Jóhannes kennir, skírir, áminnir; Jesús er skírður af Jóhannesi.

1Á þeim tíma kom Jóhannes skírari, og hóf þessa kenningu í óbyggðum Júdeulands:2Bætið ráð yðar, því himnaríki er nálægt.3Um hann er það, sem spámaðurinn Esajas kemst svo að orði: „Í óbyggðum er kallað: tilbúið veg Drottni, beinið brautir hans.“4En sjálfur bar Jóhannes klæðnað af úlfaldahárum, og hafði leðurbelti um sínar lendar; til matar hafði hann engisprettur og skógarhunang.5Þá kom til hans fólk frá Jerúsalem og úr allri Júdeu, og úr öllum héröðum við Jórdan,6og hann skírði þá í ánni, þegar þeir höfðu játað sín afbrot.7En sem hann sá marga farísea og sadúsea koma til sinnar skírnar, sagði hann svo við þá: þér, nöðruungar! hvör hefir kennt yður, að þér þannig gætuð umflúið tilkomandi hegningu?8til þess verðið þér að bera þann ávöxt, er sambjóði betruðu hugarfari.9Segið ekki af sérþótta með sjálfum yður: vér eigum Abraham fyrir föður, því trúið mér, að máttugur er Guð að vekja Abrahami börn af steinum þessum;10því nú þegar ríður öxin að rótum trjánna, og mun þá hvört það tré, sem ekki ber góðan ávöxt, upphöggvið verða og í eld kastað.11Eg skíri yður einungis í vatni til lifnaðarbóta, en sá, sem eftir mig kemur, er mér svo miklu meiri, að eg ekki er verður að bera skóklæði hans; hann mun skíra yður með heilögum Anda og eldi;12sína varpskúflu ber hann í hendi sér, með hvörri hann hreinsar sinn láfa; korninu mun hann safna í hlöðu, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi.
13Um þessar mundir kom Jesús úr Galíleu til Jórdanar, til Jóhannesar, þess erindis að skírast af honum,14en Jóhannes skoraðist undan því, og sagði: mér er þörf að eg skírist af þér, og þú kemur til mín.15Jesús svaraði honum og sagði: veittú mér þetta, því þannig heyrir okkur að gjöra allt það, sem rétt er; og þá lét Jóhannes það eftir honum.16Og sem Jesús var skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu, og sjá! þá opnuðust himnarnir upp yfir honum, og Jóhannes sá Guðs Anda ofanstíga eins og dúfu, og koma yfir hann;17og sjá! þá heyrðist rödd af himnum, er sagði: þessi er Sonur minn elskulegur, á hvörjum eg hefi velþóknun.

Matt. 3,1 og fylg. Sbr. Mark. 1,2–11. Lúk. 3,1–22. V. 3. Esa 40,3.