Smíðuð örkin, arkarlokið, borðið, ljósahjálmurinn og reykelsisaltarið.

1Síðan gjörði Besalel örkina af belgþornsviði, hún var hálfrar þriðju álnar á lengd, en hálfrar annarrar álnar á breidd og hæð;2hann gullbjó hana utan og innan með skíru gulli, og bjó til rönd á henni af gulli umhverfis.3Hann steypti til arkarinnar fjóra hringa af gulli, til að setja í fjögur horn hennar, tvo hringa annarsvegar og tvo hinsvegar.4Hann gjörði ása af belgþornsviði, og gullbjó þá,5smeygði svo ásunum í þá hringa, sem voru á hliðvegum arkarinnar, svo bera mætti örkina á þeim.
6Þá gjörði hann lok af skíru gulli, hálfrar þriðju álnar langt, og hálfrar annarrar álnar breitt.7Hann bjó til tvo kerúba úr drifnu gulli á hvorumtveggja lokendanum,8var annar kerúbinn á loksendanum annarsvegar, en hinn á hinum endanum, og lét hann kerúbana vera upp af lokinu á báðum endum þess;9þessir kerúbar voru með útbreiddum vængjum yfir uppi, svo að þeir huldu lokið með vængjunum, en andlit þeirra sneru hvört í mót öðru og horfðu á lokið.
10Þá gjörði hann borðið af belgþornsviði, tveggja álna langt, álnar breitt, og hálfrar annarrar álnar hátt;11hann bjó það með skíru gulli, og gjörði gullrönd umhverfis á því;12umhverfis það lagði hann lista þverhandarbreiðan, og bjó til rönd af gulli umhverfis á listanum.13Hann steypti til borðsins fjóra hringa af gulli, og setti þá í þau fjögur horn, sem voru á þeim fjórum fótum borðsins;14þessir hringar voru á samkomumótum listanna, og var þar í smeygt ásunum til að bera borðið á;15ásana til að bera borðið á, bjó hann til af belgþornsviði og gullbjó þá.16Hann bjó til þau ker, er borðinu fylgdu, af skíru gulli, bæði fötin, skálarnar, dreypikerin og bollana, sem til dreypifórnar var haft.
17Hann gjörði ljósahjálm af skíru gulli; þann ljósahjálm gjörði hann af drifverki; möndullinn, liljurnar, skálarnar, knapparnir og laufin voru samgjörvingar.18Sex liljur lágu út frá hjálminum, þrjár liljur annars vegar, og þrjár hins vegar;19á einni liljunni voru þrjár skálar, í lögun sem mandelshvolf, með knöppum og laufum: á næstu lilju voru og þrjár skálar, í lögun sem mandelshvolf, með knöppum og laufum; og svo var á öllum 6 liljunum, sem út lágu frá ljósahjálminum.20Á sjálfri ljósastikunni voru fjórar skálar, í lögun sem mandelshvolf, með knöppum og laufum;21var einn knappur undir tveimur liljunum, og samgjör við möndulinn, þá annar knappur samgjör undir tveimur næstu liljum, og þá enn þriðji knappur undir hinum tveimur liljunum, og enn samgjör; það eru þrír knappar fyrir þær 6 liljur, sem út lágu frá ljósastikunni.22Knapparnir og liljurnar voru samgjörvingar, var það allt gjört af einlægu drifverki, og af skíru gulli.23Hann gjörði 7 lampa með ljósahjálminum; ljósasöx og skarpönnur, sem honum fylgdu, voru af skíru gulli.24Ljósahjálminn með öllum sínum búnaði gjörði hann af einni vætt skírs gulls.
25Síðan gjörði hann reykelsisaltarið af belgþornsviði, það var álnarlangt og álnarbreitt, ferskeytt, tveggja álna hátt, og horn þess samgjör við altarið.26Hann bjó það með skíru gulli, bæði að ofan og á hliðum, og svo horn þess, og gjörði gullrönd á því allt umhverfis;27þar til gjörði hann tvo hringa af gulli fyrir neðan röndina, báðumegin á hyrningum þess, til að smeygja þar í ásum þeim, er altarið skyldi berast á;28ásana gjörði hann af belgþornsviði, og gullbjó þá.29Hann bjó og til það helga smurningarviðsmjör, og hreint ilmreykelsi á kryddarahátt.