Harmasöngur yfir óförum Egyptalandskonungs, 1–16; líksöngur yfir faraó, 17–32.

1Á tólfta árinu, þann fyrsta dag hins tólfta mánaðar, talaði Drottinn til mín svolátandi orðum:2þú mannsins son, kyrja þú upp harmasöng yfir faraó, Egyptalandskonungi, og seg til hans: þú varst eins og ljónskálfur meðal þjóðanna; þú varst eins og krókódill í höfunum, þú braust áfram í þínum vatnsstraumum, gruggaðir upp vatnið með fótum þínum, og sparkaðir niður vatnsbakkana.3Svo segir Drottinn alvaldur: eg vil leggja fyrir þig net mitt, og hafa við mannsöfnuð af mörgum þjóðum, sem skulu draga þig upp í mínu neti;4eg vil varpa þér upp á land, og láta þig liggja þar á bersvæði; síðan vil eg láta alla fugla himinsins setjast á þig, og öll villidýr jarðarinnar seðja sig af þér;5eg vil dreifa þínu hræi út um fjöllin, og fylla dalina með þinni rotnun;6eg vil vökva landið, sem þú sveimar í, með þínu blóði, allt upp til fjalla, og árfarvegirnir skulu verða fullir af þér.7Þegar þú útslokknar, vil eg byrgja himininn, og myrkva hans stjörnur; eg vil hylja sólina í skýjum, og tunglið skal ekki ná að lýsa með sínu skini;8öll björtu ljósin á himninum vil eg láta myrk verða uppi yfir þér, og breiða dimmu yfir þitt land, segir Drottinn alvaldur.9Eg vil hrella hjörtu margra þjóða, þegar eg læt fregnina um þínar ófarir berast til þjóðanna í þeim löndum, sem þú þektir ekki;10eg vil gjöra margar þjóðir felmtsfullar út af þér: þeirra konungar skulu skelfast fyrir þér, þegar eg bregð mínu sverði fyrir augu þeim: og þann dag er þú fellur, skal hvör þeirra verða hræddur um líf sitt á hvörju augnabliki.11Því svo segir Drottinn alvaldur: sverð Babelskonungs skal koma yfir þig;12eg skal láta þitt fjölmenni falla fyrir sverðum ofureflismanna, sem allir eru hinir mestu ofstopar; þeir skulu bæla niður ofdramb Egyptalands, og allur þess fólksfjöldi skal afmáður verða;13eg vil eyðileggja allar þess skepnur, sem eru á beit hjá þeim mörgu vötnum; og enginn mannsfótur og engin dýrsklauf skal framar grugga þau;14þá vil eg láta þeirra vötn setjast, og þeirra strauma fram fljóta sem viðsmjör, segir Drottinn alvaldur.15Þegar eg hefi gjört Egyptaland að eyðimörku, eytt öllu sem er í landinu, og í hel slegið alla landsins innbúa, þá skulu menn viðurkenna, að eg em Drottinn.16Þetta er það harmakvæði, sem kveðið skal verða; dætur þjóðanna skulu kveða það, þær skulu kveða það yfir Egyptalandi og yfir öllum þess mannfjölda, segir Drottinn alvaldur.
17Á tólfta árinu, þann fimmtánda dag hins sama mánaðar, talaði Drottinn til mín svolátandi orðum:18þú mannsins son, upphef sorgargrát yfir Egyptalands mikla mannfjölda, og lát það ásamt með dætrum hinna voldugu þjóða niðurstíga í undirheim, til þeirra sem niðurfarnir eru í gröfina.19Hvörju landi ertu nú ágætara? far þú niður, og leggst meðal þeirra óumskornu:20þeir verða að falla meðal hinna vopnbitnu; landið var ofurselt sverðinu; dragið það burt, og allan þess mannfjölda!21Þeir ágætustu kappar í myrkheimi, sem niðurstignir eru, hinir óumskornu, sem liggja þar vopnbitnir, skulu tala til konungsins og hans liðsmanna:22þarna liggur Assýríukonungur og allir hans menn, umhverfis í kringum hann eru grafir manna hans, allir eru þeir í hel slegnir og fyrir sverði fallnir;23honum er fenginn legstaður innst inn í grafhellirnum, og þar umhverfis eru legstaðir manna hans, sem allir eru í hel slegnir og fyrir sverði fallnir, og hafði ógn af þeim staðið, meðan þeir lifðu ofanjarðar.24Þar liggur Elamskonungur, og allir hans menn, legstaðir þeirra eru allt umhverfis, allir eru þeir í hel slegnir og fyrir sverði fallnir, og niðurstignir til hinna óumskornu í undirheimi; meðan þeir lifðu ofanjarðar, stóð ógn af þeim, en nú hljóta þeir að bera sína svívirðingu með þeim sem í gröfina eru niðurstignir;25honum og öllum hans mönnum er legstaður fenginn mitt á meðal hinna vopnbitnu, og eru legstaðir þeirra allt umhverfis hann; allir eru þeir óumskornir og með sverði í hel slegnir; meðan þeir lifðu ofanjarðar, stóð ógn af þeim, en nú hljóta þeir að bera sína svívirðingu ásamt með þeim, sem niðurstignir eru í gröfina; meðal þeirra vopnbitnu er Elamskonungi rúm fengið.26Þar liggja Meseks og Túbals konungar, og allir þeirra menn, og eru legstaðir þeirra umhverfis þá; allir eru þeir óumskornir og með sverði vegnir, því ótti stóð af þeim, meðan þeir lifðu ofanjarðar.27Eiga þeir ekki að liggja í hervopnum sínum og með sverð sín undir höfðum sér hjá þeim föllnu ofureflismönnum, hjá þeim óumskornu, sem niður eru stignir í myrkheim? þeirra skuld hvílir yfir beinum þeirra, með því ofureflismönnunum stóð ótti af þeim, meðan þeir lifðu ofanjarðar.28Einnig skalt þú kremjast meðal hinna óumskornu, og liggja hjá þeim vopnbitnu.29Þar liggja Edomsmenn og þeirra konungar og allir höfðingjar þeirra, sem voru afburðarmenn að hreysti, en eru þó nú komnir meðal þeirra, sem með sverði eru vegnir, og liggja hjá þeim óumskornu, sem í gröfina eru niður farnir.30Þar liggja allir höfðingjar Norðurríkjanna og allir Sídonsmenn, sem eru niðurfallnir til hinna óumskornu, þrátt fyrir þann ótta, sem stóð af hreysti þeirra; með kinnroða hljóta þeir sem óumskornir að liggja hjá þeim sverðbitnu, og bera sína svívirðing ásamt með þeim, sem ofan eru farnir í gröfina.31Þess skal faraó sjá, og hugga sig þar við með öllum sínum mannfjölda; því faraó og allur hans her er með sverði í hel sleginn, segir Drottinn alvaldur;32því eg lét standa ógn af honum, meðan hann lifði ofanjarðar; þess vegna liggur hann nú, faraó og allur hans mannfjöldi, á meðal hinna óumskornu, hjá þeim sem með sverðinu eru í hel slegnir, segir Drottinn alvaldur.