Prestalög. Hvörnig fórnadýrin ættu að vera.

1Ennframar talaði Drottinn þannig við Móses:2Bjóð þú Aron og sonum hans, að þeir haldi sér frá því, sem Ísraelsbörn hafa helgað, því sem þeir helga mér, og vanhelgi ekki mitt heilaga nafn. Eg er Drottinn.3Nefnilega, seg þú þeim: hvör maður í yðar ætt, af yðar afkomendum, sem, á meðan hann er óhreinn, nálægir sig því sem heilagt er, sem Ísraelsbörn hafa helgað Drottni, hann skal upprætast frá mínu augliti. Eg er Drottinn.4Hvör af afkomendum Arons, sem hefir líkþrá, ellegar sáðfall, má ekki eta af því, sem heilagt er, þangað til hann er orðinn hreinn, og ekki heldur sá sem snert hefir það sem af líki er saurgað;5né sá sem snert hefir skriðkvikindi, sem gat saurgað hann, eða mann sem saurgar hann, af hvörju helst sem hann er orðinn óhreinn.6Sá sem snertir þvílíkt er óhreinn til kvölds, og má ekki eta af því, sem heilagt er, nema hann laugi líkama sinn í vatni.7Þegar sólin er undirgengin þá er hann hreinn, og eftir það má hann eta af því heilaga, því það er hans fæða.8Það sem sjálfdautt er, eða dýrbitið má hann ekki eta, að hann ekki saurgist af því. Eg er Drottinn.9Þeir skulu halda það sem eg hefi boðið þeim að halda, að þeir ekki hlaði sig syndum og deyi í þeim, vegna þess að þeir hafa vanhelgað sig. Eg er Drottinn sem helga þá.
10Enginn útlendur maður má eta hið heilaga; sá sem hefir húsnæði hjá prestinum eða er daglaunamaður hans, má ekki eta það sem heilagt er;11en sá sem hann hefir fyrir sína peninga keypt, má eta þar af, og eins sá heimafæddi (þræll), þeir mega eta fæðu prestsins.12En prestsdóttirin, ef hún giftist útlendum manni, hún má ekki eta af þeim helgu upplyftingarfórnum.13En ef prestsdóttirin verður ekkja, eða rekin burt af manni sínum, á ekkert afkvæmi, og snýr aftur í hús föður síns, og er þar eins og hún var í æsku sinni, þá má hún eta af fæðu föður síns; en enginn framandi má af henni eta.14Ef einhvör af vangá etur það sem heilagt er, þá skal hann aftur bæta prestinum það og fimmtung fram yfir;15svo að Ísraelsbörn vanhelgi ekki það sem þau hafa helgað, það sem (prestarnir) hafa upplyft fyrir Drottin,16og ekki ofþyngi sig sjálf með misgjörðum og sekt með því að eta það sem þau hafa helgað, því eg er Drottinn sem helgar þau.
17Ennframar talaði Drottinn þannig við Móses:18Tala þú til Arons, sona hans og allra Ísraelsbarna og seg þeim: Hvör helst af húsi Ísraels eða útlendum á meðal Ísraels, sem vill frambera fórnargáfu, annaðhvört eftir heiti eða af lostugum vilja til þess menn færi það Drottni sem brennifórnir,19til þess að þér verðið honum velþóknanlegir, þá sé það (hann kemur með) karlkyns og lýtalaust, af nautum, sauðfé eða geitfé.20Það sem nokkur lýti eru á skulu þér ekki koma með, því það aflar yður ekki velþóknunar.21Sömuleiðis, hvör sem vill færa Drottni þakklætisfórn til að efna heit sitt, eða af lostugum vilja, hvört það er af nautum eða smáfénaði, þá sé það lýtalaust til þess það verði velþóknanlegt; engin lýti séu á því.22Það sem er blint, beinbrotið, sært, með útbrotum, skurfum eða kláða, þvílíkt skuluð þér ekki færa Drottni, eða láta nokkuð þvílíkt á hans altari.23Nautkind eða sauðkind, sem hefir einhvörn lim í lengra eða styttra lagi, máttu koma með sem fórnfærða af lostugum vilja, en sem heitfórn aflar þvílíkt ekki hylli.24Þér skuluð ekki færa Drottni það (dýr) sem vanað er, hvört heldur það hefir gjört verið með kramningi, marningi, burttekt eða skurði; í yðar landi megið þér ei þetta gjöra.25Ekki skuluð þér taka við nokkru þvílíku af hendi þess útlenda og frambera sem fæðu yðvars Guðs, því það hefir skemmd í sér og lýti og aflar yður engrar hylli.
26Ennframar talaði Drottinn þannig til Móses:27Þegar kálfur, lamb, eða kið fæðist, þá skal það vera í sjö daga hjá móður sinni, en á áttunda degi og eftir það, er það þakknæm fórnargáfa, eldfórn Drottni.28Nautkind eða sauðkind ásamt afkvæmi þess, skuluð þér ekki slátra á sama degi.29Ef þér viljið slátra lofgjörðarfórn, svo slátrið því sem gjörir yður velþóknanlega;30á sama degi skal hún etast og ekkert skuluð þér leifa af henni til morguns. Eg er Drottinn!31Varðveitið mín boðorð og hlýðið þeim. Eg er Drottinn!32Vanhelgið eigi mitt heilaga nafn, svo að eg haldist heilagur á meðal Ísraelsbarna. Eg er Drottinn sem yður helgar,33og hefi leitt yður út úr Egyptalandi til þess eg vera skyldi yðar Guð. Eg er Drottinn!

V. 3. Þ. e. af prestaætt. V. 27.28. Fleiri lagaboð bjóða vægð við skepnur. 2 Mós. 23,5.12. 5 Mós. 22,4–7. Ómiskunnsemi við dýr kennir ómiskunnsemi við menn.