hendur, sem mundu taka hann af lífi, en eftir það hann væri líflátinn, mundi hann upprísa á þriðja degi.31En þeir skildu það ekki, en þorðu þó ekki að spyrja hann um það.
32Hann kom til Kapernaum, og þegar hann kom til herbergis síns, spurði hann lærisveina sína, hvað það hefði verið, sem þeir hefðu verið að tala um á veginum sín á milli;33en þeir þögðu, því þeir höfðu verið að tala um á veginum, hvör þeirra mestur væri.34Hann settist þá niður, og kallaði til sín þá tólf, og mælti svo til þeirra: hvör yðar, sem vill vera mest metinn, veri hann lægstur allra og allra hinna þjón.35Síðan tók hann barn eitt, og setti það meðal þeirra, faðmaði það, og mælti:36hvör, sem meðtekur þvílíkt barn mín vegna, það er sem meðtæki hann sjálfan mig; en hvör hann meðtekur mig, hann meðtekur ekki mig einungis, heldur þann, sem mig sendi.37Þá tók Jóhannes til orða og mælti: Meistari! vér sáum mann einn, sem í þínu nafni rak djöfla út, og vér bönnuðum honum það, af því hann var ekki af vorum flokki.38Jesús sagði: bannið honum það ekki; því enginn sá, sem gjörir kraftaverk í mínu nafni, talar strax á eftir illa um mig.39Hvör, sem ekki er á móti yður, hann er með yður;40hvör, sem gefur yður vatnsdrykk vegna mín, vegna þess, að þér heyrið Kristi til, honum mun það ekki ólaunað vera.41Tæli einhvör nokkurn til ills af þessum smælingjum, sem trúa á míg, betra væri honum, að myllusteinn héngi um háls honum, og honum væri í sjó sökkt.42Ef þín hægri hönd lokkar þig til ills, þá högg þú hana af; betra er þér að innganga handarvana til lífsins, en að hafa báðar hendur heilar og fara til helvítis í þann óslökkvanda eld,43hvar ormur þeirra ekki deyr og eldur aldrei slokknar.44Ef að fótur þinn lokkar þig til ills, þá högg þú hann af; betra er þér höltum að innganga til lífsins, en að þú hafir báðar fætur heila, og þér verði kastað í helvíti í þann óslökkvanda eld,45hvar ormur þeirra aldrei deyr og eldur aldrei slokknar.46Ef auga þitt tælir þig til ills, þá slít þú það út; bera er þér að koma eineygðum í Guðs ríki, en að þú hafir bæði augu þín, og þér verði kastað í helvítis eld,47hvar ormur þeirra ekki deyr, og eldur ekki slokknar.48Því sérhvör á að saltast með eldi, eins og sérhvör fórn á að saltast með salti.49Saltið er góður hlutur, en láti það kraft sinn, með hvörju viljið þér þá selta það? Haldið seltunni í yður, og verið samlyndir innbyrðis.

V. 1–12. Matt. 17,1–13. Lúk. 9,28–36. V. 12. Sálm. 22. Esa. 53. Dan. 9,26. V. 13–23, sbr. Matt. 17,14–21. Lúk. 9,37–43. V. 29–31, sbr. Matt. 9,22.23. Lúk. 9,44.45. V. 32–47, sbr. Matt. 18,1–11. 20,26.27. 10,40–42. Lúk. 9,46–50. V. 43, sbr. Es. 66,24. V. 48. Saltast með eldi, þ. e. með því að stríða móti sínum ráðríkustu girndum. (V. 42–46), eiga menn að undirbúa sig til eilífs lífs eins og sérhvör fórn undirbjóst til þess að verða Guði velþóknanleg, með saltinu, 3 Mós. 2,13. V. 49, sbr. Matt. 5,13. Lúk. 14,34–35.