Jesús læknar visinn mann; kveður Matteus til fylgdar, og forsvarar sig og lærisveinana; læknar blóðfallssjúka kvinnu, og uppvekur dóttur Jaírusar; læknar tvo blinda, og einn djöfulóðan; aumkast yfir lýðinn.

1Hann steig þá á skip, fór yfir um og kom í sína borg.2Þá var færður til hans visinn maður, sem lá í rekkju; og er Jesús sá trú þeirra, sagði hann til hins visna: vertú hughraustur, sonur! þínar syndir eru þér fyrirgefnar;3þetta álitu nokkrir skriftlærðir að vera guðlöstun;4og er Jesús varð var við hvað þeir hugsuðu, sagði hann: því hugsið þér svo illt?5Hvört er auðveldara að segja: syndir þínar eru þér fyrigefnar, eður að segja: statt upp og gakk?6En til þess að þér skulið vita, að Mannsins Sonur hefir vald til að fyrirgefa syndir á jörðunni, þá—segir hann til hins visna—statt upp, tak sæng þína og gakk heim til þín,7og hann stóð upp og fór heim til sín.8Þegar fólkið sá þetta, undraðist það og lofaði Guð, að hann hefði gefið mönnunum slíkt vald.
9Þegar Jesús fór þaðan, sá hann mann sitja hjá tollbúðinni, Matteus að nafni; þenna kvaddi hann til fylgdar við sig; hann stóð upp og fylgdi honum.10En svo bar til, er Jesús var að mat í húsi hans, að margir tollheimtarar og bersyndugir komu þangað, og mötuðust þar með Jesú, og lærisveinum hans;11og er farísear sáu það, sögðu þeir til lærisveina hans: því matast Lærimeistari yðar með tollheimturum og bersyndugum?12Þegar Jesús heyrði það, mælti hann til þeirra: ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem vanheilir eru;13en farið þér og nemið hvað það þýðir: „þekkari er mér mannelska, en offur;“ því ekki eg er kominn til að kalla réttláta heldur synduga til siðbóta.
14Þá komu til hans lærisveinar Jóhannesar, og spurðu: því föstum vér og farísearnir svo oft, en þínir lærisveinar fasta ekki?15Jesús svaraði: það sæmir ekki að brúðmennirnir séu með hryggu bragði, meðan brúðguminn er með þeim. En sá tími mun koma, að brúðguminn verður numinn frá þeim, og þá munu þeir fasta.16Enginn leggur nýja bót á gamalt fat, því bótin rífur fatið og spjöllin verða verri;17ekki heldur eru menn vanir að koma nýju víni í gamla belgi, því annars springa belgirnir, vínið spillist, og belgirnir ónýtast. Heldur er nýtt vín látið í nýja belgi, og er þá hvörttveggja vel geymt.
18En er hann var þetta að tala, kom inn til hans höfðingi nokkur, tilbað hann og sagði: dóttir mín er nýdauð, kom þú og legg hönd yfir hana, þá mun hún lifna.19Jesús fór með honum og lærisveinar hans;20og sjá! þá kom kona nokkur, sem hafði haft blóðfall í tólf ár, að baki honum og snart fald hans klæða;21því hún sagði með sjálfri sér: ef eg aðeins fæ snortið yfirhöfn hans, þá mun mér batna;22en Jesús snerist við, og þá hann leit hana, sagði hann: vertu hughraust, dóttir! trú þín hefir hjálpað þér, og varð hún strax heilbrigð.23Nú er hann kom í hús höfðingjans, og sá þar pípara, og þys fólksins,24sagði hann til þeirra: Farið þér í burtu! ekki er stúlkan dauð, heldur sefur hún, en þeir hlógu að honum.25En þá búið var að rýma fólkinu út, gekk hann inn, og tók í hönd henni, og reis þá stúlkan upp;26og barst fregnin um þetta út um allt það hérað.
27Þegar Jesús fór þaðan, fylgdu honum tveir menn blindir; þeir kölluðu þannig: Jesú! niðji Davíðs, miskunna þú okkur!28En er hann var kominn til húss, komu þeir blindu til hans. Jesús sagði til þeirra: trúið þér, að eg geti þetta gjört? þeir sögðu: já, Herra!29Þá snart hann augu þeirra og mælti: verði ykkur að trú ykkar!30Og augu þeirra opnuðust; þá lagði Jesús ríkt á við þá, að segja engum manni frá þessu.31En strax, sem þeir vóru komnir út, báru þeir hans orðstír út um allt það hérað.
32Þegar þeir vóru í burt farnir, var færður til hans maður nokkur mállaus, djöfulóður;33og er djöfullinn var útrekinn, fékk sá málið, er mállaus var. Þetta undraðist fólkið og mælti: aldrei hefir þvílíkt sést meðal Ísraels manna.34En farísearnir sögðu: að hann ræki djöfla út með hjálp djöfla höfðingjans.
35Síðan fór Jesús um allar borgir og þorp, kenndi í samkundum þeirra, og flutti gleðiboðskapinn um Guðs ríki; hann læknaði alls kyns sjúkdóma og krankleika;36en er hann sá fólkið, kenndi hann í brjósti um það, því það var þjáð og hirðingarlaust, sem sú hjörð, er engan hirðir hefir.37Þá sagði hann við lærisveina sína: kornskeran er að sönnu mikil, en verkamennirnir fáir;38biðjið því Herrann kornskerunnar, að hann vilji senda verkamenn til sinnar kornskeru.

V. 1–8. Sbr. Mark. 2,1–12. Lúk. 5,17–26. sína borg, þ. e. Kapernaum. V. 9–17. Sbr. Mark. 2,13–22. Lúk. 5,17–39. V. 13. Hós. 6,6. V. 18–26, sbr. Mark. 5,22–43. Lúk. 8,41–56. V. 34, sbr. Matt 12,34. V. 37, sbr. Lúk. 10,2.