Landshlutir helgidómsins, kennimannanna, Levítanna, borgarinnar og landshöfðingjans, 1–8; um réttlæti landstjórnendanna, 9–12; um tolla til landshöfðingjans, og um hátíðafórnir, 13–25.

1Þegar þér skiptið landinu með hlutföllum til arfleifðar, skuluð þér skilja nokkurn hluta lands frá, sem Drottni skal helgaður vera; það skal vera 25000 mælisköft á lengd, og 10000 á breidd. Þetta land skal heilagt vera innan sinna takmarka í allar áttir.2Þar af skal helgidóminum tilheyra ferskeyttur flötur, 500 mælisköft á hvörn veg; og umhverfis kringum þann flöt skal vera autt svið 50 álna.3Út frá þessum mælda reit skaltu mæla 25000 mælisköft á lengdina og 10000 á breiddina, þar skal helgidómurinn, sá heilagasti staður, vera.4Þetta er sá heilagi hluti landsins, sem kennimönnunum skal tilheyra, þeim er embætta í helgidóminum og nálægja sig Drottni til að þjóna honum; þar skulu vera húsastæði þeirra, og þetta skal vera helgidómsstaður kringum helgidóminn.525000 mælisköft á lengd og 10000 á breidd skal tilheyra, þeim Levítum, sem þjóna í musterinu, og vera eign þeirra, ásamt með 20 herbergjum.6Borginni skulu þér gefa til eignar 5000 mælisköft á breidd, og 25000 á lengd, næst þeim reitnum, sem helgidóminum er ætlaður; þetta skal tilheyra öllum Ísraelsmönnum.7Landshöfðingjanum skuluð þér gefa landshluta beggja vegna við helgidómsreitinn og borgarreitinn, til móts við þá hvörutveggja, til vesturs, í haf að sjá, og til austurs, sem fram horfir; sá hluti skal vera jafnlangur hvörjum arfahluta ættkvíslanna frá því vestlæga takmarki til hins austlæga.8Þetta skal hann til eignar hafa af landinu í Ísrael, svo að mínir höfðingjar ekki framar veiti ágang mínu fólki, heldur láti Ísrael halda landinu eftir þeirra ættkvíslum.
9Svo segir Drottinn alvaldur: látið yður nægja þetta, þér Ísraelshöfðingar! látið af ofríki og yfirgangi, breytið eftir lögum og réttvísi, látið af að reka fólk mitt af eignum sínum, segir Drottinn alvaldur.10Þér skuluð hafa réttar vogir, rétt effa a) og rétt bat;11effa og bat skal vera jafnt að máli, bat skal draga tíunda part gómers, og eins effa tíunda part gómers; eftir gómer skal hvörttveggja mælast;12sikill skal vera 20 gera; ein Mína hjá yður skal vera til 25 sikla, 20 sikla og 15 sikla.
13Þetta er sú upplyftingarfórn, sem þér skuluð gefa: af einum gómer hveitis, sjöttung af effa; af einum gómer byggs, sjöttung af effa.14Þetta er tilskipað um viðsmjörið: af einu bat viðsmjörs skal gefa tíunda part bats, eða eitt bat af einum kór, sem dregur 10 bat, eins og gómer; því í einum gómer eru 10 bat.15Einn sauð skal gefa af hvörjum tveim hundruðum sauða, af hjörðum þeim, sem ganga í þeim vatnsríku grashögum Ísraelslands; það skal vera til matarfórnar, brennifórnar og þakkarfórnar, til að friðþægja fyrir fólkinu, segir Drottinn alvaldur.16Allt fólkið í landinu skal vera skylt til að færa þessa upplyftingarfórn landshöfðingjanum í Ísraelslandi.17Landshöfðinginn skal vera skyldur til að útvega brennifórnir, matarfórnir og dreypifórnir á hátíðum, tunglkomum og hvíldardögum, og á öllum löghátíðum Ísraelsmanna; hann skal útvega syndafórnir, matarfórnir, brennifórnir og þakkarfórnir til að friðþægja fyrir Ísraelsfólki.18Svo segir Drottinn alvaldur: á fyrsta degi hins fyrsta mánaðar skaltu taka ungan uxa gallalausan, og friðhelga helgidóminn.19Kennimaðurinn skal taka nokkuð af blóði syndafórnarinnar, og ríða því á dyrustafi musterishússins, á fjórar hyrningar altarisstallsins, og á dyrustafi portsins að innra forgarðinum.20Eins skaltu gjöra hinn sjöunda dag mánaðarins vegna þeirra, sem ófyrirsynju eða af einfeldni kynnu að hafa misgjört eitthvað; þannig skuluð þér friðhelga musterið.21Á fjórtánda degi hins fyrsta mánaðar skuluð þér halda páska, sú hátíð skal vara í 7 daga, og þá skal ósýrt brauð eta.22Á þeim sama degi skal landshöfðinginn fórna fyrir sig og allt fólkið í landinu einum uxa í syndafórn;23og á þeim 7 hátíðisdögum skal hann færa Drottni brennifórn, sjö uxa og sjö hrúta gallalausa, daglega í þá 7 daga, og enn skal hann á degi hvörjum fórna kjarnhafri í syndafórn.24Í matarfórn skal hann fórna einu effa með hvörjum uxa, og einu effa með hvörjum hrút, en ein hín viðsmjörs heyrir til hvörs effa.25Á 15da degi hins sjöunda mánaðar skal hann á hátíðinni a) fórna sömu syndafórn, brennifórn, matarfórn og viðsmjöri, sem á hinum 7 dögunum.

V. 10. a. Effa var þurramælir, bat, lagamælir. V. 25. a. Þ. e. laufskálahátíðinni.