Páll upphvetur til framfara í heilagri ráðvendni, bróðurkærleika og góðum siðum. Talar um að þeir, sem deyja áður en Kristur kemur til dóms, einkis fari á mis fyri það.

1Enn framar biðjum vér yður, bræður! og áminnum í umboði Drottins Jesú, með því þér hafið numið af oss, hvörnig yður ber að breyta og þóknast Guði, að þér takið hér í meiri og meiri framförum.2Þér vitið, hvör boðorð vér höfum yður gefið í umboði Drottins Jesú;3því það er Guðs vilji, að þér heilagir séuð, haldið yður frá frillulifnaði;4hvör og einn hafi vit á, að halda sínum líkama í heilagleika og heiðri,5en ekki lostabruna, eins og heiðnir menn, er ekki þekkja Guð;6veiti ekki yfirgang eður hafi af sínum bróður í nokkru, því að Drottinn er hegnari alls þvílíks, eins og eg hefi áður sagt og innilega lagt yður upp á hjarta;7því ekki hefir Guð kallað oss til þess, að vér skyldum í saurlífi lifa, heldur í heilagleika.8Þess vegna hvör, sem þetta forsmáir, hann forsmáir ekki menn, heldur Guð, sem og hefir inngefið oss sinn heilaga Anda.9Ekki hafið þér þess þörf, að eg skrifi yður um bróðurkærleikann, því Guð hefir sjálfur yður kennt að elskast innbyrðis.10Já, þér auðsýnið þessa sömu elsku jafnvel öllum bræðrunum út um alla Makedoníu. En vér áminnum yður, bræður! að þér takið hér í meiri og meiri framförum,11og leitið þar í sæmdar að lifa rósömu lífi og stunda yðar eigin iðn, og vinna með höndum yðrum, eins og eg hefi yður boðið,12svo að þér umgangist sómasamlega þá, sem utan(safnaðar) eru, og séuð upp á engan komnir.
13Ekki vil eg, bræður, láta yður vera í vanþekkingu um þá burtsofnuðu, svo að þér séuð ekki hryggvir, eins og þeir, sem vonarlausir eru;14því ef vér trúum því, að Jesús sé dáinn og upp aftur risinn, þá mun Guð sömuleiðis fyrir Jesúm leiða til sín þá, sem sofnaðir eru;15því það segi eg yður í Drottins orða stað: að vér, sem eftir verðum lífs við tilkomu Drottins, að vér munum ekki fyrri verða, en þeir burtsofnuðu;16því sjálfur Drottinn mun með ákalli, með höfuðengilsraust og með Guðs lúðri af himni niðurstíga; og þeir, sem í Kristó eru dánir, skulu fyrst upp rísa;17síðan munum vér, sem eftir erum lifandi, verða hrifnir til skýja ásamt þeim, til að mæta Drottni í loftinu, og munum vér síðan með Drottni vera alla tíma.18Huggið svo hvör annan með þessum orðum.

V. 1. 2 Tess. 3,12. Gal. 5,16. Fil. 1,27. V. 2. 2 Kor. 5,20. V. 3. Róm. 12,2. Esek. 5,17. 1 Kor. 6,15.18. V. 4. 1 Kor. 6,13.14. V. 5. Kól. 3,5. 1 Kor. 15,34. Ef. 2,12. 4,17.18. V. 6. 1 Kor. 6,8. Gal. 5,21. V. 7. Jóh. 17,19. 1 Kor. 1,2. V. 8. það er: Páls aðvaranir. 1 Kor. 7,40. V. 9. Kap. 3,12. 2 Pét. 1,7. Esa. 54,13. Jóh. 13,34. 15,12. 1 Jóh. 3,11. fl. V. 11. 2 Tess. 3,8.12. V. 12. Róm. 13,13. það er: þá sem ekki höfðu kristni tekið. Kól. 4,5. 1 Pét. 2,12. V. 14. Róm. 14,9. 2 Kor. 5,15. V. 15. 1 Kor. 7,10. Kap. 15,23.51–53. V. 16. Matt. 24,30.31. 2 Tess. 1,7.10. 1 Kor. 15,52. V. 17. Opinb. b. 11,12. Post. g. b. 1,9–11. 2 Kor. 5,10. Jóh. 14,3. 17,24. 2 Kor. 5,8. V. 18. 2 Kor. 13,11.