Daníel útþýðir draum Nebúkadnesars um líkneskjuna.

1Á öðru ári ríkis Nebúkadnesars dreymdi Nebúkadnesar draum, og varð hann svo angurvær af draumnum, að hann fékk andvökur.2Þá bauð konungurinn að kalla til sín kunnáttumenn, stjörnuvitringa, galdramenn og Kaldeaspekinga, að þeir skyldu segja konunginum, hvað hann hefði dreymt. Þeir komu, og gengu fyrir konunginn.3Konungur sagði til þeirra: draum dreymdi mig, og er eg mjög áhyggjufullur að vita hvaða draumur það er.4Kaldear sögðu til konungsins á sýrlensku: njóti konungurinn langra lífdaga! Seg oss drauminn, þjónum þínum, og munum vér þá segja þér þýðinguna.5Konungurinn tók til orða og sagði til Kaldea: minn ásetningur stendur stöðugur, að ef þér ekki segið mér drauminn og þýðing hans, skuluð þér verða höggnir í stykki og yðar hús gjörð að moldarhrúgum;6en ef þér segið mér drauminn og þýðing hans, skuluð þér af mér þiggja skenkingar, gjafir og miklar gersemar; segið mér þess vegna drauminn og hans útskýring!7Þeir svöruðu aftur og sögðu: segi konungurinn oss drauminn, þjónum sínum, og þá munum vér segja þýðinguna.8Konungur tók til orða og sagði: eg veit með vissu, að þér ætlið að leita yður fresta, þar eð þér sjáið, að mín fyrirætlan stendur stöðug;9því ef þér segið mér ekki drauminn, þá gengur yður það eitt til, að þér hafið komið yður saman um að fara með fals og lygar fyrir mér, og viljið svo bíða þess, að tíminn breyti sér. Segið mér því drauminn, og þá mun eg trúa, að þér megið og segja mér þýðing hans.10Kaldear svöruðu konunginum og sögðu: enginn er sá maður í heimi, að segja kunni það er konungurinn mælist til; enginn er sá heldur konungur, hvörsu mikill og voldugur sem verið hefir, að til slíks hafi mælst af nokkurum kunnáttumanni, stjörnuvitringi eða Kaldea spekingi;11því það, sem konungurinn mælist til, er helst til torvelt, og enginn kann að kunngjöra það konunginum, nema guðirnir einir, hvörra bústaðir ekki eru hjá mönnum.12Af þessu varð konungurinn stórlega reiður, og sagði að taka skyldi af lífi alla vísindamenn í Babel;13gekk sú skipun út, að lífláta skyldi vísindamennina, og var leitað að þeim Daníel og félögum hans, til að drepa þá.14Þá leitaði Daníel eftir með viturleik og skynsemi við Aríok, höfuðvarðarforingja konungsins, sem út var genginn til að aflífa vísindamennina í Babel;15hann tók til máls og spurði Aríok, valdsmann konungsins, hví svo harður úrskurður væri út gefinn af konunginum; en Aríok sagði Daníeli allan málavöxt.16Þá gekk Daníel inn til konungs, og bað hann gefa sér frest, að hann mætti segja konunginum þýðinguna.17Eftir það gekk Daníel heim, og sagði félögum sínum frá þessu, þeim Hananíu, Mísaeli og Asaríu,18að þeir bæði Guð himnanna um þá miskunn, að hann vildi birta þeim þenna leyndardóm, svo Daníel og hans félagar yrði ei af lífi teknir með hinum öðrum vísindamönnum í Babel.19En um nóttina varð þessi leyndardómur opinberaður Daníeli í einni vitran, og þá lofaði Daníel himnanna Guð.20Daníel tók til máls og sagði: vegsamað veri nafnið Guðs frá eilífð til eilífðar! því hans er vísdómurinn og mátturinn;21hann umbreytir tímum og tækifærum, hann afsetur og innsetur konunga, hann gefur spekingunum speki og þeim skynugu skilning,22hann opinberar órannsakanlega og hulda hluti, hann veit hvað í myrkrinu leynist, og ljósið býr allavega í kring um hann.23Eg þakka þér og lofa þig, Guð feðra minna, fyrir það að þú hefir lént mér vísdóm og styrk; þú hefir nú opinberað mér það, sem vér báðum þig um: það sem konungurinn vildi vita, hefir þú gjört oss opinbert.24Daníel gekk nú inn til Aríoks, hvörjum konungur hafði um boðið að aflífa vitringana í Babel; hann kom og sagði svo til hans: lát ei aflífa vitringana í Babel, leið mig inn fyrir konunginn, eg vil segja konunginum þýðinguna.25Síðan fór Aríok með Daníel í skyndi inn fyrir konunginn, og mælti svo til hans: eg hefi fundið einn mann á meðal enna herleiddu frá Júdalandi, sem getur sagt konunginum þýðinguna.26Konungurinn tók til máls, og sagði til Daníels, sem kallaður var Beltsasar: