Davíð verður konungur í Júdeu. Isboset í Ísrael.

1Og það skeði þar eftir að Davíð spurði Drottin b) og mælti: skal eg fara héðan til einhvörrar borgar í Júdeu? og Drottinn svaraði honum: far þú! og Davíð spurði: hvört skal eg fara? og hann sagði: til Hebron.2Og svo fór Davíð þangað, og líka hans tvær konur Ahinoam, frá Jesreel, og Abígael kona Nabals, Karmelíta c),3og líka tók Davíð menn, sem hjá honum voru, með sér, hvörn einn og hans hús, og þeir bjuggu í Hebrons stöðum.4Þá komu Júda menn og smurðu Davíð konung yfir Júda hús.
Og menn sögðu Davíð frá og mæltu: mennirnir í Jabis í Gíleað d) eru það sem hafa jarðað Sál.5Þá sendi hann sendiboða til mannanna í Jabes í Gíleað og mælti til þeirra: verið blessaðir af Drottni að þér gjörðuð þetta kærleiksverk á yðar herra, á Sál og grófuð hann.6Sýni nú Drottinn yður elsku og trúfesti e), og líka vil eg gjöra yður gott, sakir þess þér gjörðuð slíkt.7Og styrkið nú yðar hendur og verið röskir menn, þó að Sál yðar herra sé dauður, hefir Júda hús smurt mig konung yfir sig.
8En Abner, sonur Ners, hershöfðingi Sáls f) tók Isboset, son Sáls, og fór með hann yfir til Mahanaim,9og gjörði hann að konungi yfir Gíleað, Assuri, Isreel, Efraim og Benjamín og yfir öllum Ísrael.10Isboset sonur Sáls var fertugur þá hann varð konungur yfir Ísrael, og tvö ár ríkti hann. Einasta Júda hús hélt sig til Davíðs;11og tala þeirra daga sem Davíð var konungur í Hebron yfir Júda húsi, var 7 ár og sex mánuðir.
12Og Abner sonur Ners, fór með þénurum Isbosets, Sáls sonar frá Mahanaim til Gíbeon.13Og Jóab sonur Seruja, og þjónar Davíðs, drógu líka út, og þeir hittust við Gíbeonsvatn, og þessir lögðust þessamegin og hinir hinumegin vatnsins.14Þá sagði Abner við Jóab: láttu sveinana standa upp og leika fyrir oss! og Jóab mælti: þeir mega það.15Og svo stóðu þeir upp og gengu fram eftir tölu, 12 fyrir Benjamín og Isboset son Sáls, og 12 af Davíðs þénurum.16Og hvör greip hendi í annars höfuð, og lagði sverð í annars síðu, og þeir féllu hvör með öðrum. Og menn kölluðu þann sama stað: Helkat-Hafurim (Skurðarakur), hann liggur hjá Gíbeon.17Og á þeim degi var harður bardagi, Abner og Ísraelsmenn voru sigraðir af Davíðs þénurum.
18Þar voru þrír Serújusynir, Jóab, Abísai og Asahel a). Asahel var fótfrár sem rádýr á mörkinni b).19Og Asahel rann eftir Abner og vék hvörki til hægri né vinstri, heldur elti hann einan,20þá sneri Abner sér við og mælti: ert þú Asahel? og hann svaraði: eg em.21Abner sagði til hans: vík annaðhvört til vinstri eða hægri, og náðu einhvörjum ungu mannanna, og flettu hann vopnum hans; en Asahel vildi ei frá honum fara.22Og Abner mælti aftur við Asahel: vík þú burt frá mér! því skyldi eg leggja þig að velli? hvörnig gæti eg þá litið upp á Jóab bróður þinn.23En hann vildi ekki víkja. Þá lagði Abner hann í kviðinn með spjótsbroddinum c), svo út kom um bakið, og hann féll og andaðist með sama, og það skeði, að hvör sem kom á þann stað, hvar Asahel hafði fallið og dáið, hann nam þar staðar.24Og Jóab og Abísai eltu Abner, og sól gekk undir; þá komu þeir að hæðinni Amma sem liggur fyrir framan Gía, á leiðinni til Gíbeonsauðnar.25Þar söfnuðust synir Benjamíns að Abner og urðu flokkkorn, og numu staðar efst á hól nokkrum.26Þá kallaði Abner til Jóabs, og mælti: skal þá sverðið allt af tortína, veist þú ekki, að seinast kemur heift? ætlar þú lengi að draga að segja fólkinu að snúa frá ofsókn þess bræðra?27Og Jóab mælti: svo sannarlega sem Guð lifir! hefðir þú ekki talað (sjá v. 14), þá hefði fólkið frá því í morgun haldið sér frá að ofsækja hvör annan.28Síðan blés Jóab í básúnu d), og allt fólkið stöðvaðist, og þeir eltu ekki Ísrael meir, og börðust ekki framar.
29En Abner og hans menn gengu yfir sléttlendið alla þá sömu nótt, og fóru yfir Jórdan og gengu yfir allt héraðið Bítron e) og komu til Mahanaim.30Og Jóab hætti að elta Abner og safnaði saman fólkinu, þá söknuðu menn 19 manna af Davíðs þénurum, og Asahels.31En Davíðs þénarar höfðu lagt að velli 360 af Benjaminítum og Abners mönnum, sem dauðir voru.32Og þeir tóku Asahel og jörðuðu hann hjá föður hans í Betlehem; en Jóab og hans menn voru á ferð alla nóttina, og komu til Hebron í dögun.

V. 1. b. 1 Sam. 30,8. 23,2.4. V. 2. c. 1 Sam. 25,42. 27,3. V. 4. d. 1 Sam. 31,12. V. 6. e. Rut. 1,8. V. 8. f. 1 Sam. 14,50. 17,55. V. 18. a. 1 Kron. 2,16. b. 1 Kron. 12,8. Sálm. 18,34. V. 23. c. Kap. 3,27. V. 28. d. Kap. 18,16. 20,22. V. 29. e. Sal. Lofkv. 2,17.