Páll vitnar um Krists upprisu. Hrekur þá, sem neita henni. Kennir, hvörninn þeir dauðu muni upprísa. Huggar þar með þá trúuðu.

1Eg vil aftur minna yður, bræður! á náðarboðskap þann, er eg áður hefi boðað yður og þér veittuð meðtöku,2við hvörn þér hafið og svo haldið stöðuglega og sem mun yður einninn hólpna gjöra, ef þér geymið hans eins og eg kenndi yður hann, nema svo sé, að þér hafið ófyrirsynju trúna tekið.3Eg kenndi yður fyrst og fremst þann lærdóm, sem eg hefi meðtekið: að Kristur væri dáinn vegna vorra synda eftir Ritningunum,4og grafinn og upprisinn á þriðja degi eftir Ritningunum5og sé séður af Kefasi og þar eftir af þeim tólf.6Þar eftir var hann séður í einu af meir en fimm hundruð bræðrum, er flestir lifa allt til þessa dags, en sumir eru dánir.7Þar eftir birtist hann Jakobi, síðan öllum postulunum.8Síðast allra opinberaðist hann og svo mér, svo sem ótímabærum burði;9því eg er síðstur postulanna, og ekki verður að kallast postuli, því að eg hefi ofsótt Guðs söfnuð;10en af náð Guðs er eg það eg er, og náð hans við mig hefir ekki verið til forgefins, heldur hefi eg unnið meira en allir hinir; þó ekki eg, heldur Guðs náð, sem með mér er.11Það sé nú eg, eður þeir, þá kennum vér þannig og þannig höfum vér trúað.
12En ef það er kennt, að Kristur sé upprisinn, hvörninn geta þá nokkrir af yður sagt, að dauðra upprisa sé ekki til?13en ef dauðra upprisa er ekki möguleg, þá er Kristur ekki heldur upprisinn;14en ef Kristur er ekki upprisinn, þá er vor kenning ónýt og trú yðar líka ónýt.15Vér finnumst þá og ljúgvottar Guðs, þar eð vér höfum vitnað um Guð, að hann hafi uppvakið Krist frá dauða, er hann hefir ekki uppvakið, ef dauðir ekki upprísa;16því ef dauðir ekki upprísa, þá er Kristur ekki upprisinn;17en ef Kristur er ekki upprisinn, þá er yðar trú ónýt,18þér eruð þá enn nú í yðar syndum og þeir kristnu, sem dánir eru, fortapaðir.19Ef vér einungis í þessu lífi settum vora von til Krists, þá værum vér hinir vesælustu allra manna.20En nú er Kristur upprisinn frá dauðum, frumgróði allra þeirra sem dánir eru;21því þar eð dauðinn kom fyrir einn mann, kom og upprisa dauðra fyrir einn mann.22Því að líka sem allir deyja í Adam, svo munu og allir lífgast í Kristi,23sérhvör í sinni röð; Kristur er frumgróðinn, þar næst munu þeir, sem Kristi tilheyra upprísa í hans tilkomu.24Þar eftir kemur endirinn, þá hann mun selja Guði og Föður ríkið í hendur, þá hann búinn er að afmá allt veldi, herradæmi og makt;25því að honum ber að ríkja, þar til hann hefir lagt alla óvini undir sínar fætur.26Sá síðasti óvinur, sem afmáist, er dauðinn;27því allt hefir hann undir hans fætur lagt. En þegar hann segir, að allt sé honum undirgefið, þá er það auðsætt, að sá er þar frá undanskilinn, er allt lagði í hans vald.28En þegar hann er búinn að leggja allt undir hans veldi, þá leggur sjálfur Sonurinn sig undir þess veldi, er áður hafði lagt allt undir hans vald, svo að Guð sé allt í öllu.29En hvað gjöra þeir, er láta skírast fyrir hina dauðu, ef dauðir öldungis ekki upprísa? og því láta þeir skíra sig fyrir þá?30Og því erum vér í sífelldum háska?31Daglega er eg í dauðans hættu; það vitna eg hátíðlega við lofstír þann, sem eg af yður hefi í þjónustu vors Drottins Jesú Krists.32Hvört gagn hefði eg af því, að eg hefi við óargadýr (að eg kveði svo að orði) barist í Efesus, ef dauðir ekki upprísa?33Látum oss eta og drekka, því á morgun deyjum vér.34Látið ekki villa yður; vont samfélag spillir góðum siðum. Vaknið fyrir alvöru og syndgið ekki; sumir þekkja ekki Guð. Eg segi þetta yður til blygðunar.
