Af lífláti nokkura galíleiskra tekur Jesús sér tilefni til að áminna til betrunar; dæmisagan um fíkjutréð; Jesús læknar kreppta konu; framsetur dæmisöguna um mustarðskornið og súrdeigið; talar um útskúfun margra, en inntöku heiðingja í Krists ríki; hræðist ekki Heródes; ávítar Jerúsalem.

1Um þessar mundir komu nokkrir til hans, er sögðu honum frá þeim galíleisku, hvörra blóði Pílatus hafði blandað við fórnir þeirra.2Jesús mælti til þeirra: haldið þér að þessir Galílear hafi verið verri menn, en allir aðrir í Galíleu fyrir það, að þeir liðu þetta?
3alls ekki! en trúið mér, nema þér bætið ráð yðar, munuð þér allir eins fyrirfarast;
4eður hvört ætlið þér, að þeir átján, sem turninn féll yfir í Sílóam og varð að bana, hafi verið meira sekir en allir þeir í Jerúsalem búa?5alls ekki! eg segi yður satt: nema þér bætið ráð yðar, munuð þér allir fá sömu afdrif.6Síðan sagði hann þessa dæmisögu: maður nokkur, sem hafði plantað fíkjutré í víngarði sínum, kom og leitaði ávaxta á því, og fann ekki;7þá sagði hann við víngarðsmanninn: í þrjú ár hefi eg komið og leitað ávaxta á þessu fíkjutré og ekki fundið; högg þú það upp, hvörs vegna skal það spilla jörðunni?8Hinn mælti: leyf þú því, Herra! enn nú að standa þetta árið, þar til eg hefi grafið um það og borið að myki,9ef vera kynni að það beri ávöxt; en ef ekki, þá lát þú höggva það upp síðar.
10Eitt sinn, er hann kenndi í einhvörju samkunduhúsi á sabbatsdegi,11bar svo við, að þar var kona, sem haldin hafði verið af sjúkleiksanda í átján ár, hún var kreppt og gat með engu móti rétt sig upp.12Þegar Jesús sá hana, kallaði hann til hennar og mælti: kona! vertú laus við sjúkleika þinn!13síðan lagði hann hendur yfir hana; strax réttist hún upp og lofaði Guð;14en forstöðumaður samkunduhússins, sem líkaði illa, að Jesús læknaði á sabbatsdegi, sagði við fólkið: sex eru dagar þeir, á hvörjum leyft er að vinna, komið þér á þeim og látið yður lækna, en ekki á hvíldardegi.15Honum svaraði Jesús á þessa leið: hræsnari! hvör er sá yðar, sem ekki leysi naut sitt eður asna af stalli, og leiði til vatns á hvíldardegi?16hvört skyldi þá ekki leyfilegt að leysa þessa dóttur Abrahams á sabbatsdegi úr fjötrum þeim, í hvörjum Satan hefir haldið henni í átján ár?17og er hann hafði þetta mælt, blygðuðust allir mótstöðumenn hans, en fólkið gladdist yfir öllum þeim dásemdarverkum, er hann gjörði.
18Einhvörju sinni sagði hann: hvörju er Guðs ríki líkt? eður við hvað skal eg því samjafna?19líkt er það mustarðskorni, sem maður tók og sáði í jurtagarð sinn; það óx og varð að svo stóru tré, að fuglar himins hreiðruðu sig í greinum þess.20Aftur sagði hann: við hvað skal eg líkja Guðs ríki?21líkt er það súrdeigi því, er kona tók og mengaði við þrjá mælira mjöls, og sýrðist þá alltsaman.
22Þegar hann var á ferð til Jerúsalem, fór hann um borgir og þorp, og kenndi;23þá spurði einhvör hann: Meistari! munu þeir ekki verða fáir, sem hólpnir verða? en hann sagði til fólksins:24keppist að komast gegnum hið þröngva hliðið; því eg segi yður satt: að margir eru þeir, sem leitast við að koma þar inn, en geta það ekki a).25Frá þeim tíma að húsbóndinn er uppstaðinn og hefir lokað dyrunum, munuð þér, sem fyrir utan standið, taka að berja upp á og segja: lúk þú upp fyrir oss, Herra! en hann mun svara: eg þekki yður ekki, eg veit ekki hvaðan þér eruð.26Þá munuð þér segja: vér höfum etið og drukkið með þér og á strætum vorum kenndir þú.27En hann mun segja: eg þekki yður ekki, né veit hvaðan þér eruð; farið frá mér allir illgjörða menn!28mun þar þá verða vein og tannagnístran, nær þér sjáið Abraham, Ísaak og Jakob og alla spámennina í Guðs ríki, en yður útrekna.29Þá munu þeir koma frá austri og vestri, norðri og suðri, og sitja til borðs í Guðs ríki;30því gefið gætur að því, að enir síðustu munu verða hinir fyrstu, og þeir síðastir, er fyrstir vóru.
31Þenna sama dag komu til hans nokkrir farísear og sögðu: far þú héðan, því Heródes situr um líf þitt.32Hann mælti: farið þér og segið þessum ref: eg rek djöfla út, og held áfram að lækna í dag og á morgun, en á þriðja degi mun líf mitt enda;33þó verð eg að halda áfram í dag og á morgun og þann komanda dag; því það hæfir ekki að nokkur spámaður sé líflátinn fyrir utan Jerúsalem.34Jerúsalem, Jerúsalem! þú, sem aflífar spámennina, og grýtir þá, sem til þín eru sendir, hvörsu oft hefi eg ekki viljað samansafna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, en þér hafið ekki viljað.35Þar fyrir mun yðar bústaður í eyði látinn verða. Trúið mér, að þér munuð ekki sjá mig til þess að sá tími kemur, er þér segið: velkominn veri oss sá, er kemur í Drottins erindi!

V. 18–21. Matt. 13,31–33. Mark. 4,30–32. V. 24. Matt. 7,13.14. a. Þ. e. af því þeir eru þess ekki verðir. V. 26. Matt. 7,21–23. V. 29. Matt. 8,11.12. V. 30. Matt. 19,30. 20,16. Mark. 10,31. V. 34–35. Matt. 23,37–39.