Spádómur um eyðilegging Ísraelsríkis; siðaspilling Júdaríkis og eyðilegging þess; Guðs vísdómur og gæska.

1Vei hinni tignarlegu kórónu hinna drukknu Efraimsmanna, hinu fölnanda blómstrinu, þeirri fegurðarprýðinni a), sem stendur á hæðinni í hinum frjóvsama dal enna víndrukknu.2Sjá, einhvör sterkur og voldugur kemur, að ráðstöfun Drottins, eins og haglhríð, eins og fárviðri, eins og hríð stríðra vatna streymir ofan og steypir sér til jarðar volduglega.3Hin tignarlega kóróna hinna drukknu Efraimsmanna skal verða fótum troðin;4hið fölnanda blómstur, fegurðarprýðin, sem stendur í hinum frjóvsama dal, skal verða sem árfíkja, sú er þroskast fyrir uppskerutímann: undir eins og einhvör sér, að hún er á trénu, grípur hann hana með hendi sinni, og gleypir hana í sig.5Á þeim tíma mun Drottinn allsherjar vera fögur kóróna og prýðilegt höfuðdjásn fyrir eftirleifar b) síns fólks,6réttlætisandi fyrir þá, sem í dóminum sitja, og styrkleikur þeirra, sem bægja ófriðinum frá landinu.
7En einnig þessa ríkis c) innbyggjendur reika af víndrykkju, og fara ráfandi af sterkum drykkjum. Kennimenn og spámenn reika af hinum áfenga drykk, og verða sigraðir af víninu. Þeir fara ráfandi fyrir sterkum drykk og reika af víni, og eru á reiki í dómunum.8Því öll matborð eru full af óþekktarspýju, og enginn staður er hreinn.9„Hvörjum vill hann kenna visku? Hvörn vill hann fræða í kenningu sinni? Vill hann fræða oss, sem vandir erum af mjólkinni og teknir af brjóstunum?10Því hér kemur boðorð á boðorð ofan, regla á reglu ofan, eitt boðorð á fætur öðru, og ein reglan á fætur annarri: hér er eins vant, og þar er annars vant“.11Hann mun þá tala til þessa fólks á útlensku máli og á annarra þjóða tungu.12Þegar hann sagði til þeirra, „þar í er hvíldin, þar í er rósemdin innifalin, að þér ljáið hvíldar hinum þreytta“, þá vildu þeir ekki hlýða.13Þá var sem Drottinn hefði sagt til þeirra, „boðorð á boðorð ofan, regla á reglu ofan, eitt boðorð á fætur öðru, og ein reglan eftir aðra, hér er eins vant, og þar er annars vant“, til þess þeir skyldu hvað eftir annað detta aftur á bak og slasa sig, festast í snörunni og verða teknir.14Heyrið þess vegna orð Drottins, þér spottarar, sem drottnið yfir því fólki, sem hér býr í Jerúsalemsborg.15Sökum þess þér segið: „vér höfum gjört sáttmála við dauðann og samband við dauðans ríki a); þó að hin ádynjandi plága gangi yfir, þá mun hún ekki ná til vor: því vér höfum gjört lygina að athvarfi voru, og svikin að skjóli voru“:16þess vegna segir Drottinn hinn alvaldi svo: Eg hefi lagt undirstöðustein á Síonsfjalli, prófaðan stein, ágætan hornstein, fullkomlega skorðaðan; hvör sem við hann styðst, sá þarf ekki að óttast.17Eg vil láta dóminn vera eins og mæliþráð, og réttvísina eins og mælilóð; og þá skal haglhríð burt slíta athvarf lyginnar, og vatnsflóð skola burt skjólinu.18Sáttmáli yðar við dauðann skal afmáður verða, og samband yðar við dauðans ríki engan stað hafa: þegar hin ádynjandi plága gengur yfir, skuluð þér verða fyrir henni;19í hvört sinn sem hún á dynur, skal hún ná yður: á hvörjum einum morgni skal hún yfir dynja, eins nótt, sem nýtan dag: það skal vera nóg hræðslugæði, þó ekki komi nema fregn af henni.20Þá mun sængin verða svo stutt, að maður mun ekki fá rétt sig í henni, og ábreiðan svo mjó, að maður fær ekki skýlt sér.21Því Drottinn mun uppstanda, eins og á Prasimsfjalli (1 Kron. 14,11): hann mun reiðast, eins og í dalnum hjá Gíbeonsborg b), til þess hann vinni það verk, sem hann er ekki vanur að vinna c), og fremji þá athöfn, sem honum er nýtt að fremja.22Látið nú af að spottast, svo fjötrar yðrir verði ekki enn harðari; því hinn alvaldi, Drottinn allsherjar, hefir kunngjört mér, að fullkomið tjón og algjör eyðilegging skuli koma yfir landið.
23Hlustið til, og heyrið mína rödd! Hyggið að, og hlýðið á mín orð!24Er akurmaðurinn vanur að plægja, rista og harfa akurland sitt til sæðis á hvörjum degi?25Fer hann ekki heldur svo að? Þegar hann hefir jafnað moldina að ofan, kastar hann þar í karba, hann sældar kúmeni, sáir hveiti, hrísgrjónum, byggi, hirsa, kirni, hvörju í sinn reit.26Hann er með sáðið eftir þeirri reglu, sem Guð hefir kennt honum.27Karbi er ekki þresktur með þreskikefli, og vagnhjóli er ekki velt yfir kúmen; heldur er karbi barinn af með staf, og kúmen með sprota.28Hveitikorn er sprengt út (úr axinu), en þó er ekki alltaf verið að þreskja það, eða sundurmerja það, með því að renna yfir það vagnhjólinu eða keyra hestinn yfir það.29Einnig þetta kemur frá Drottni allsherjar; hann er undrunarlegur í ráðum, og mikill í vísdómi.

V. 1. a. Efraimsmenn, innbúar Ísraelsríkis. Samaría, höfuðborg ríkisins, lá á fjallshæð, og dalir í kring. V. 5. b. Þ. e. innbyggjendur Júdaríkis. V. 7. d. Nefnil. Júdaríkis. V. 9–10. eru orð þeirra, sem gjörðu gys að áminningum Drottins. V. 11. Á útlensku máli, þ. e. hann (Drottinn) mun láta útlendar þjóðir (t.d. Kaldea) segja þeim til siðanna, fyrst þeir vilja ekki gegna umvöndun Drottins. V. 15. a. Þ. e. vér erum svo óhræddir við það tjón og þá eyðileggingu, sem Drottinn og hans spámenn hafa ógnað oss með, eins og vér hefðum gjört sáttmála við sjálfan dauðann og hans ríki. V. 21. b. Sjá 1 Kron. 14,(15),13–17; merk: í nýju útleggingunni vantar á þessum stað 16. og 17. versið. c. Nefnil., að refsa svo harðlega sínum útvalda lýð, eins og væru þeir óvinir hans.