35En máske einhvör segi: hvörnig geta dauðir upprisið? með hvílíkum líkama munu þeir framkoma?36þú heimskingi! það, sem þú sáir lifnar ekki aftur, nema það deyi;37og það, sem þú sáir, er ekki sá líkami, er það síðast verður, heldur einbert frækorn, til dæmis: hveitis, eður einhvörs annars;38en Guð gáfur því líkama eftir sem hann vill og sérhvörju frækorni sinn eginlegan líkama.39Ekki er allt hold sama hold; heldur er annað mannanna, annað hold dýrann, annað fiskanna, annað fuglanna.40Til eru bæði himneskir líkamar og jarðneskir líkamir, en önnur er fegurð þeirra himnesku, önnur þeirra jarðnesku.41Öðruvísi er birta sólarinnar, öðruvísi tunglsins og enn öðruvísi stjarnanna (því stjarna er stjörnu bjartari).42Þannig er og varið upprisu hinna dauðu. Hér er niðursáð forgengilegum líkama, en upprís óforgengilegur;43hér er niðursáð óásjálegum líkama, en upprís vegsamlegur;44það er niðursáð veikum, en upprís máttugur; náttúrlegum líkama verður niðursáð, en upprís andlegur líkami.45Svo stendur og skrifað: hinn fyrsti maður Adam varð að lifandi sálu, hinn síðari Adam að lífgandi anda.46Ekki kom hinn andlegi fyrst, heldur hinn náttúrlegi, þar eftir hinn andlegi.47Hinn fyrri maður varð mold af jörðu, hinn síðari maður er Drottinn af himni.48Eins og sá jarðneski var, þannig eru þeir jarðnesku og eins sá himneski var, þannig og þeir himnesku;49og eins og vér höfum borið líking þess jarðneska, eins munum vér og bera líking þes himneska.50Hér með vil eg sagt hafa, bræður! að hold og blóð getur ekki öðlast Guðs ríki, né hið forgengilega óforgengileikann.51Sjá! eg segi yður leyndardóm: vér munum ekki allir sofna, en allir umbreytast í vetfangi, í einu augnabliki,52við hinn síðasta lúðurs þyt; (því lúðurinn mun gella og hinir dauðu upprísa óforgengilegir, en vér umbreytast),53því það forgengilega verður að íklæðast óforgengilegleikanum og hið dauðlega ódauðlegleikanum.
54En þegar hið forgengilega íklæðist óforgengilegleikanum og hið dauðlega ódauðlegleikanum, þá rætist það, sem ritað er: dauðinn er uppsvelgdur í sigur;55dauði! hvar er þinn broddur? myrkraheimur! hvar er þinn sigur?56en broddur dauðans er syndin, en afl syndarinnar er lögmálið.57Guði séu þakkir, sem oss hefir sigurinn gefið fyri vorn Drottin Jesúm Krist!58Bræður mínir elskanlegir! verið þess vegna stöðugir, óbifanlegir, ætíð ávaxtarsamir í verki Drottins, með því þér vitið að yðar erfiði í Drottins (þjónustu) ekki muni verða forgefins.

V. 1. Gal. 1,11.12. V. 2. Róm. 1,16. 1 Kor. 1,21. V. 3. Sálm. 22. Esa 53. Sakk. 13,7. 1 Pét. 1,10–12. V. 4. Sálm. 16,8. ff. Post. gb. 2,30–34. V. 5. Lúk. 24,34. Lúk. 24,36. Mark. 16,14. Jóh. 20,4. V. 7. Lúk. 24,50. V. 8. Post. gb. 9,5.17. V. 9. Post. gb. 9,1. Gal. 1,13. V. 10. 2 Kor. 12,9. V. 12. Matt. 22,23. Post. gb. 23,8. V. 15. Post. gb. 2,24.32. V. 16. Róm. 8,11. V. 17. v. 11. sbr. Róm. 8,2.3. V. 20. Post. gb. 26,23. Kól. 1,17. Opinb. b. 1,5. V. 21. 1 Mós. b. 3,3.6. Róm. 5,12.18. V. 22. Róm. 5,21. 1 Kor. 15,26.55.57. 2 Tím. 1,10. Post. g. b. 17,31. 1 Tess. 1,10. 4,14–17. V. 23. Post. g. b. 26,23. Matt. 24,42. 26,64. V. 24. Matt. 2,6. samanb. við Post. g. b. 26,18. V. 25. Sálm. 110,4–6. 2,7–10. V. 27. Fil. 2,9–11. sbr. við Sálm. 8,7. V. 28. Kap. 3,23. 11,3. Jóh. 14,28. sbr. við Matt. 28,18. Hebr. 2,8. V. 30. Róm. 8,36. V. 32. Pgb. 19,23. ff. V. 33. Esa. 22,13. sbr. Spek. b. 2,6. V. 34. 1 Tess. 4,5. V. 35. Esek. 37,3–6. V. 36. Jóh. 12,24. V. 38. 1 Mós. b. 1,11.12. V. 43. Fil. 3,21. V. 45. 1 Mós. b. 2,7. V. 47. Jóh. 3,31. V. 48. 1 Mós. b. 5,3. V. 49. 2 Kor. 4,11. V. 50. Jóh. 3,5.6. V. 52. 1 Tess. 4,15.17. sbr. 2 Kor. 5,4. V. 55. Es. 25,8. Hós. 13,14. sbr. Sálm. 18,5.6. V. 56. Róm. 3,20. 4,15. 7,8.13. V. 57. 1 Jóh. 5,5. V. 58. Tob. 4,21. 2 Kor. 5,10.