Sakarías brýnir fyrir Gyðingum að hreint hjartalag og ráðvant líferni sé meir vert, en föstuhald.

1Á fjórða ári Daríí konungs kom orð Drottins til Sakaríass; það var fjórða dag hins níunda mánaðar, þess er kallast kislev;2þegar þeir Sareser og Regem-Melek og menn þeirra voru sendir til Drottins húss, til þess að leita miskunnar Drottins með auðmjúkri bæn,3og til þess að aðspyrja kennimenn þá, er þjónuðu í húsi Drottins allsherjar, og spámennina með þessum orðum: skal eg enn þá syrgja og fasta í hinum fimmta mánaði e), eins og eg hefi gjört nú upp í mörg ár?4Þá talaði Drottinn allsherjar til mín svofelldum orðum:5Tala þú þessum orðum til alls landsfólksins og kennimannanna: þegar þér föstuðuð og hélduð sorgarhátíð í hinum fimmta og hinum sjöunda f) mánuði, og það uppi í sjötygi ár, var það þá mín vegna að þér föstuðuð? var það fyrir mig?6Og þegar þér átuð og drukkuð, voru þér það þá ekki, sem átuð? voruð þér það ekki, sem drukkuð?7Voru það ekki einmitt þau orð, sem Drottinn lét kunngjöra fyrir munn hinna fyrri spámanna, meðan Jerúsalemsborg var enn þá við lýði og í friði, og borgir hennar umhverfis í kring um hana, og meðan byggðin enn þá stóð í suðurhluta landsins og á láglendinu?8Enn talaði Drottinn þessum orðum til Sakaríass:9Svo sagði Drottinn allsherjar: „dæmið rétta dóma, auðsýnið hvör öðrum kærleika og miskunnsemi,10veitið ekki ágang ekkjum, munaðarleysingjum, útlendum eða fátækum mönnum! Enginn yðar hugsi öðrum illt!“11En þeir tregðuðust við að gefa því gaum, gjörðust mótsnúnir, og daufheyrðust við;12þeir gjörðu hjörtu sín að demanti, til þess þeir skyldu ekki heyra lögmálið, og þau orð, er Drottinn allsherjar sendi fyrir sinn anda, fyrir munn hinna fyrri spámanna; hvörs vegna Drottinn allsherjar varð þeim stórlega reiður.13Þess vegna, eins og þeir vildu ekki heyra, þegar kallað var til þeirra, eins vil eg ekki heldur heyra, þegar þeir kalla til mín, segir Drottinn allsherjar.14Þá tvístraði eg þeim meðal margháttaðra þjóða, sem þeir þektu engin deili á; og landið lá í eyði eftir þá, svo enginn fór þar um, og enginn bjó þar; hið ágæta landið varð að auðn.

V. 3. e. Gyðingar héldu tilskipaða föstu í herleiðingunni í hinum 5ta mánuði, af því musterið hafði í þeim mánuði verið eyðilagt, 2 Kóng. 25,8. V. 5. f. Í þeim mánuði var Gedalía drepinn, og tvístrað þeim Gyðingum, er honum fylgdu 2 Kóng. 25,25. Jer. 41.