Hegning dramblátra kvenna; illar afleiðingar skurðgoða dýrkunarinnar.

1Heyrið þetta orð, þér Basans kvígur, sem eruð á Samaríufjalli! þér, sem kúgið aumingjana, undirokið hinn fátæka, og segið til lávarða yðvarra: ber hingað, svo vér megum drekka!2Drottinn hinn alvaldi sver við sinn heilagleik: Sjáið, þeir dagar munu yfir yður koma, að sumar af yður skulu verða burtu færðar með krókstjökum, og hinar með fiskiönglum;3þér skuluð út fara út um vígskörðin, hvör beint sem horfir, og keyrðar verða í kvennabúr, segir Drottinn.
4Gangið til Betels, og syndgið þar! Margfaldið syndina í Gilgal, og framberið yðar fórnir á morgni hvörjum, og yðar tíundir þriðja hvört ár!5Tendrið reykelsisfórnir af rangfengnu fé í þakkarfórn! Auglýsið sjálfviljugar fórnir, gjörið þær heyrumkunnar! því það er yðar yndi, Ísraelsmanna, segir Drottinn alvaldur.6Einmitt vegna þessa hefi eg látið verða sult og seyru í öllum yðar borgum, og matarskort í öllum yðar bústöðum; og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, segir Drottinn.7Eg synjaði yður um regn í þrjá mánuði fyrir uppskerutímann; eg lét rigna í einni borg, en ekki í annarri; eitt byggðarlag vökvaðist af regni, en annað byggðarlag skrælnaði, af því þar kom ekkert regn.8Tvær eða þrjár borgir fóru til einnar borgar, til að fá sér vatn, en fengu þó ekki nóg; og þó sneruð þér yður ekki til mín, segir Drottinn.9Eg sendi yður þá plágu, að kornið sviðnaði og gulnaði; engisprettur uppátu flesta yðar aldingarða og víngarða, fíkjutré og viðsmjörstré: og þó sneruð þér yður ekki til mín, segir Drottinn.10Eg senda yður drepsótt frá Egyptalandi; eg sló æskumenn yðar í hel með sverði, sem og hesta yðar, er eg hafða hertekið, og lét hrævadauninn af yðar (fallna) herliði upp stíga, og brá honum fyrir vit yður: og þó sneruð þér yður ekki til mín, segir Drottinn.11Eg gjörði eyðileggingar yðar á meðal, líkar þeirri eyðilegging, sem Guð lét ganga yfir Sódómu og Gómorru; þér voruð eins og brandur úr báli dreginn, og þó sneruð þér yður ekki til mín, segir Drottinn.12Þess vegna vil eg nú eins með yður fara, Ísraelsmenn; og sökum þess eg hefi ásett mér að fara svo með yður, þá verið nú til taks, Ísraelsmenn, að mæta yðar Guði.13Því sjáið, hann er sá sem myndar fjöllin og skapar vindinn; hann kunngjörir manninum, hvör sín hugsun sé; hann gjörir dagsljósið að myrkri, og gengur á hæðum jarðarinnar: Drottinn, Guð allsherjar, er hans nafn.

V. 1. Basans kvígur kallar spámaðurinn hinar sællífu höfðingjakonur í Samaríu, er lokkuðu menn sína til harðýðgi við undirmenn þeirra.