Seffanías lýsir siðaspillingu Gyðinga; þeir vildu ekki skipast við þær áminningar og bendingar, sem Guð hafði gefið þeim, og því hlaut hann að hegna þeim. Miskunnsemi Guðs við sitt fólk.

1Vei hinni þverúðarfullu, saurguðu og ofríkisfullu borg!2Hún hlýðir engum áminningum, hún tekur engri hirtingu; hún treystir ekki Drottni, og nálægir sig ekki Guði sínum.3Höfðingjar þeir, sem í borginni eru, eru sem grenjandi ljón; dómendur hennar eru sem úlfar á kvöldum, þeir er ekkert leifa til morguns;4spámenn hennar eru hégómlegir og tryggðarlausir menn; kennimennirnir vanhelga helgidóminn, og brjála lögmálinu.
5Drottinn, hinn réttláti, er mitt í borginni; hann gjörir ekkert rangt: á morgni hvörjum leiðir hann sitt lögmál í ljós, og lætur það aldrei hjá líða; en hinn óguðlegi kann ekki að skammast sín.6Eg afmáði þjóðirnar: þeirra múrveggir urðu niðurbrotnir: eg lagði stræti þeirra í eyði, svo þar var enginn á ferð: borgir þeirra urðu herjaðar, svo þar fannst enginn maður, og enginn bjó þar.7Eg sagði: nú muntu vilja óttast mig, nú muntu vilja láta þér segjast, svo þinn bústaður verði eigi afmáður, með öllu því sem eg hefi gefið þér! Nei, það er öðru nær! þeir eru kostgæfir í því að fremja alls konar illskuverk.8Bíðið þess vegna, segir Drottinn, eftir þeim degi, þá eg mun upp rísa til rána; því það er mitt ásett ráð, að eg vil samansafna þjóðum og stefna saman konungaríkjum, til þess að úthella yfir þá minni heift, allri minni brennandi reiði: því fyrir eldi minnar vandlætingar skal allt landið verða eyðilagt.
9Þá vil eg gefa þjóðunum hreinar varir, svo allir skulu ákalla nafn Drottins og þjóna honum samhuga.10Handan frá Blálandsvatnsföllum skulu mínir tilbiðjendur, mitt sundurdreifða fólk færa mér gáfur.11Á þeim degi skaltu ekki brjóta móti mér með neinum þeim verkum, sem þú þurfir að skammast þín fyrir: því þá verð eg búinn að ryðja þeim burtu frá þér, sem ofkættust af þínum mikilleik, og þá skaltu ekki framar ofmetnast af mínu heilaga fjalli.12Eg vil láta í þér eftir verða lítillátt og auðmjúkt fólk, sem vona skal á nafn Drottins.13Þeir, sem eftir verða af Ísraelsmönnum, skulu engi rangindi fremja, og ekki tala lygar: í munni þeirra skal ekki finnast sviksöm tunga; heldur skulu þeir vera sem sú hjörð, sem gengur á beit og liggur, án þess nokkur styggi hana.
14Gleð þig, Síonsdóttir! kyrja þú upp, Ísraelslýður! vert glöð og fagna af öllu hjarta, Jerúsalemsdóttir!15Drottinn hefir afmáð þinn dóm, og útrýmt óvin þínum. Drottinn, konungur Ísraelsmanna, er hjá þér; þú skalt á engu illu kenna framar.16Á þeim degi mun sagt verða til Jerúsalemsborgar, „óttast ekki!“, og til Síonsfjalls, „lát ekki hugfallast!“.17Drottinn, þinn Guð, er hjá þér, hinn máttugi Frelsarinn; hann skal fagna yfir þér með glaðværðarsöng.18Eg vil saman safna þeim, sem útilokaðir voru frá hinum helgu samkomum; og þú skalt laus verða við það, sem var þér til byrði og vanvirðu.
19Sjá þú! á þeim tíma skal eg eiga erindi við alla þá, sem þig pláguðu; eg vil hjálpa hinum höltu, samansafna hinum tvístruðu; eg skal gjöra þá loflega og nafnfræga í öllum þeim löndum, hvar þeir áður voru vanvirtir.20Á þeim tíma vil eg leiða yður hingað, og á þeim tíma saman safna yður: því eg vil gjöra yður nafnfræga og loflega meðal allra þjóða í heimi, þegar eg, að yður ásjáendum, leiði heim aftur þá af yður, sem herleiddir hafa verið, segir Drottinn.