treystir þú þér til að segja mér þann draum, sem mig dreymdi, og þýðingu hans?27Daníel svaraði konunginum og sagði: þann leyndardóm, sem konunginn forvitnar að vita, kunna öngvir vísindamenn, stjörnuvitringar, kunnáttumenn eða spásagnarmenn að segja konunginum;28en í himninum er sá Guð, sem opinberar leynda hluti, hann hefir kunngjört konunginum Nebúkadnesar, hvað verða muni á þeim síðustu tímum. Sá draumur og þær vitranir, sem fyrir þig báru í sæng þinni, eru þessar:29á sæng þinni uppsté hjá þér, konungur, sú hugsan, hvað hér eftir verða mundi; og hann, sem leynda hluti opinberar, hefir kunngjört þér, hvað verða muni.30En hvað mig áhrærir, þá er það ekki fyrir nokkurar visku sakir, sem eg hafi til að bera um fram alla menn aðra, þá er nú eru uppi, að þessi leyndardómur er mér opinber orðinn, heldur til þess að þýðingin yrði konunginum kunngjörð, og þú fengir að vita þínar hjartans hugsanir.31Þú sást, konungur, og sjá! frammi fyrir þér stóð mikið líkneski; þessi líkneskja var há, yfirtaks ljómandi, og ógurleg álits.32Höfuð líkneskjunnar var af skíru gulli, brjóstin og armleggirnir af silfri, kviðurinn og lendarnar af eiri,33leggirnir af járni, en þar sem fæturnir voru, var sumt af járni, sumt af leir.34Þú horfðir á hana, þar til steinn nokkur losnaði, án þess nokkur við hann kæmi, hann lenti á fótum líkneskjunnar, sem voru af járni og leir, og braut þá í sundur;35Þá sundurmuldist hvað með öðru, járnið, leirinn, silfrið og gullið, og varð eins og sáðir á sumarláfa, vindurinn feykti því á burt, svo þess sá engan stað; en steinn sá, er laust líkneskjuna, varð að stóru fjalli, og tók yfir alla jörðina.36Þetta er draumurinn; nú viljum vér segja konunginum þýðingu hans:37þú, konungur, ert yfirkonungur annarra konunga, því himnanna konungur hefir gefið þér ríkið, máttinn, veldið og tignina;38og hvervetna þar er menn búa, og dýr skógar og fuglar himins eru, þar hefir hann selt allt í hendur þér, og veitt þér vald yfir því öllu: þú ert gullhöfuðið.39Eftir þig mun hefjast annað konungsríki, minnaháttar en þitt er, og þarnæst hið þriðja ríki af eiri, sem drottna mun yfir allri veröldu;40fjórða ríkið mun hart verða sem járn; því eins og járnið sundurbrýtur og mölvar allt, og molar alla þessa málma, eins mun þetta ríki mölva og sundurbrjóta hin ríkin.41En þar er þú sást fæturnar og tærnar, að sumt var af leirkeramó, sumt af járni, þar mun ríkinu verða skipt; þó mun það nokkuru í sér halda af hörku járnsins, þar sem þú sást járnið blandað saman við deigulmóinn.42En þar er tærnar voru sums kostar af járni og sums kostar af leir, þá mun það ríki að nokkuru leyti verða öflugt, og að nokkuru leyti veikt;43og þar er þú sást járnið blandað saman við deigulmóinn, þá munu þeir með kvonföngum samanblandast, og þó ekki samþýðast hvörrir öðrum, eins og járnið samlagar sig ekki við leirinn.44En á dögum þessara konunga, mun Guð himnanna hefja eitt ríki, sem aldrei skal til grunna ganga, og það ríki skal öngvu öðru fólki í hendur fengið verða, það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft skal það standa að eilífu,45fyrst að þú sást, að steinn nokkur losnaði við fjallið, án handa tilverknaðar, og mölvaði járnið, eirið, leirinn, silfrið og gullið. Sá hinn mikli Guð hefir kunngjört konunginum, hvað hér eftir muni verða. Draumurinn er sannur, og þýðing hans áreiðanleg.46Þá féll Nebúkadnesar konungur fram á ásjónu sína, og laut Daníeli, og bauð að fórna honum matarfórn og reykelsi.47Konungurinn svaraði Daníeli og sagði: í sannleika er yðar Guð yfirguð guðanna, yfirkonungur konunganna og opinberari leyndra hluta, með því þú máttir þenna leyndardóm auglýsa.48Eftir það gjörði konungurinn Daníel að miklum manni, og gaf honum stórmiklar og margar gjafir, setti hann höfðingja yfir allt Babels hérað, og gjörði hann að æðsta forstjóra yfir öllum vísindamönnum í Babel;49en Daníel mæltist til af konunginum, að hann gjörði þá Sadrak, Mesak og Abednegó að sýslumönnum yfir Babels héraði, en sjálfur var Daníel við hirð konungsins.