Sama efni.

1Þá mun sá réttláti standa þeim gagnvart með mikilli einurð, sem þröngvuðu honum og möttu einkis hans mæðu.2Þegar þeir sjá hann munu þeir skelfast af ákafri hræðslu, og þeim mun verða bilt við þá óvæntu sælu.3Þeir munu segja hvör við annan, þá þeir hafa fengið annað sinni, og andvarpa af angist andans. „Þessi var þá sá, sem vér höfðum að athlátri og háðuglegu máltæki.4Vér dárar héldum hans líf vitleysu, og hans endalykt ærulausa.5Hvörnig var hann reiknaður meðal Guðs barna, og hans hlutskipti er meðal þeirra heilögu!6Þá höfum vér villst frá sannleikans vegi, og ljós réttlætisins lýsti oss ekki, og sólin rann oss ekki upp.7Vér þreyttum oss á ranglætisins og ógæfunnar stigum, og fórum um óvegaða auðn; en Herrans veg þekktum vér ekki.8Hvað hjálpaði oss þóttinn, og hvörn hagnað færði oss auðurinn með metnaðinum?9Horfið er þetta allt eins og skuggi og framhjáfarandi boðskapur.10Eins og skip, sem fer um vatnsins bylgjur, hvörs rásar engin spor finnast, og ekki heldur farið eftir þess kjöl í bylgjunum;11eða eins og ekkert merki verður fundið af rás þess fugls sem flýgur um loftið, um það létta loft, af vængjanna slætti lamið, og hvínandi krafti klofið, fer fuglinn áfram á veifuðum vængjum, og þar eftir finnst ekkert merki fuglsins í því;12eða eins og þá ör er skotið til marks, það klofna loft flýtur aftur saman í sjálft sig, svo menn vita ekki framar hvar örin fór.13Svona erum vér líka burthorfnir, eftir að vér fæddumst, og höfum ekkert merki vorrar dyggðar að sýna, heldur er oss burt kippt mitt í vorri vonsku“.
14Já, von þeirra guðlausu er sem fis, sem vindurinn feykir, og sem þunnt ryk af stormi hrakið, og eins og reykur sem veðrið tvístrar, og eins og endurminning þess hjálíður, sem aðeins einn dag hjá öðrum gistir.15En þeir réttlátu lifa eilíflega, þeirra laun eru í Drottni, og umönnun fyrir þeim hjá þeim æðsta.16Þess vegna munu þeir fá það dýrðlega ríki, og fegurðarinnar kórónu af Drottins hendi, því með sinni hægri hendi mun hann þá verja, og með sínum armi þeim hlífa.17Hann mun grípa, sem hertygi, sitt vandlæti og gjöra sköpunina að vopni til varnar gegn óvinunum.18Hann mun klæðast réttlætinu sem brynju, og setja alvarlegan dóm sem hjálm á höfuðið.19Hann mun taka heilagleikann sem ósigranlegan skjöld,20og brýna, sem sverð, þá ströngu reiði, og heimurinn mun með honum stríða móti þeim fávísu.21Vel hæfandi örvar eldinganna munu fara og fljúga til marksins, eins og frá harðspenntum boga skýjanna.22Og af steinslöngu reiðinnar mun haglsteinum þétt verða kastað; æða mun móti þeim vatn sjávarins, og vatnsföll munu með ofsa samansteypast.23Andi almættisins mun móti þeim standa, og sem hvirfilbylur þeim tvístra. Og svo mun ranglætið eyðileggja alla jörðina, og illvirki steypa hásætum hinna voldugu.