Um fundið góss, og ýmislegt viðvíkjandi lauslæti m.fl.

1Þegar þú sér naut eður sauð bróður þíns á slæðingi, þá skaltu ekki sneiða hjá því, heldur reka það aftur til bróður þíns.2En ef sá bróðir er ekki í grennd við þig, og þú ert ekkert kunnugur honum, þá skaltu taka það heim til þín og hafa hjá þér, þangað til bróðir þinn leitar þess og þú getur fengið honum það aftur;3sama áttu líka að gjöra við hans asna, klæði hans og sérhvörn hlut sem hann hefir týnt, því hvað sem týnist fyrir bróður þínum og þú finnur þá máttu ekki draga dulur á;4ef þú sér asna bróður þíns eða naut liggja afvelta á leið þinni, þá máttu ekki sneiða hjá því, heldur skaltu reisa það á fæturnar.
5Ekki skal kona taka upp karlmannsbúning, og ei skal karlmaður fara í kvenmannsföt, því Drottinn þinn Guð hefir andstyggð á þeim sem þetta gjöra.
6Þegar þú finnur fuglshreiður á leið þinni upp í tré nokkru, eða á jörðinni, með ungum í eða eggjum, og móðirin liggur á ungunum eða eggjunum, þá máttu ei taka móðirina ásamt með ungunum,7heldur skaltu sleppa móðurinni, og taka svo til þín ungana, svo þú megir verða lánsamur og lifa lengi.
8Þegar þú byggir þér nýtt hús, þá gjör þar grindur allt um kring upp á þakinu, svo þú ekki hlaðir blóði á þitt hús ef einhvör kynni að detta ofan af því.
9Þú skalt ekki sá í víngarð þinn margslags fræi, svo ekki falli helgi á allt sem í honum er, bæði plönturnar sem þú plantaðir og ágóða víngarðsins.
10Þú skalt ekki erja með nauti og asna í sameiningu.11Þú skalt ekki fara í þau föt sem gjörð eru af ulli og líni til samans;12þú skalt búa þér til skúfa á öllum fjórum löfum skikkjunnar sem þú ert í.
13Ef nokkur fær sér eiginkonu og eftir það hann hefir legið hjá henni, fær óvild til hennar,14skuldar hana fyrir skemmilega breytni og kemur á hana illu orði, og segir: þessa konu tók eg mér, og þá eg lagðist með henni, fann eg hún var ekki meyja;15þá skal faðir og móðir þeirrar konu fara með meydómsmerki hennar til öldunga staðarins í borgarhliðið;16skal þá faðir konunnar svo mæla til öldunganna: dóttur mína gaf eg þessum manni til eiginkonu, en hann leggur óvild á hana, nú hefir hann hana fyrir skemmilegri sök og segir:17eg fann ekki dóttur þína að vera hreina meyju, hér eru nú dóttur minnar meydómsmerki; um leið breiði hann út fötin í augsýn borgarinnar öldunga;18þá skulu öldungarnir taka manninn og refsa honum,19og gjöra honum í bætur hundrað sikla silfurs sem hann láti út við föður konunnar, fyrir það hann ófrægði meyju í Ísrael, og hún skal vera kona hans, er hann aldrei upp þaðan geti skilið við.20En ef það vóru sannmæli, að hann fann hana ekki hreina meyju,21þá skulu þeir fara með stúlkuna að húsdyrum föður hennar, og bæjarmenn skulu þar grýta hana til bana, af því hún drýgði þvílíka skömm í Ísrael að hórast í föðurgarði—og áttu að afmá allt illt þín á meðal.22Ef sá finnst nokkur sem liggur hjá konu þeirri sem er öðrum gift, þá skulu bæði deyja, maðurinn sem lá hjá konunni og konan, því þið eigið að afmá allt illt meðal yðar.
23Ef mey er einhvörjum föstnuð, og karlmaður einhvör hittir hana í borginni, og leggst með henni,24þá skulu þeir leiða þau bæði út fyrir borgarhliðin og grýta þau til bana, stúlkuna vegna þess hún ekki kallaði, fyrst hún var inn í borginni, og karlmanninn vegna þess hann lagðist með festarkonu annars manns, skuluð þér þannig afmá meðal yðar allt illt.
25Ef einhvör hittir trúlofaða stúlku út á víðavangi, tekur hana með valdi og leggst með henni, þá skal maðurinn aðeins deyja sem með henni lagðist,26en til stúlkunnar skaltú ei leggja, því hún framdi það ekkert sem dauða væri vert, því þar stóð eins á og þegar einhvör rís móti öðrum og slær hann í hel, og var þetta eins að sínu leyti,27því þegar hann hitti stúlkuna á víðavangi, kallaði sú trúlofaða stúlka að vísu, en þar var enginn við sem henni gæti bjargað.28Þegar einhvör hittir stúlku sem ekki er trúlofuð og tekur hana frillutaki, og einhvör gengur fram á þau,29þá skal sá sem smánaði hana greiða föður hennar fimmtíu sikla silfurs, og verði hún kona hans, og þar eð hann smánaði hana þá skal hann aldrei mega skilja hana við sig upp þaðan.

V. 9. Ei verði gjört upptækt undir helgidóminn. Sbr. 3 Mós. b. 19,19.