Um píslarvætti konu nokkurar og hennar 7 sona.

1Það skeði og, að sjö bræður teknir með móður sinni, voru neyddir til að smakka það forboðna svínakjöt, af konunginum, og lamdir með svipum og ólum.2En einn af þeim tók til orða og mælti: hvörs viltu þá spyrja oss, og hvað fá af oss að vita? því vér erum þess fúsari að eyja en yfirtroða lög vorra feðra.3Þá reiddist kóngurinn og bauð að gjöra glóandi pönnurnar og katlana.4Og sem þeir voru orðnir glóandi, skipaði hann, að skera strax tunguna úr þeim, sem hafði talað, og flá af honum húðina, og höggva af honum höfuðið og limina, svo að hinir bræðurnir og móðirin sæju.5Sem búið var nú að höggva af honum limina, bauð (kóngurinn) að bera hann lifandi á eldinn og sjóða hann. Og sem gufuna úr katlinum lagði um kring, eggjuðu þeir (bræður) hvör annan, með móðirinni, að deyja með hugprýði, og sögðu:6Guð Drottinn sér það og miskunnar oss vissulega, eins og Móses hefir berlega kunngjört í sínum ljóðum, þar, sem hann segir: Guð mun miskunna sínum þjónum.
7Þegar sá fyrsti var nú andaður á þennan hátt, leiddu þeir hin annan til pyntinganna; og sem menn höfðu dregið húð með hári af líkamanum, spurðu þeir hann:8Viltu nú eta áður en vér pyntum þinn líkama lim fyrir lim? En hann svaraði á tungu sinna feðra og sagði: nei! hvörsvegna hann var pyntaður sem sá fyrsti.9En í þeim seinustu andaslitrum mælti hann: þú vitstola maður! þú sviptir oss að sönnu þessu lífi, en konungur heimsins, mun vekja oss sem deyjum fyrir hans lögmál, til eilífrar endurlífgunar.
10Eftir þennan var sá þriðji háðuglega leikinn, og þá menn heimtu hans tungu, rak hann hana strax út úr sér, rétti út höndina einarðlega,11og mælti með hugprýði: frá himni hefi eg þessa fengið, og sakir hans lögmáls gef eg hana, og vona að fá hana aftur hjá honum.12Svo að kónginn og hans menn furðaði á unglingsins hug, hvörsu hann mat kvölina einkis.
13Og sem þessi hafði upp gefið andann, píndu og kvöldu þeir þann fjórða, á sama hátt.14Og sem hann var kominn að dauða, mælti hann: það er æskilegt, þá maður er deyddur af mönnum, að hafa þá von til Guðs, að verða af honum uppvakinn til lífsins.
15Eftir þetta leiddu þeir fram þann fimmta og píndu hann.16Þessi leit upp á (kónginn) og mælti svo: af því þú ert voldugur meðal mannanna, en þótt þú sért dauðlegur, gjörir þú hvað þú villt; en hugsa þú ekki að vort fólk sé af Guði yfirgefið.17Bíð aðeins, þá muntu fá að reyna hans mikla mátt, hvörsu hann mun refsa þér og þinni ætt.
18Eftir þennan leiddu þeir fram hinn sjötta, og þá hann var að dauða kominn, mælti hann: drag ei sjálfan þig á tálar til einkis! vér þolum þetta fyrir eigin sök, þar eð vér höfum syndgað móti Guði vorum, og því eru undur (þessi) sken.19En ætlast þú ekki til að þú verðir óhegndur, þar eð þú hefir dirfst að stríða gegn Guði.
20En yfirhöfuð var móðirin aðdáanlegust, og þess makleg, að hennar sé getið með hrósi, sem sá sína sjö syni líflátna á einum degi og þoldi það með hugprýði, af voninni til Drottins.21Hvörn og einn af þeim áminnti hún, full eðallyndis, í feðranna tungumáli, og hressti kvenmannssinnið með karlmannshug, og sagði við þá:22Ekki veit eg hvörnig þér eruð til orðnir í mínum kviði, ekki hefi eg heldur gefið yður andardrátt og líf, ekki hefi eg afmælt frumefni hvörs yðar.23Því mun heimsins skapari, sem myndað hefir manninn, og upphugsað sköpun allra hluta, gefa yður aftur miskunnsamlega andardrátt og líf, þegar þér framseljið yður nú, sakir hans lögmáls.
24En Antiokus, sem hélt verið væri að gjöra gys að sér, og ætlaði að talið (konunnar) væri spott, taldi um fyrir þeim yngsta, sem enn var eftir, ei aðeins með orðum, heldur sór honum dýrann eið, að hann skyldi gjöra hann ríkan og sælan, ef hann segði sig undan lögmálum feðranna; og skyldi hafa hann fyrir vin, og trúa honum fyrir embættum.25En sem unglingurinn gaf þessu engan gaum, kallaði konungurinn móðurina, og áminnti hana að ráða drengnum heilt.26Þá hann hafði nú lengi talað um fyrir henni, tókst hún á hendur að yfirtala soninn.27Hún laut niður að honum, og mælti, í því hún gjörði gys að þeim grimma harðstjóra, á tungu feðranna: Sonur! aumkastu yfir mig, sem bar þig níu mánuði undir hjartanu, og hafði þig þrjú ár á brjósti, og hefi nært þig og uppalið til þessa aldurs, og um þig hirt.28Eg bið þig, barn, horfðu upp í himininn og á jörðina og á allt sem í þeim er að sjá og þekkja, (og vit) að Guð hefir gjört þetta af engu, og að mannkynið er eins til orðið.29Vertu ekki hræddur við þennan böðul, heldur sýn þig verðugan þínum bræðrum og þol þú dauðann, svo eg fyrir Guðs náð finni þig aftur, með þínum bræðrum.
30Meðan hún var enn að tala, sagði ungmennið: hvörs bíðið þér? eg hlýði ei kóngs boðinu, heldur hlýðnast eg boði lögmálsins sem vorum feðrum var gefið, fyrir Móses.31En þú sem ert orðinn frumkvöðull alls ills við hebreska, þú munt ei umflýja Guðs hendur.32Því vér þolum illt sakir vorra synda.33En þó að sá lifandi Drottinn reiðist oss um stuttan tíma, til að refsa oss og aga, svo mun hann líka sættast aftur við sína þjóna.34En þú guðlausi maður, og allra manna afhrak, hroka þér ei til ónýtis, ætlandi upp á fánýta von, þá þú lyftir upp þinni hendi móti hans þjónum.35Því enn hefir þú ei sloppið undan hegning þess almáttuga og alskyggna Guðs.36Vorir bræður hafa nú þolað stutta kvöl og eru í sáttmála Guðs komnir til eilífs lífs; en þú munt fyrir Guðs dóm meðtaka makleg laun fyrir þinn ofmetnað.37Eg, eins og bræður mínir, gef út líkama og sál fyrir feðranna lögmál, og bið Guð, að hann skjótt verði náðugur sínu fólki, og að þú hljótir að viðurkenna, undir kvölum og pyntingum, að hann sé sá eini Guð,38en að reiði hins almáttuga, sem maklega er komin yfir allt vort fólk, stöðvist hjá mér og mínum bræðrum.39Kóngurinn orðinn óður, fór enn verr með þennan, en hina aðra, því af spottinu varð hann enn heiftugri.40Og svo uppgaf þessi saklausi (unglingur) andann í fullu trausti til Guðs.41Seinast eftir sonuna dó líka móðirin.42Þetta sé nóg sagt um blótin og þær óvenjulegu pyntingar.