Harmakvein út af töku Jerúsalemsborgar og hertekningu fólksins.

1Ó! hvörsu einmana er nú borgin sem áður var svo fjölbyggð! Hún er orðin eins og ekkja; hún, sem var svo voldug meðal þjóðanna; sem drottnaði yfir (skatt)löndum, er nú orðin skattgild.2Hún grætur sáran á nóttunni, svo tárin streyma ofan eftir kinnum hennar; hún á engan að, af öllum sínum (fyrri) elskhugum, sem huggi hana, allir vinir hennar hafa brugðist henni, og eru orðnir að óvinum hennar.3Júda (Gyðingaþjóð) hefir flúið land, fyrir eymd og þungri ánauð; hún tók sér bústað meðal heiðingja, en finnur enga ró, allir hennar ofsóknarmenn ná til hennar í þrengslunum.4Síons vegir syrgja, af því engir fara (um þá) til hátíðahalds; öll hennar (borgarinnar) hlið eru í auðn, prestar hennar andvarpa, meyjar hennar eru sorgbitnar, og henni sjálfri gengur þetta nærri.5Mótstöðumenn hennar vaða uppi, óvinir hennar eiga góða og náðuga daga, því Drottinn hefir hrellt hana vegna hennar mörgu afbrota, börn hennar urðu að hrekjast í útlegð (fangelsi) fyrir óvinunum.6Allt skart Síonsdóttur er horfið henni, höfðingjar hennar eru orðnir eins og hirtir, sem ekki finna haga, og flýja magnþrota undan þeim sem eltir (þá).7Jerúsalem má, á sínum eymdar- og ofsóknardögum, muna til allra kjörgripa sinna, er hún átti forðum daga; nú, þegar lýður hennar er fallinn fyrir óvina hendi, og enginn hjálpar henni, horfa óvinirnir á hana, og hlæja að óförum hennar.8Jerúsalem syndgaði mjög, þar fyrir er hún orðin að viðurstyggð, allir sem heiðruðu hana, virða hana nú lítils, því þeir sjá vanvirðu hennar; hún andvarpar sjálf, og snýr sér undan (fyrirverður sig).9Hennar óþverri loðir við klæðafald hennar; hún athugaði ekki afdrif sín, því er hún nú svo skelfilega afmáð, enginn huggar hana. „Álít þú, Drottinn! eymd mína, því óvinurinn er mitt ofurefli“!10Óvinurinn hefir slegið hendi sinni yfir alla hennar kjörgripi, því hún hefir horft á, að heiðingjarnir gengu inn í hennar helgidóm; hafðir þú þó boðið: þeir skulu ekki koma í þína samkundu.11Allur lýður hennar andvarpar leitandi fæðu; þeir gefa dýrgripi sína fyrir mat sér til hressingar. „Sjá, Drottinn! og gef því gaum, að eg er svívirt“!
12„Komist þér ekki við, allir sem framhjá farið um veginn? athugið og skoðið, hvört nokkur neyð líkist minni neyð, sem á mig er lögð, sem Drottinn lét dynja yfir mig á degi sinnar brennandi reiði.13Af hæðum sendi hann eld í bein mín, og hann drottnar þar, hann lagði net fyrir fætur mér, og hélt það mér fanginni a), hann gjörði mig að örbæli, daglega vesæla.14Ok synda minna er bundið (við mig), með hans hendi eru þær fléttaðar saman, og lagðar mér á háls, hann hefir veikt þrótt minn; Drottinn hefir selt mig þeim í hendur, sem eg fæ ekki móti staðið.15Drottinn hefir gjört lítið úr öllum köppum mínum, sem í mér bjuggu, hann stefndi liði móti mér, til að vinna á æskumönnum mínum, Drottinn tróð vínpressu mærinni Júdadóttur b).16Yfir þessu græt eg, auga mitt, auga mitt flýtur í tárum a), því huggarinn er langt frá mér til að hressa mig, synir mínir eru yfirkomnir, því óvinurinn var voldugur“.
17Síon útbreiðir hendur sínar, en enginn er sem huggi hana, Drottinn hefir skipað, að óvinir Jakobs skyldu umkringja hann, Jerúsalem er orðin að viðbjóð meðal þeirra.18„Drottinn er (samt) réttlátur, því eg hafði þrjóskast gegn boði hans; hlustið til, allar þjóðir, og sjáið eymd mína! meyjar mínar og yngismenn eru farnir í herleiðingu.19Eg ákallaði vini mína, en þeir sviku mig; prestar mínir, öldungar í borginni hljóta að deyja, því þeir leita (forgefins) viðurværis handa sér, til að endurnæra líf sitt.20Sjá þú! Drottinn, að eg á bágt! innyflin iða í mér, hjarta mitt berst í brjósti mér, af því eg var svo þverbrotin; að utanverðu hefir sverðið gjört mig barnlausa, að innanverðu (í borginni) er dauðans ímynd.21Þeir heyra andvörp mín, en engan á eg að, sem huggi mig, allir óvinir mínir hafa frétt neyð mína, og fagna, af því þú hefir gjört þetta (farið svona með mig); en láttu daginn koma, sem þú hefir ákvarðað, þá munu þeir verða eins og eg.22Öll þeirra illska komi fyrir þitt auglit, og svalaðu þér á þeim, eins og þú hefir svalað þér á mér, fyrir öll mín afbrot! því andvörp mín eru mörg (þung), og hjarta mitt er fárveikt“.

V. 13. a. Aðrir: hann (Drottinn) lét mig detta aftur á bak. V. 15. Að troða vínpressu, var mikið erfiði; „að troða einhvörjum vínpressu“ þýðir þess vegna: að fara illa með, þjá hann. V. 16. a. Á hebr: „í vatni“.