Esekíel boðar Gyðingum, að sá dagur sé fyrir hendi, að Guð muni vægðarlaust refsa þeim þverúðarfulla lýð, með því að láta Kaldea inntaka Jerúsalem, 1–11; lýsir ráðleysu, angist og hugleysi fólksins, meðan óvinirnir umsátu borgina, 12–18; allar gersemar skyldu verða óvinunum að herfangi, 19–22; og fólkið í Júdalandi flytjast burt í fjötrum, 23–27.

1Orð Drottins kom til mín svo mælandi:2þú mannsins son, svo segir Drottinn alvaldur um Ísraelsland: endirinn kemur, já, kemur yfir fjórar álfur landsins;3nú eru þau endalokin komin yfir þig, að eg sendi mína reiði móti þér, dæmi þig eftir þinni hegðun, og læt allar þínar svívirðingar niður á þér koma.4Eg skal ekki vægja þér, og öngva meðaumkvun hafa, heldur láta þína hegðun niður á þér koma, og allar þínar svívirðingar skulu á þér bitna, svo að þér skuluð viðurkenna að eg em Drottinn.5Svo segir Drottinn alvaldur: ógæfan kemur, já, dæmalaus ógæfa!6endirinn kemur, endirinn kemur, hann er vaknaður uppi yfir þér, líttu á, hvar hann kemur;7það tekur til að birta af degi yfir þér, þú innbúi landsins, tíminn kemur, sá dagur er í nánd, sem færir með sér ófrið, en engin gleðilæti á fjöllunum.8Nú mun eg bráðum úthella minni heift yfir þig, og láta mína gjörvalla reiði yfir þig dynja; eg skal dæma þig eftir þinni hegðun, og láta allar þínar svívirðingar á þér lenda.9Eg skal ekki vægja, og enga meðaumkvun hafa; eg skal gjalda þér eftir breytni þinni, og þínar svívirðingar skulu niður á þér koma, svo að þér skuluð viðurkenna, að eg Drottinn er sá sem tyftir.10Líttu á dagsbrúnina, horfðu á, hvar hún kemur! morgunroðinn gengur upp! Vöndurinn a) blómgast, drambsemin þróast;11ofríkismaðurinn er orðinn svo magnaður, að hann getur verið vöndur á þá óguðlegu: öngvum þeirra skal vægt verða, öngvum múgamanni, öngvum höfðingja, ekkert skal eftir verða af yfirlæti þeirra.
12Sá tími kemur, sá dagur er í nánd, að kaupandinn skal ekki feginn verða, og seljandinn ekki ógleðjast; því reiðidómurinn gengur yfir gjörvallan fólksmúginn.13Seljandinn skal ei aftur að seldu komast, jafnvel þó honum entist líf til b); því vitranin, sem kemur fram á gjörvöllum lýðnum, skal ekki að hégómamáli verða, og enginn, sem lifað hefir óguðlegu lífi, skal vita sig óhultan.14Þó herblástur sé blásinn og allavega umbúist, mun samt enginn hætta sér í orrustuna; því mín reiði gengur yfir gjörvallan múginn.15Sverðið mun geysa utanborgar, hungur og drepsótt innanborgar; sá sem er á akri, skal fyrir sverði falla, og þeim, sem innan borgar er, skal hungur og drepsótt eyða.16Komist nokkurir undan, munu þeir til fjalla flýja, og vera þar, allir kveinandi, hvör yfir sínum misgjörðum, eins og kurrandi dúfur í dölum;17allar hendur munu lémagna verða, og öll kné iða sem vatn;18þeir munu íklæðast hárklæðum, hræðslan mun hylja þá, skömmin mun sitja á hvörju andliti, og hvört höfuð vera sköllótt.
19Silfri sínu munu þeir varpa út á strætin, og horfa á gull sitt með viðbjóð; þeirra silfur og gull mun ei fá frelsað á reiðidegi Drottins; þeir munu ei geta sefað hungur sitt eða fyllt kvið sinn með því; það varð þeim að fótakefli til hrösunar:20því það sem þeim var gefið til prýði og búningsbótar, því vörðu þeir til dramblætis, og gjörðu þar af viðurstyggilegar og svívirðilegar goðalíkneskjur; þess vegna læt eg þá fá viðbjóð á því.21Eg skal selja það útlendum í hendur til herfangs, þeim verstu mönnum á jörðunni til hlutskiptis, og þeir skulu vanhelga það;22eg skal snúa mínu augliti frá þeim, og þeir skulu vanhelga minn helgidóm: ræningjar skulu brjótast inn í hann og vanhelga hann.
23Bú þú til fjötur, því landið er fullt af óbótaverkum, og borgin af rangindum.24Eg skal stefna hingað þeirri verstu þjóð til þess að kasta eigu sinni á hús þeirra; eg skal drepa niður dramblæti hinna sterku, og þeirra helgidómar skulu verða vanhelgaðir.25Þegar ógæfan að steðjar, munu þeir leita friðar, en þá er hvörgi frið að finna;26eitt óhappið mun öðru fylgja, og hvör ótíðindin koma á fætur öðrum. Þeir munu leita vitrana hjá spámönnunum, en þá mun ekkert lögmál til vera hjá kennimönnunum, og engin ráðdeild hjá forstjórunum;27Konungurinn mun verða sorgbitinn, og landshöfðinginn sinnulaus, og landsfólkinu munu fallast hendur. Eftir breytni þeirra skal eg með þá fara, og eftir þeirra verðleikum dæma þá, svo þeir kannist við, að eg em Drottinn.

V. 10. a. Nebúkadnesar, Babýlonarkóngur. V. 13. b. Þ. e. þó hann lifi til fagnaðarársins, þá sérhvör fékk aftur þann akur, sem hann hafði selt, 3 Mós. 25,13.