Fyrirsögð eyðilegging Sýrlands og Ísraelsríkis, og hernaður Egyptalands og Assýríumanna á Júdaríki.

1Svo bar til á dögum Akasar, konungs í Júdaríki, Jótamssonar, Usíassonar, að Resín, Sýrlandskonungur, og Peka Remalíuson, konungur í Ísraelsríki, fóru upp til Jerúsalemsborgar til að herja á hana, en gátu ekki tekið borgina.2En er ættniðja Davíðs (konungi Júdaríkis) kom sú fregn, að Sýrlandskonungur hefði tekið sér stöðu í Efraimslandi (Ísraelsríki), þá skelfdist hjarta hans og þegna hans, eins og þá skógartré skjálfa fyrir vindi.3Þá sagði Drottinn til Esajasar: gakk þú og Sear-Jasúb, sonur þinn, til móts við Akas, til enda veituskurðar hinnar efri tjarnar, á leið til akurs bleikjarans,4og seg til hans: vert þú var, og þó ókvíðinn; óttast þú eigi, og lát eigi hjarta þitt blotna fyrir þessum tveimur rjúkandi brandabrotum, fyrir hinni brennandi reiði þeirra Resíns og Sýrlendinga og Remalíusonar,5þó Sýrlendingar og Efraimsmenn og Remalíusonur hafi ill ráð með höndum í gegn þér, og segi:6látum oss fara herför inn í Júdaríki, setjast um borgina, taka hana með herskildi, og setja Tabealsson þar til konungs.7Svo segir Drottinn hinn alvaldi: það skal ekki takast, og ekkert þar af verða.8Dammaskusborg skal vera höfuðborg Sýrlands, og Resín skal vera höfuðsmaður Dammaskusborgar; en áður liðin eru sextíu og fimm ár, skal Efraimsríki sundrast, og ekki vera lengur þjóð fyrir sig.9Samaría skal vera höfuðborg Efraimsættar, og Remalíuson höfuðsmaður Samaríu. Ef þér trúið mér ekki, þá munuð þér eigi fá staðist.
10Ennfremur talaði Drottinn til Akasar, og sagði:11bið þér eins teikns af Drottni, Guði þínum, hvört sem þú vilt heldur beiðast teikns úr djúpinu eða ofan að frá hæðum.12Akas svaraði: eg vil einskis biðja, svo eg freisti ekki Drottins.13Þá sagði hann (Esajas): heyrið, þér ættniðjar Davíðs! nægir yður það ekki, að þér ertið mennina, nema þér einnig ertið minn Guð?14Þess vegna mun hinn Alvaldi gefa yður teikn sjálfur: sjá! mey nokkur mun barnshafandi verða og son fæða, þann mun hún heita láta „ImmanúEl“ (Guð er með oss).15Skyr og hunang skal hann eta a), uns hann hefir vit á að hafna hinu illa og útvelja hið góða.16En áður en sveinninn hefir lært að hafna hinu illa og útvelja hið góða, skal land það, hvörs tvo konunga þú hræðist nú, verða í eyði lagt.
17En yfir þig og yfir þegna þína og yfir föðurætt þína mun Drottinn, fyrir hönd Assýríukonungs, koma láta þá daga, að ekki hafa slíkir yfir liðið, síðan Efraimsætt skildist frá Júdaríki.18Á þeim degi mun Drottinn blístra á þær flugur, sem til eru í öllum Egyptalands síkjum, og á þær býflugur a), sem eru í Assýríulandi.19Þær munu koma, og leggjast flokkum saman í eyðidalina, í bergskorurnar, í alla þyrnirunna, og í alla flóa.20Á þeim degi mun hinn Alvaldi með hárknífi, leigðum fyrir handan fljót, fyrir hönd Assýríukonungs afraka hárið af höfðinu b) og fótunum, og einnig burtnema skeggið.21Þá mun svo fara, að ali maður kú og tvær ær,22þá skal hann fá svo mikla mjólk, að hann skal hafa skyr til matar; því á skyri og hunangi skal hvör maður lifa, sem eftir verður í landinu.23Þá mun svo fara, að allsstaðar þar sem áður stóðu þúsund víntré, þúsund sikla virði, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar.24Menn skulu ekki fara þar um, nema þeir hafi með sér örvar og boga; því allt landið skal ekki annað vera en þyrnar og þistlar.25Upp í þau fell, sem áður voru slóðadregin, skal engi maður fara, af hræðslu fyrir þyrnum og þistlum. Menn munu hleypa þangað nautpeningi, og láta sauðfénað traðka þá niður.

V. 15. 1. Vegna þess að korn og vín fékkst ekki til hlítar, meðan ófriðurinn stóð. Skyr eða mjólkurhlaup; aðrir „smjör“, en Austurlendingar hafa ekki smjör, nema sem læknismeðal. V. 18. a. Býflugur, aðrir „hvefsur“ (einskonar villibýflugur eða randaflugur). V. 20. b. Raka hárið af höfði og fótum er að refsa þeim æðri og lægri; að burtnema skeggið, að gjöra mann fyrirlitlegan, samanb. 9,14.15.